Kattalíf

Það gerðist aftur. Það sem ég óttaðist mest af öllu. Ég var á hraðferð þegar ég stormaði inn í húsakynni hins opinbera, beint í flasið á Sigurjóni Sighvatssyni, manni sem ég hef elskað og dáð úr passlegri fjarlægð. Ég fölnaði upp, þar sem ég stóð andspænis honum og áður en ég vissi af var ég búinn að pissa í mig.

Ég fékk ekkert að gert.

Ég stóð bara þarna fyrir framan hann og vætti pokabuxurnar mínar fínu og flottu, nýkomnar úr þvotti, straujaðar í bak og fyrir.

Fyrirlitningin leyndi sér ekki hjá þessum mikla meistara. Sjálfur framleiðandinn, af eftirlætis sjónvarpsþáttaröð minni, með hnignun mannskepnunnar ljóslifandi fyrir augum sér.

—————–

Ég held að það sé eitthvað yfirnáttúrulegt við ketti. Kettir vita eitthvað sem við mannfólkið vitum ekki, og þó svo við vissum það, væri okkar með öllu ókleyft að ná utan um þá vitneskju.

Ég fylgist grannt með uppátækjum Mefisto, og hann er í háttalagi, alls ekki ósvipaður E.T sem var og hét hérna um og upp úr 1980.

Það heyrir til undantekninga að Mefisto virði mig viðlits. Hann gersamlega hunsar mig, nema þegar svengdin sækir á hans hátign. Þá kallar hann í mig og fer þess á leit við mig að ég skammti honum dýrindis kattamat.

Á hinn bóginn, þegar ég er eitthvað niðurdreginn, eða veikur eins og um daginn. Kemur hann til mín, klessir sér fast upp að mér og malar, rétt eins og hann sé að sinna mjög mikilvægu verkefni, sem enginn annar geti innt af hendi.

Nú, þegar ég er frískur og FM98.9 hress, vill hann ekkert með mig hafa. “Nei, iss ég hef ekki tíma í að sinna þér. Ég þarf að redda hérna mikilvægum málum, rétt á meðan ég sef næstu 24 klst. Vertu ekki að trufla mig.”, segir hann og bandar mér í burtu með loppunni, fullur af yfirlæti.

5 thoughts on “Kattalíf”

  1. ég mæli með mefistó í Súrsætri sósu, ásamt grjónum,blönduðu grænmeti og Kók a ´Kóla

    250c í ca 75 min

  2. Já, þessi köttur er svo sannarlega ekki Jóhannes á fóðurbílnum, það er klárt mál.

    Bestu kveðjur til hans og þín auðvitað líka.

  3. Æji hvað mér finnst samt æðislegt hvað þið eruð góðir hvern við annan þótt að hann sé að sjálfsögðu svona pjúrakisi sem lætur lítið það sig varða sem ekki er matur eða hvíld..Og veistu, stundum finnst fólki það innst inni það betra, þá fær það aldrei á tilfinninguna að það hafi ekki tíma til að knúsa kisuna sína, ég Siggi, ég er áreitt af kisunum sem eru heima hja mér ef þær fá ekki knúsið sitt…En það hentar mér líka afar vel..Ég elska líka kisur..Ég er líka svo mikil kisa:)

    En aftur, sakna þess að sjá þig elsku kall..

Comments are closed.