Sjaldan höfum við vitað til að nokkur villtist af leið

Ég sat með lostafullum karlmönnum í kvöld sem landað hafa fleiri hundruð kílóum af tjellingum. Að sitja í hópi sem þessum er mikið upplifelsi fyrir mann eins og mig sem ekki hefur hundsvit á hinum svokölluðu tjellingum.

Í aðstæðum sem þessum setur mig hljóðan og ég reyni eftir fremsta megni að læra af reynslu kynbræðra minna. Í kvöld opnaði ég hjarta mitt og viðurkenndi fyrir þessum mönnum að ég væri ömurlegur því ég kynni ekki að tækla tjellingar. Viðbrögðin komu mér á óvart, þar sem þeir sýndu mér skilning, umburðarlyndi og kærleik. Á milli þess sem þeir pikkuðu af áfergju textaskilaboð til tjellinga upp til sjávar og sveita, kepptust þeir við að gefa mér lúðanum heilræði.

Mér þótti vænt um þetta, svo vænt að ég gekk út af kaffi París ekki bara stútfullur af óþrjótandi visku, heldur hrærður og meir, yfir manngæsku þeirri sem móðir jörð hefur alið af sér.

Næsta miðvikudag ætlum við svo að hittast í ræktinni og slá hvorn annan með blautum handklæðum okkur til gleði og skemmtunar.

Þá verður sko gaman.