orðagjálfur

Það er hinn mesti misskilningur að þátttaka í samtökum iðnaðarins krefjist þess af manni, að maður fari að haga sér eitthvað öðruvísi en maður gerði þegar maður var og hét. Eitt útilokar ekkert endilega annað. Það að pissa undir í lífssins ólgusjó hefur til að mynda aldrei verið ánægjulegra en eftir að undirritaður sótti um aðild að ofangreindum samtökum. Það hefur margsannað sig að menn þurfa ekki að láta af þartilgerðum fávitahætti þó svo að þeir komist til álna í títtumræddum félagsskap. Það skiptir hinsvegar höfuðmáli að bera sig mannalega, tala hátt og snjallt, helst þannig að enginn komist að, eða þá að ekki heyrist í öðrum.

Það kemur fyrir að ég sit með fólki sem ber sig alveg sérstaklega mannalega. Oftar en ekki, við þannig aðstæður held ég að mér höndum, og ekki er laust við að mér líði eins og barni í hópi fullorðinna. Þetta er einkennilegt, því í sumum tilfellum er um að ræða fólk sem er mun yngra en ég sjálfur. Það er óhjákvæmilegt er lagt er við hlustir, að fá það á tilfinninguna að þessir aðilar beri höfuð og herðar samfélagsins eins og við þekkjum það.

Mér finnst þetta persónulega fyndið, og ég finn mig jafnvel í félagi við þessa menn og í búningsherbergi niður í Laugum, með graðfolunum sem voru að landa gellum helgina sem leið. Svo á hinn bóginn, þegar kafað er dýpra að þá er mál þessarra manna álíka mikið orðagjálfur og þessir veflókar sem ég skrifa hér á mínum samastað á alnetinu prýðilega. Því eitt er víst að innihaldsminni veflókar skrýddir stórum orðum og orðasamböndum eru vandfundnir.

One thought on “orðagjálfur”

Comments are closed.