Lífsstíll

Undanfarnar tvær vikur hef ég legið húðlatur í dvala og ekki gert neitt sem skrifað verður á spjöld sögunnar. Sem er nýbreytni í mínu lífi, því yfirleitt hreyfi ég hvorki legg né lið, sé ekki einhver von um það að einhver taki eftir því og helst hrósi mér fyrir ómakið.

Ég kýs að kalla lífsstíl minn síðustu tvær vikur jóla- og hátíðaskap.

Einhver kann að halda ég sé andvígur jólunum, en það er einfaldlega rangt, því jólin er sá tími sem ég blómstra og nýt mín einna best.

Ég nýt mín best þegar ég er búinn að staðsetja mig þannig að tær mínar vísi beinustu leið upp í loft. Þetta er talsverð kúnst og ekki allir sem geta leikið þetta eftir, þannig að sómi sé af. Þetta er staða sem fer mér líka ákaflega vel. Ég er jafnvel tígulegur, er ég ligg sem liðið lík, með tölvuna í fanginu að horfa á þáttaröðina Lost, 54 þætti talsins.

Já, það kemur heim og saman. Ég er dottinn í óreglu.

Ég þessi andlegi maður. Jú, einmitt, sá hinn sami og henti sjónvarpinu sínu á haugana snemma á þessu ári. Sá hinn sami og hætti að neyta sykurs, drekka kaffi, reykja sígarettur, drekka áfenga drykki og leggja ástund á hluti sem glatt hafa mannsins hjarta í hundruðir ef ekki þúsundir ára.

En nú verður breyting á, því ég ætla að hesthúsa 500gr af belgísku súkkulaði sem ég keypti í feigðarför minni til Kanaríeyja. Ha ha ha, ég er verulega óþekkur í kvöld.

Já, nú verður gaman.