United 93

United 93 er enginn subbubjóður. Fyrst þegar ég vissi að þessi mynd væri til, hélt ég að þarna væri á ferðinni Hollywood ógeðsvella um atburði 11. september 2001. Því fer víðsfjarri og kann skýringin að vera sú að leikstjóri myndarinnar er breskur. Samtöl og samskipti eru á eðlilegum nótum. Þá á ég við að öll samskipti fara fram eins og þau eigi sér stað í raunveruleikanum. Þær persónur sem eru mest áberandi út myndina eru rétt svo lauslega kynntar í byrjun, en ekki verið að tíunda óendanlega hver bakgrunnur þeirra er, til þess eins að maður samsvari sér með þeim. Sú aðferð er alveg ótrulega ófrumleg og leiðinleg. Þegar líða tekur á atburðinn, þá fer maður að finna áþreifanlega til með fólkinu sem mannar þessa vél. Hryðjuverkamönnunum er ekki lýst sem einhverjum villimönnum og drulluháleistum, heldur sem leiksoppum sem er ekkert minna skelfingu lostnir og saklausir farþegarnir. Þessi mynd er vel þess virði og leyfi ég mér að mæla hiklaust með henni.

Comments are closed.