Að lifa

Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að snúa aldrei aftur til föðurhúsa, á ég miða með flugleiðavél norður í ballarhaf. Ég er búinn að lenda í mörgum ævintýrum hér í landi hinna frjálsu, þar sem smjör drýpur af hverju strái. Ég dvaldi megnið af þessum tíu dögum hjá alveg sérstaklega prýðilegu fólki í Memphis Tennessee. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir að púkka upp á mig.

ME! Thanks for having me. You and your husband are adorable creatures.

Síðustu daga þessa ferðalags hef ég ferðast lítillega í norðrinu. Þar uppgögvaði ég að því fer svo fjarri að ég sé kominn yfir þá áráttu að gera hræðileg mistök. Það að leggja stund á að gera hryllileg mistök, er eitthvað sem ég gerði snemma að sérstöku áhugamáli og má segja að ég hafi hafið þetta tómstundargaman mitt upp á “akademískan level”, ef svo má að orði komast. Einhver skyldi ætla að hægt væri að læra af hryllilegum mistökum, en því er ekki þannig farið í mínu tilfelli. Því oftar sem ég brenni mig, því sólgnari verð ég í að leika mér að eldinum.
Svo fór ég að hugsa það í framhaldi af öllum þessum hræðilegu mistökum sem ég hef ástundað, að það að gera mistök, og jafnvel hræðileg mistök er kannski eitthvað sem er ekki svo hræðilegt, svona þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta er niðurstaða sem ég kom niður á þegar ég keyrði Interstate 95 south, á leið minni til Baltimore. Ég gæti verið heima í hlaði að horfa á raunveruleikasjónvarp í stað þess að vera í fjarlægu landi að gera nokkur vel útilátin mistök. Og þegar ég hugsa það lengra í þessu samhengi, þá held ég taki nokkur prýðileg mistök, með tilheyrandi bömmerum fram yfir raunveruleikasjónvarpið. Því það kemur blóðinu á hreyfingu og minnir mannvesæld á borð við undirritaðan að hann er á lífi.

5 thoughts on “Að lifa”

  1. Hei mister adorable sjálfur og þegar ég sá þig seinast varstu sprelllifandi, ef þú skildir enn velkjast í vafa. Hitt er svo allt annað mál og ég er nauðbeygður til að vera þér sammála varðandi nauðsin þess að gera hressileg misstök. Og í þesskonar iðjur er náttúrulega versta firra að vera með einkurt hálfkák. Ef maður er ekki nær dauða en lífi eftir á, hvers vegna að bridda uppá klúðrinu til að byrja með. Eina sem vert er að hafa í huga, næst þegar maður finnur hjá sér sjálfseiðingarhvöt til að klúðra einkerju rækilega, er að hafa upp á einkurju splunku nýju til að klúðra og ekki klúðra sama gamla kúkinum, ef þú grípur reka minn (if you catch my drift)

  2. Jæja gott að þú ert á heimleið. Þú verður örugglega ekkert smá hissa og glaður þegar þú kemur aftur til Íslands. Það er nefnilega orðið svo fallega jólalegt hér út um allt. Það er alveg hreint yndislegt, það er ekki annað hægt en að hlæja öllum stundum.

    Já og ég er ekkert smá að tengja við þig. Ég gerði einu sinni svona mistök eins og þú ert að tala um. Ég sé ekkert smá eftir því að hafa gert þau.

  3. Það sem einkennir raunveruleikaþætti er dramatík. Þess vegna er ekkert sem jafnast á við það að lifa sinn eigin raunveruleikaþátt í botn með tilheyrandi drama.

  4. Það væri í raun og sanni hræðilegt ef ég gerði aldrei mistök

Comments are closed.