Umburðalyndi mitt er uppurið.

Þá er þessari kattarómantík lokið. Hingað koma ekki inn fleiri kettir. Þessar viðurstyggilegu skepnur eru ekki húsum hæfar. Ég er búinn að vera að skrúbba og skúra kattahland frá dögun. Sök sér að vera með einn kött, en ég er svo gott sem kominn með alla hverfiskettina inn á mig.
Þar af leiðandi eru hér á hverri nóttu háðir kattabardagar. Og leiðir kvikindið sem birtist hér á mynd, ekki alls fyrir löngu, þann bardaga. Æsingurinn er svo mikill að hlandgusurnar ganga úr þeim í allar áttir. Ég þurfti meðal annars að setja soda stream vélina mína í klór, þar sem hún var útötuð í hlandklessum. Andskotans viðbjóður. Þetta svarar ekki kostnaði.

Ég hef verið lasinn með pest og pirring, og er ég var búinn að skúra í tvígang, féllust mér hendur, og umburðalyndi mitt þvarr. Í framhaldi af því lokaði ég öllum gluggum og opna þá ekki fyrr en ég er búinn að setja upp vírnet til að halda þessum skæruliðum í burtu.

Svona líða árin hjá manninum á móti, svona líða árin hjá helvítis þjóðinni.

3 thoughts on “Umburðalyndi mitt er uppurið.”

 1. Ég átti í vandræðum með þetta þegar ég bjó í tvílyftu raðhúsi í Hamraberginu. Kettirnir voru sí og æ uppi á þaki að hlýja sér. Þessum dýrum fylgdi þessi megna kattahlandslykt sem svo sem alveg nógu slæm nema að kvikindin komu inn um gluggann við og við með tilheyrandi skemmdarverkum. Mamma reyndi alls konar kattafælur í formi alls kyns spreyja með appelsínulykt en allt kom fyrir ekki.

  Dag einn þá var ég á efri hæðinni að tala í símann þegar einn félaginn stingur inn hausnum. Hann sér mig, verður hvekktur en telur áhættuna ekki það mikla að hann ákveður að smokra sér á milli vel strekktra blúndugardínanna sem að móðir mín hafði komið fyrir fyrir glugganum.

  Ég stóð upp í rólegheitunum og labbaði að kisa, reif í hnakkadrambið á honum og hélt honum kjurrum á meðan ég kláraði símtalið. Svo fórum við félagarnir í göngutúr niður á bað, þar sem ég skellti honum í baðkarið og lokaði hurðinni.

  Ef frá er talinn sóðaskapurinn þá eru þetta nokkuð skynugar skepnur og minn maður var farinn að sjá fyrir sér hvað verða vildi. Á meðan hann var að skoða hvað hann gæti gert í stöðunni tók ég til allt sem að hafði ekki gott af því að blotna (moggann, klósettpappír, handklæði og þ.u.l. og stakk út fyrir hurðina.

  Reif ég svo loks í sturtuhausinn og tók að sprauta ísköldu vatni yfir vin minn og félaga sem að tók þessum kveðjum sem tilefni til mikilla íþróttaiðkana þar sem hann hljóp hring eftir hring upp á innréttinguna, niður aftur, á bak við klósettið og aftur upp, hring eftir hring, þar til hann gafst loks upp og lét bununa duna á sér.

  Þegar ég var orðinn viss um að ég vær hefði ekki gerst sekur um neitt hálfkák þá fór ég fram og lokaði dyrum inn í öll herbergi og opnaði forstofuna og útidyrahurðina. Um leið og ég opnaði síðan inn á bað þá tók þessi sálufélagi minn sig til og tók á harðasprett út í vetrarmorguninn. Síðan eru liðin mörg ár og aldrei hef ég séð hann aftur, né heldur vini hans og félaga úr hverfinu.

  Þetta litla uppátæki hefur sparað okkur fleiri þúsund ríkisdali sem annars hefðu farið í appelsínusprey eða viðvörunarskilti.

Comments are closed.