Grátbroslegt mannkynið

Það er eitthvað alveg sérstaklega kynþokkafullt við þessar vísindaskáldsögur sem voru kvikmyndaðar á áttunda áratugnum. Hér gefur að líta Jenny Agutter, ekkert smá hot sem Jessica 6 í myndinni Logan’s run. Myndin gerist í fjarlægri framtíð, þar sem hámarksaldri er haldið í 30 árum til að sporna við offjölgun. Á 30 ára afmælisdeginum er viðkomandi svo sprengdur upp á þartilgerðri samkomu. Snyrtileg og jafnframt skemmtileg afþreying það.

Ég er kominn yfir þennan leyfilega hámarksaldur. Heilum sex árum, meira að segja. Er ég að þroskast eitthvað í takt við aldurinn? Það er milljón dollara spurningin. Stundum leyfi ég mér að efast.

Jenny Agutter er orðin eldgömul kelling. Pakkið sem var með mér í barnaskóla er samansafn af köllum og kellingum. Stúlkan sem ég var einu sinni brjálæðislega ástfanginn af, er orðin gömul bitur kelling. Hún telur það meira segja framför frá þeim tíma sem hún var ung, léttlynd og ævintýragjörn.

Ég get þó ekki annað en hlegið af þessu öllu saman. Enda grátbroslegt þetta líf. Ég get ekki beðið eftir því að sjá, hvað gerist í næsta kapítula.