Ferðalagið á grafarbakkann.

Engin hugsun er jafn notaleg og sú hugsun að einn sólríkan dag muni hjartað í brjósti mér hætta að slá og ég fái að deyja. Ég veit ekki hvers vegna, en ég held að flestir ímyndi sér að sólin skíni og fuglarnir tísti á þessum degi. Það er ósköp skiljanlegt. Ef sálin á að geta ferðast klakklaust alla leið upp til himna, er betra að veðrið sé gott. Ég ætla allavega að reyna hvað ég get til að deyja á góðviðrisdegi.

Mörgum, sem ég hef mætt á lífsgöngu minni, finnst einkennilegt að jafn ungur maður og ég hugsi jafn mikið og ég geri um dauðann – hlakki jafnvel til. En auðvitað hlakka ég til! Ég hlakka til að eldast og ég hlakka til að deyja. Ég fæ mögulega svar við einni stærstu spurningu lífsins. Spurningu sem maðurinn hefur spurt sig, allt frá dögun mannkyns og enginn kann að svara. Já, dauðinn er sannarlega tilhlökkunarefni. Ég get ekki beðið. – Ég get samt alveg beðið. Ég veit að það liggur fyrir að ég verði manna elstur. Alveg í minni óþökk. Ég á eftir að lifa alla. Ellinni ætla ég að eyða í að pissa á leiði þeirra sem ég kann illa við.

Oftast leiðist mér lífið alveg ægilega og hef heldur ekki verið neitt sérstaklega feiminn við að viðurkenna það. Það verður mér því kærkomið að losna úr þessari prísund sem mér finnst ég hafa verið ranglega dæmdur í. Ég bað ekki um þetta, svo mikið er víst. Hver, sem ég svo er. En ég veit ég er ekki einn um þessa hugsun. Ég sé það þegar ég horfi í kringum mig. Þjakað einmana fólk. Dapurlegt, ekki satt?

En ég má passa mig að flíka ekki um of, þessum hugðarefnum mínum. Það þykir nefnilega ekki heilsusamlegt að horfa á lífið með þessum hætti. Það eru til allskonar sjúkdómsheiti fyrir fólk sem í heiðarleika viðurkennir að lífið sé í raun helber þrautganga og þjáning. Þrátt fyrir að flestir — nema þeir sem eru snillingar í að uppdikta einhvern tilgang með þessu brambolti — þjáist.

En þó svo ég hugsi eins mikið og ég geri um dauðann, þá ber ég mikla virðingu fyrir lífinu. Það sama verður ekki sagt um þá sem þykjast vera þess megnugir að gagnrýna mig fyrir skort á jákvæðni og fallegum gúllí gú lífsviðhorfum. Þeir hinir sömu, bera oft enga virðingu fyrir líkama sínum og gera honum erfitt fyrir með reykingum, drykkju, hreyfingarleysi og óheilbrigðu matarræði. Ég hleyp, drekk ekki, reyki ekki, borða hollan mat, hugsa fallegar hugsanir, allt í þeim tilgangi einum að auka lífsgæði mín og fyrirbyggja að ég þurfi hjálp á klósettið þegar árin færast yfir. Ég þarf líka að vera í toppformi þegar ég þræði kirkjugarðanna á tíræðisaldri. Einhver þarf að pissa á öll þessi leiði.