Þögn

Ég sat með fyrirfólki og snæddi hádegisverð á einu af því mest hipp og kúl veitingastað sem er að finna í menningarborginni Reykjavík. Þennan veitingastað sækja flottasta og frægasta fólkið á þessum guðdómlega ísklump.

Ég man að fyrir 6 árum síðan sótti ég barstaðinn Hland Rokk á smiðjustíg. En guð sé oss næstur hvað ég sjálfur er orðinn fínn og flottur. Þarna sat ég og talaði digurbarkalega um verðbréf, bókmenntir og það fínasta og flottasta í tískunni.

Ég hef orðið var við að það er talsverð kúnst að halda samræðum lifandi, en þetta er farið að leika í höndunum á mér. Ég finn fyrir því að ég er alveg öruggur svo lengi sem að það er aldrei þögn, hverjar svo sem aðstæður eru. Þetta getur reynt töluvert á. Ég þarf tildæmis að gera mér upp töluverðan áhuga á öllu því sem er talað um, og ég er orðinn soldið æfður í því.

Í dag kom upp óþægileg þögn af þeirri tegund sem getur gersamlega lagt einn svona hádegisverð í rúst. Klukkan tifaði og enginn sagði neitt. Sumir þóttust beina allri sinni athygli að því að borða eða súpa á drykkjum. Ég sjálfur var byrjaður að svitna. Við vorum búin að tala um allt sem skiptir máli í þessum heimi, sem er Magni og Rock Star, nýjasta tíska, hversu vel Nylon klúbbnum gengur í útlöndum og svo hver er að skrönglast á hverjum.

Ég greip þá til þess bragðs að brydda upp því í hversu nýstárlegu íláti salt og pipar er borið fram á þessum fína og flotta veitingastað. Mér alls ekki til mikillar furðu upphófust miklar spekúlasjónir um það hvernig þessu væri háttað. Spjallið vék því næst að öðrum kryddtegundum eins og MSG, sem er svo gott að það ætti bara hreint og beint að vera sett í drykkjarvatnið.

Þessi hádegisverður var mér mikill lærdómur. Og ég sem hélt að ég þyrfti að fara að splæsa í Dale Carnegie námskeið.

Ó, nei.

Ég er samskiptakóngurinn í þessu undarlega máli.

6 thoughts on “Þögn”

  1. Mér finnst nú ekki til mikils ætlast að fara fram á það við þig herra Segurður að þú verðir hér með vikulegt rapport þar sem farið væri í saumana á einmitt hver er að skrönglast á hverjum.

    Einnig er spurning hvort ekki væri fínasta búbót fyrir þig að halda einmitt námskeið Dale Carnegie til höfuðs.

  2. Þú ert óneitanlega alltaf samskiptakóngurinn í hvaða máli sem er. Það verður ekki tekið af þér.

  3. Þakka þér fyrir kæra Belee. Eftir ömurlega útreið í skoðanakönnun á zeranico.com, þykir mér vænt um þessa tröllatrú sem þú hefur á mér.

Comments are closed.