Total eclipse of the heart

Er ég vafraði um töfraheima alnetsins rakst ég á sönglagatexta sem minnti mig óþyrmilega á ömurleg unglingsár mín. Tónlistarmaðurinn sem á þennan texta heitir Bonnie Tyler og var afar vinsæl þegar ég var að umbreytast úr krakkaskrípi yfir í alvöru karlmenni.
Lagið, Total Eclipse Of The Heart. Á þeim tíma sem ég hélt einna mest upp á þetta prýðilega lag, var ég staddur í bekkjaferð með einu því almesta samansafni af sorpi sem skipað gat einn grunnskólabekk. Hafi innræti bekkjasystkina minna verið einhver vísir þess hvernig manneskjur þær kæmu til með að verða á fullorðinsárunum. Þá get ég fullyrt að lukka mín væri mikilfengleg ef ég þyrfti aldrei að bera þau augum aftur svo lengi sem ég lifi.
Ég verð þó viðurkenna að það er ein og ein persóna úr þessum bekk sem ég ber hlýhug til og finn ég fyrir þeim hlýhug þegar ég er búinn að leggja talsverða ástund á andlega iðkun af þeim toga sem ég tel tilheyra tískunni á hverju tímabili fyrir sig.

Þetta er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt því það er ein manneskja úr þessum bekk sem mér þykir ósköp vænt um, og kostar það mig enga sérstaka áreynslu.

Á þessum tíma í fortíðinni þegar allt ku hafa verið miklu betra en það er núna. Í þá gömlu góðu daga er oft talað um, þannig að það hlítur allt að hafa verið miklu betra en það er núna. Er ekki svo? Allt er kannski miklu betra en það er núna, skiptir einu hvort það á sér líf í fortíð eða framtíð.
Allavega. Í þessari ferð lærði ég að reykja. Mér þótti það tilkomumikið. Ég hef nákvæmlega enga hugmynd um það hvers vegna mér þótti það tilkomumikið, því nú til dags finnst mér ekkert kjánalegra en að reykja. Þá meina ég ekki neitt af því sem maðurinn treður inn í vit sér er tilgangslausara en sigarettureykur.
Ég get vel skilið að fólki finnst gaman að drekka sig fullt eða hrúga í sig eiturlyfjum. Að reykja er hinsvegar ekkert gott, lyktar ógeðslega og er öllum til ama og leiðinda.

Fullt fólk getur hinsvegar verið sérstaklega skemmtilegt, eða ég hef ekki orðið var við annað hérna fyrir utan heimili mitt um hverja einustu andskotans helgi. Þrátt fyrir það hvað mér finnst ömurlegt að reykja, reykti ég í 17 ár.
Er bekkjarferðinni var lokið, lokaði ég mig af í svokölluðu myrkraherbergi til að framkalla ljósmyndir. Af kassettu spilaði ég lagið Total Eclipse Of The Heart og söng hástöfum með. Þetta var æðisgengileg stund sem ég átti þarna með sjálfum mér.
Þess ber einnig að geta að á meðan ég hef skrifað þennan tilgangslausa veflók hefur lagið hljómað í hausnum á mér. Það er svona vont/gott. Samt meira gott en vont.

3 thoughts on “Total eclipse of the heart”

  1. siggi. oft, þegar ég þarf að ná athygli þórólfs þá segi ég
    “Turn around, bright eyes”

    og það er fallegt og gott.

Comments are closed.