Það er sem gerst hafi í gær

Þeir örfáu dagar sem ég dvaldi í New York rjátlast mér seint úr minni. Þetta voru vægast sagt einkennilegir dagar. Ég gekk fram og aftur Manhattan eins og ég væri vanheill á geði. Ekki að það skipti nokkurn mann máli þarna. En guð sé oss næstur, hvað ég skemmti mér konunglega. Ég sat á kaffihúsum og drakk í mig menningarlífið. Ég upplifði kringumstæður og umhverfið sem ég var staddur í eins og draum eða martröð. Ég var ekki alltaf viss um hvort það var. Það þarf því engan að undra að þegar ég heyri minnst á New York að ég bresti í söng, taki fáein dansspor og detti út um stund.
Ba ba barara, Ba ba barara, These little town blues, are melting away…. Ég þurfti ekki mikið að hafa fyrir mannlegum samskiptum þarna, þó svo að ég væri umkringdur mannmergðinni. Ég get talið mér á fingrum annarar handar hversu oft eða hvernig samskipti ég átti við fólk þarna.

#1 – Ég spurði mann í hótelafgreiðslu hvernig ég gæti fundið hótelið sem ég pantaði mér gistingu á.

#2 – Ég fór inn í raftækjaverslun á Times Squere. Eigendurnir voru upphaflega frá Frakklandi. Mig vantaði batterí í myndavélina mína. Þeir prúttuðu og gerðu að gamni sínu. Þeir spurðu hvað hárskera ég færi til. Einnig spurðu þeir mig á frönsku hvort ég væri frá Frakklandi, því ég væri með svo stórt nef.

#3 – Ég innritaði mig inn á Hotel Carter á Times Square. Konan sem tók við greiðslu var japönsk ásamt öllum öðrum í afgreiðslunni. Ég hafði það á tilfinningunni að fyrirvaralaust hæfi einhver skothríð í setustofunni.

#4 – Ég spurði konu í neðanjarðarlestinni hvernig ég kæmist til Brooklyn. Hún gaf mér leiðbeiningar sem gerði það að verkum að ég endaði upp á Coney Island.

#5 – Faðir og dóttir sem sátu á kaffihúsi dáðust af tölvunni minni og spurðu mig í kjölfarið á því hvaðan ég kæmi. Ég sagði þeim að ég væri frá Frakklandi.

#6 – Feitur gyðingur með gleraugu spurði mig á öðru kaffihúsi hvort ég væri með X40 módelið af IBM þeinkpöddu. Ég sagði svo vera og fór að tala um gæði vélarinnar minnar. Áður en ég vissi af var ég farinn að hljóma eins og ömurlegur sölumaður.

#7 – Ég keypti dæmigerða New York húfu. Afgreiðslukonan var kínversk og brosmild.

#8 – Ég keypti föt í GAP. Maðurinn sem var í queer eye for the straight guy, afgreiddi. Hann spurði mig um uppruna og ég sagi honum að ég væri frá Íglandi og að veðrið heima á klaka væri betra en í New York. Hann hló þurrum hlátri. Ég kýldi hann.

#9 – Ég lenti í þvargi við annan afgreiðslumann sem heimtaði að fá að taka af mér bakpokann, meðan ég skoðaði mig um í versluninni. Ég sagði að fyrr dræpist ég.

#10 – Gamall sjónlaus maður reyndi eftir fremsta megni að hjálpa mér með bækur sem ég hafði hug á að kaupa. Á endanum þurfti ég að slá inn í tölvuna leitarorðin, því hann sá ekki almennilega á skjáinn. Mér fannst hann hið mesta fyrirtak.

#11 – Í verslunarmiðstöð einni hitti ég fyrir ísraela sem var að selja dauðahafssölt. Ég sagði honum ævisöguna mína og hann sagði mér sína. Eftir að hann hafði laugað á mér hendurnar upp úr allskonar gúmmilaði, keypti ég af honum krem og saltdrullu sem ég gaf vinkonu minni þegar heim var komið.

#12 – Ég var stöðvaður af tveimur ungum mönnum sem sannfærðu mig um að gerast sponsor fyrir barn á Chile. Þeir sýndu mér mynd af henni, þar sem hún var nánast að drepast úr hor. Núna, einu og hálfu ári síðar fékk ég aðra mynd af henni þar sem hún er búin að bæta á sig minnst 10 kílóum. Hef ég af þessum sökum ákveðið að draga úr fjárframlögum til hennar. Í kjólinn fyrir jólin, segi ég í bréfi til fjölskyldu hennar.

#13 – Á leið minni frá New York hitti ég stúlku sem gaf sig á tal við mig á lestarstöðinni. Hún bjó á Long Island. Í lestinni til Baltimore sagði hún mér ævisöguna sína og ég sagði henni ævisöguna mína. Hún var kolgeðveik og vorum við litin hornauga af öðrum farþegum.

Það er sem gerst hafi í gær.