Mótherjinn

Ég hef sagt sjálfum mér stríð á hendur. Ég hef í hyggju að spara engu til að vinna þetta stríð. Þessi barátta á sér hið arabíska heiti Jihad. Þegar talað er um Jihad nú á dögum er átt við heilagt stríð Múslima gegn vestrænum heimi, eða vestrænum gildum, en þessi skilningur heimsbyggðarinnar er togaður og teygður, svo ég orði það pent.

Jihad á við um hina innri báráttu sem er álitið að hver maður þurfi að heyja. Jihad er staðfesta mannskepnunnar í að breyta rétt, þó sér í lagi þar sem aðstæður eru henni sjálfri ekki hagkvæmar.

Síðustu mánuði hef ég legið í lestri á andlegum fræðiritum úr ýmsum áttum. Ég fann sjálfan mig knúinn til að reyna að betrumbæta mig í andlegum skilningi. Einfaldlega til að komast af í þjökuðum heimi. Ég hef það upp úr einu af þessu ritum að hið viðurstyggilega egó verður að deyja. Egóið eða mótherjinn eins og hann er kallaður í einum af þessum fræðum, er voldugur og bíræfinn andskoti. Mótherjinn er sá hinn sami og reynir með öllum tiltækum ráðum að knésetja manneskjuna með því að telja henni í trú um að hún sé ömurleg eða of mikið fyrirtak til að geta gengið meðal meðbræðra sinna. Mótherjinn framleiðir ótta, vænisýki, feimni, angist, óöryggi, sjálfumgleði, hégóma og þunglyndi, ásamt líkamlegum sjúkdómum sem eru oftar en ekki uppskera þess hvernig sálarlífi manneskjan lifir.

Til að drepa mótherjann er svo ég vísi beint í eina skrudduna sem ég hef verið að lesa, áhrifaríkast að klæða sig upp í trúðsbúning og gera sjálfan sig hressilega að fífli. Því meiri sem niðurlægingin er, því meiri er afraksturinn. Það kann að vera að þessi skrif mín hljómi einkennilega, og að undirritaður sé gersamlega að missa tökin á lífi utan félagasamtakanna, en ég get fullyrt að ég hef aldrei verið betur með á nótunum.

3 thoughts on “Mótherjinn”

  1. Núna segir mótherjinn mér í gegnum hinn gamla vin vænisýkina að þú sért að blogga um mig. Þetta er nefnilega hugmynd sem ég fékk á sínum tíma (og hef kannski sleppt mér soldið í); að drepa egóið með því að ýta egóinu út í horn…

    Ég ber mikla virðingu fyrir þér.

Comments are closed.