Khaled Hosseini

Ég gerði tilraun til að horfa á tvær kvikmyndir í kvöld. Kyrrlátt kvöld í einstaklega gefandi félagsskap. Sú hin fyrri var The Black Dahlia. Ég sem alin var upp í dalíublómabeði suður í rassgati, átti kannski von á að þessi mynd höfðaði að einhverju leiti til mín, en því fór fjarri. Ég entist í heilar tíu mínutur yfir henni, þá var ég búinn að afgreiða hana sem óþolandi rusl.
Ég hér á árum áður, þegar lífið var mun betra en það er nú á dögum, var ég sérstaklega hrifinn af Brian DePalma. Hann á myndir sem ég elska, eins og Raising Cain með John Lithgow, The Fury, Carrie, og síðast en ekki síst Scarface. En nú er hann ömurlegur leikstjóri, sem býr til ömurlegar myndir. Skelfilegt er hvernig fer fyrir hæfileikaríku fólki.

Talandi um hæfileikaríkt fólk, þá ætla ég að vona svo sannarlega að eftirlætið mitt hann Darren Aronofsky, kúki ekki í buxurnar með nýjustu mynd sinni The Fountain, en hann gerði einmitt garðinn frægan með myndum eins og Pi og Requiem For A Dream.

Seinni myndin sem ég reyndi við var nýjasta mynd Almodovar Volver, ég gafst upp á henni eftir 30 mínútur, ekki það að mér hafi fundist hún óbærilega leiðinlega, meira það að meðfylgjandi enskur skýringatexti, var götóttur og lélegur.

Ég hef því látið af kvikmyndaglápi þetta kvöldið og ætla þar af leiðandi að gleyma stað og stund með hjálp bókarinnar The Kite Runner. Hún er um tvo vini sem alast upp í Afganistan á þeim tíma sem að viðbjóðslegir Rússar ráðast þar inn. Þetta er erfið, en jafnframt mjög hjartnæm bók um andstyggð mannskepnunnar. Þessi bók hefur vakið áhuga minn á múslimum og togstreitu þeirra í gegnum söguna.

3 thoughts on “Khaled Hosseini”

  1. Yndisleg bók. Ég las hana á bekk í almenningsgarði í Mpl., USA. Grenjaði og hló til skiptis. Grenjaði samt meira.

  2. Algjör snilldar bók. Yndislega epísk og falleg. Merkilegt að þetta sé fyrsta skáldsagan hans. Ótrúlega vel skrifuð.

Comments are closed.