2010

Ég var staddur í stærðarinnar kjörbúð á gamlársdag að kaupa inn hátíðarmat, þegar með mér fæddist hugsun sem ég held ég verði að telja til tímamótahugsana. Hugsuninni laust niður þegar ég leit niður í körfuna sem við vorum búin að týna í gæðavörur á borð við: svín, naut, osta, sætabrauð, baunir, súkkulaði, smákökur, sósur, hráefni í salat, – svo eitthvað sé nefnt. Hugsunin var eftirfarandi: Allar þessar fallega pökkuðu góðgjörðir sem liggja hér í körfunni eigum við á næstu dögum eftir að umbreyta í kúk. Eitthvað við þessa hugsun róaði anda minn og færði mig nær skilningi mínum á alheiminum, hvers vegna við göngum þessa jörð, og hvert við erum að fara. Eins og aðrir hugsandi menn hljóta að skilja, var óumflýjanlegt að taka þessa hugsun aðeins lengra. Ég leit upp úr körfunni og virti fyrir mér mannmergðina sem var þarna í sömu erindagjörðum og ég. Flest sem er á boðstólum hér í þessari verslun verður að kúk sem við, viðskiptavinir þessarar verslunar, komum til með að kúka. Ég sá fyrir mér stóra mykjuhauga í stað drekkhlaðinna rekkanna. Á sama tíma öðlaðist ég djúpan skilning á því að við mennirnir erum allir eins.

Með þessum orðum óska ég meðbræðrum mínum í þessu lífi gleðilegs nýs árs.