be nice to people on your way up

because you’ll will meet them on your way down.

Þetta er lögmál.

Ég er búinn að missa tölu á því hversu oft ég hef þurft að beygja mig niður í duftið og viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég sé stútfullur af kjaftæði.

Já, það er merkilegt til þess að hugsa, en ég var einu sinni hrokafullur maður.

Rétt upp úr aldamótunum síðustu neyddist ég hinsvegar til að endurskoða afstöðu mína til heimsins og taka á nokkrum smávægilegum skapgerðabrestum sem hömluðu mér í leik og starfi.

Ekki alls fyrir löngu hitti ég manneskju sem telur að hún sé komin á þann stað í lífinu að hún hafi efni á að líta niður á annað fólk sem stendur henni ekki jafnfætis. Þegar þessi tiltekna manneskja varð á vegi mínum, var nýbúið að ávíta hana fyrir ókurteisi gagnvart starfsfólki neðar í launastiganum. Ég veit fyrir víst að í þeim heimi sem þessi ákveðna manneskja þrífst, þá er ókurteisi og ruddaskapur ekki liðinn.

En því í ósköpunum er ég að pæla í þessu?

Eins og ég hef áður minnst á, þá hef ég sjálfur orðið uppvís af hroka. Ég hef hinsvegar komist að því með vísindalegum aðferðum að lífið virðist hlaðið lögmálum sem gera manni ekki kleift að komast upp með bull og kjaftæði. Fyrr eða seinna, þarf maður að gjalda fyrir drambið í sjálfum sér.

Er ég ennþá með fordóma fyrir dreifurum og fólki búsettu í Breiðholti. Já, ekki spurning.

Það væri tvímælalaust “ljóðrænt réttlæti”, ef ég seinna meir dalaði uppi annaðhvort í Breiðholti eða út á landsbyggðinni. Og bráðfyndið.