Kærleikur

Ég hef gert merkilega uppgögvun. Það er heill aragrúi af fólki sem mér þykir alveg afskaplega vænt um. Í ljósi þess að ég taldi mig vera mannhatara, hér á árum áður, þá veit ég ekki hvort ég eigi að bresta í grát eða láta það eftir mér að hlæja. Kannski ég láti mér það nægja að flissa eins og gála á skólabekk.

Það er samt sem áður ekki laust við að ég komi svolítið aftan að sjálfum mér með þessari uppgögvun. Ég hef satt best að segja sett töluvert púður í að sannfæra mig og aðra um að fólk sé í grunninn sjálfselskt og illa innréttað. Ég hef að sama skapi séð sjálfan mig sem vesælt hjartahlýtt fórnarlamb, fætt inn í þennan heim til átröðkunar. Spurning hvort ég kæmist upp með orðið “átröðkun” í orðaspilinu prýðilega scrabble. “Hann er gull af manni, þrátt fyrir þráláta átröðkun meðbræðra sinna”, væri hægt að segja tildæmis.

Ég verð að viðurkenna að væntumþykja af þeirri tegund sem ég greini hér frá, glæðir ódáminn ósvikinni gleði af áður óþekktum uppruna. Talandi um kærleik og gleði, þá í þessum skrifuðum orðum situr fyrir utan gluggann minn harmonikkuspilarinn hressi. Hann er að spila Celine Dion velluna úr Titanic. Ég ætla að bregða mér út fyrir hússins dyr með eftirlætis kúbeinið mitt og kasta kveðju á hann.

7 thoughts on “Kærleikur”

  1. Þar sem ég er nokkuð viss um að gervallt lífið snúist í kringum afturendann á sjálfum mér þá reikna ég með að þú sérst að játa með þessum skrifum kærleika og ástúð í minn garð.
    Ég elska þig líka!

  2. Minn kæri Sigurður, mér þykir líka ógurlega vænt um þig.

  3. Vel mælt, Sigurður. Við kannski skellum okkur saman í ljós við tækifæri…

  4. Ég og siggi verðum mjög uppteknir að læra saman á næstunni svo hann er ekkert að fara neitt í ljós eða þvíumlíkt any time soon…

  5. Mér er hins vegar frekar illa við þig. Þú ert það sem í þykkum doðröntum er kallað á fræðimáli “Viðbjóður”, eða Horribilus ad Nauseam. Mér er hulin ráðgáta hvernig á því stendur að ég þoli þetta öllu lengur.

Comments are closed.