Skítur skeður

Í síðustu nótt dreymdi mig að ég væri aftur byrjaður að vinna á sjúkrastofnun í ónefndu bæjarfélagi. Ástæðan fyrir því að ég brá á það ráð að ráða mig til vinnu hjá stofnuninni, var sú að litla sæta fyrirtækið mitt var ekki að landa nógu mörgum kílóum af evrum.

Svo úr varð að ég réði mig til starfa, í þágu almannaheill. Ég var staddur á vaktinni, eins og það heitir, þegar einn vistmaður stofnunarinnar, kastar í mig illa þefjandi hægðum sínum. Hann hlær eins og skrattinn, yfir uppátæki sínu. Ég var í draumnum mjög teprulegur, og þótti illa að mér vegið. Ég rembdist við að skola af mér skítinn, en það var alveg sama hvað ég skrúbbaði og skolaði, allt kom fyrir ekki, alltaf fann ég aðra skítaklessu.

Þegar ég var loksins orðinn tandurhreinn, eða eins tandurhreinn og hægt er að verða í svona starfi, var komið að því að skúra gólf og vaska upp. Við það féllust mér hendur, og ég tilkynnti stúlkunni sem var með mér á vaktinni, að ég þyrfti ekkert á þessari vinnu að halda. Ég væri orðinn mjög virtur kaupsýslumaður í 101 Reykjavík, og það að þrífa skít og drullu, væri bara nú á dögum langt fyrir neðan mína virðingu.

Ég tók af mér uppþvottahanskana og tilkynnti nærstöddum að ég væri farinn, og þau gætu tekið þroskaþjálfunina sína og troðið henni upp í boruna á sér. Ég man að þegar hér var komið við sögu í draumnum, brá gömlum hústjóra fyrir. Í tilefni af athæfi mínu var hann prýddur vanþóknunarsvip. Einmitt þeim vanþóknunarsvip sem fór honum svo afskaplega vel, þegar ég vann hjá honum í vakanda lífi.

Ég gaf honum miðputtann, ( eitthvað sem mig dreymdi um að gera ) og trítlaði á dyr.

Skítur tekur á sig hinar ýmsustu myndir. Í ákveðnum skilningi vinn ég ennþá við að þrífa skít. Skíturinn er kannski stafrænn að þessu sinni, en skítur engu að síður.