Miskunnarlaus heimur viðskipta.

Ég er nýgræðingur í örum og miskunnarlausum heimi viðskipta og þrátt fyrir að hafa lagt á minnið öll heilræði Donalds ljóta Trump, er eitt og annað sem mér er að lærast þessa daganna.

Ég hef áður nefnt hversu hryllilega mér gengur að leggja stund á samskipti við annað fólk og er óhætt að fullyrða að samskipti eru nánast óhjákvæmileg í hörðum heimi fyrirtækjareksturs.

Ég hef komist að því að ég er allur að vilja gerður til að gleypa nánast hvaða vitleysu sem er hráa, eða illa matreidda. Ég geri bara einfaldlega ráð fyrir því að fólk sé frekar vel innréttað og byggi á heilindum frekar en eigingirni og viðurstyggð. Ef einhver kemur að máli við mig og heldur úti langa útlistun á því hvers vegna ákveðin element virka á þennan veginn en ekki hinn, þá er ég tilbúinn til að trúa því heilshugar og er jafnvel tilbúinn að fara í sleik við viðkomandi, eða gefa honum munngælur til að innsigla ánægjuleg viðskipti.

En hlutirnir virka ekki alveg svona niður í Austurstræti og er ég að komast að því að þessi heimur hans Donalds Trumps er síður en svo fallegur. Ég hef því tekið nýjan pól í hæðina, þar sem allir héðan í frá verða í mínum augum drulluháleistar og viðbjóðar, þangað til þeir hafa sannað það fyrir mér á afdrifaríkan máta. Ég frá þessari stundu verð íslenski túrhesturinn sem allir eru alltaf að svindla á. Var ekki búið að lofa okkur vínsmökkunarferð, þar sem maður getur hellt í sig ótakmarkað? Spyr ég. En nei. Þessi ferðaskrifstofa hefur traðkað á mér í síðasta skiptið. Þessa daganna er að fæðast ný manneskja í Austurstræti og hún kallar ekki allt ömmu sína.

One thought on “Miskunnarlaus heimur viðskipta.”

  1. Já ég sé að vefurinn hefur fengið öllu kaldara og ákveðnara viðmót í stíl við þessa viðhorfsbreytingu þína.
    mikið er ég feginn að vera bara óbreyttur launaþræll og wannabe breikdansari!

Comments are closed.