Marteinn – dauði hellisbúans og íslenskrar fyndni

Eftirfarandi er þus.

Til að halda tengingu minni við ættjörðina, fylgist ég grannt með íslenskri dagskrárgerð. Hið ylhýra íslenska tungumál, ef fallega talað, gleður mig meira en litrík blóm, eða 75% súkkulaði. Í gær að loknum annasömum degi í heimi viðskipta, hér í útjaðri helvítis, mitt í hjarta Kaupmannahafnar, samt með annan fótinn í Svíþjóð, – kveikti ég á flataranum sem er boltaður við vegg þessarar dýflissu(mánuðurinn off season kostar bara 120.000.-), reif fram fitubollupakkningar af Doritos flögum, diet kók og horfði ásamt heitmey minni á nýjasta útspil snillingsins Bjarna Hauks: Martein(nei, ég sá ekki Hellisbúann). Nokkrar mínútur inn í þáttinn, leið mér orðið það illa að ég óskaði þess að einhver mér velviljaður linaði þjáningar mínar og tæki mig af lífi. Framleiðendur þáttarins, sem lögðu meira upp úr grafíkvinnslu, en handritinu, þurfa ekki að hafa áhyggjur af að þetta ófyndnasta sjónvarpsefni Íslandssögunnar, finnist á einhverjum torrent tracker. Það eitt og sér segir allt um hversu mikið sorp þetta er.

Að fallega talaðri íslensku.

Ég sá Styrmi Gunnarsson í Kastljósi og þar er maður sem kann að tala íslensku. Málfar hans og það sem hann hafði að segja, virkaði seiðandi á mig, eins og ég væri að borða dýrindismáltíð sem einhver hafði mikið fyrir að framreiða. Í samanburði kallaði Marteinn fram í mér löngun til að drepa, ef ekki einhvern, þá bara sjálfan mig.