Kynþokkafulli veðmangarinn

Sviptingar í viðskiptalífi hafa orðið þess valdandi að ég hef ekki séð mér fært að skrifa daglega veflóka. Ég hef á örskömmum tíma breyst úr tepru í svellkaldan kaupsýslumann sem kallar ekki allt ömmu sína. Ég er að sama skapi orðinn mun þokkafyllri en ég var þegar ég ástundaði vinnu hjá hinu opinbera. Það fer mér mun betur að vera á opnum markaði þar sem fólk hefur það ekki fyrir venju að tala með rassaholunni. Hjá hinu opinbera á fólk það til að tala í þeim tilgangi einum að tala. Það er ákveðin kúnst verð ég að viðurkenna. Fólk hjá hinu opinbera er sérstaklega æft í að tala á þann máta að viðmælandinn ósjálfrátt leitar uppi hinn svokallaðan hamingjureit(happy place) í huga sér. Þetta er ósjálfráð viðbrögð við áreiti og kemur í veg fyrir andlegt tjón. Að halda meðvitund meðan opinberum starfsmaður viðhefur talað mál er ávísun á geðveiki eða hreinlega dauða. Eða dauða og síðan geðveiki. Ég man aldrei í hvaða röð þetta kemur. Ég hef einnig setið ófáa fundi hjá hinu opinbera þar sem ég hef þurft að láta sem ég hafi virkilegan áhuga á því sem um er rætt. Ég hef oftar en ekki engan snefil af áhuga. Á þeim stundum leita ég mér skjóls í dagdraumum. Ég sé sjálfan mig stunda sjálfsþurftabúskap. Vökva tómatana mína. Lesa bækur í sólinni. Drekka uppsprettuvatn. Spranga niður hlíðina flautandi lítinn lagstúf. Nugga á mér hökuna og segja eitthvað gáfulegt sem allir viðstaddir verða óumflýjanlega dolfallnir yfir. Ég er þakklátur fyrir hamingjureitinn minn, því að ég stend fastur í þeirri trú að hann verði þess valdandi að ég haldi geðheilsu aðeins lengur en áætlað var.

2 thoughts on “Kynþokkafulli veðmangarinn”

  1. Fallegur staður Siggi. Ég fór að hugsa um minn. Hann er ekki ljótur heldur. Reyndar hef ég komið á stað sem minnir mig á þinn. Það var í suður frakklandi. Þar stunduðu nokkrir hippar sjálfsþurftabúskap og þar smakkaði ég besta tómat sem hefur komið inn fyrir varirnar á mér. Hann var víst gróðursettur á sérlega góðum tímapunkti hvað varðaði stjörnurnar á himnum. Þær höfðu áhrif á bragðið. Og það var divine.

    Minn staður er meira svona inni í gegnsærri kúlu sem flýtur rólega um fyrir ofan allt og alla. Ég sit í henni og líður eins og fimmta meðlimnum úr ABBA. Glansandi og lekker. Svo ómar eitthvað lag sem minnir á lagið In Heaven, úr Eraserhead. Þetta sem konan í ofninum söng. Og ég er alls ekki mjög gáfuð. Frekar klúless bara og hress.

Comments are closed.