Lífið er tilgangslaust og alveg ótrúlega asnalegt. Ég passa mig þó á að læðast með þessar lífsskoðanir mínar meðfram veggjum. Það að finnast lífið tilgangslaust og asnalegt er ekki félagslega við hæfi. Það er kúnst að lifa í þessum heimi. Ef einhver brosir of mikið þá er hann vangefinn eða með alvarlega persónuleikaröskun. Ef einhverjum verður misdægurt, er þeim hinum sama gert að eiga viðskipti við lyfjafyrirtækin til að öðlast bót meina sinna.
Samt, að vel athuguðu máli er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að lífið sé fíflagangur. Flest okkar höfum öðlast ótrúlega leikni í að ljúga okkur uppfull að það sem við erum að fást við, sé tilgangur þessa lífs. Eins og einhver sem er mjög upp með sér yfir að vera í forsvari fyrir húsfélagið í einhverju fjölbýlinu, svo dæmi séu tekin. Ég sé hann fyrir mér borubrattan, baðandi út öllum öngum: “Ha, ha, ha ég er formaður húsfélagsins, sjáið bara mig!”
Þegar hinir íbúðaeigendurnir sjá ekki til, rannsakar hann sameignina; athugar hvort sá sem á sameignina þá vikuna hafi örugglega þurrkað af undir blómapottunum, eða hvort skúrað hafi verið undir stiganum. Hvað þá hjólageymsluna. Það þarf jú líka að skúra hjólageymsluna. Hann hafði á sínum tíma sett sig á móti því að breyta þessu rými í hjólageymslu. Hann hafði haft orð á því á húsfélagsfundi, ekki einu sinni heldur í fjórgang. En nei, sú tillaga gekk í gegn þrátt fyrir að hann hafi gert ábúendum grein fyrir öllum þeim óhreinindum sem fylgja reiðhjólum. Hann vissi það fyrir víst að enginn í fjölbýlinu kæmi til með að þrífa hjólageymsluna þannig að prýði væri af. Það varð því oft, að hann fór og tók hana rækilega í gegn; oftast í skjóli næturs.
Hann gat ekki hugsað sér að sameignin væri óhrein. Honum leið eins og hann sjálfur væri óhreinn á sálu sinni, þegar allt var á rúi og stúi í sameigninni. En hann lét hina íbúa hússins heyra það á mánaðarlegum húsfundum. Einu sinni hótaði hann að segja af sér formennsku í húsfélaginu. Hann vissi að enginn annar hefði bolmagn til að taka þessa mikilvægu stöðu að sér. Svo hann var nokkuð öruggur með viðbrögð hinna íbúanna í blokkinni. Enginn taldi sig geta ynnt formennsku jafn vel af hendi og hann, svo loforð um bót og betrun urðu til þess að hann ákvað að láta til leiðast og halda áfram í embætti. Þeir sem áttu sameignina í allavega fjórar vikur þar á eftir lögðu sig sérstaklega fram um að þrífa og þurrka af. Lovísa á þriðju hæð hengdi meira að segja upp ljósmyndir, sem sonur hennar hafði tekið þegar hann var að vinna í útgerð fyrir norðan. Ósköp fallegar myndir, úr smábátahöfninni. En það entist ekki lengi, og herra tilgangur lífssins vissi ekki fyrr en honum var orðið svefnvant yfir illa hirtum stigaganginum.
Á mínu heimili er klukkan er orðin rúmlega eitt eftir hádegi. Ég er ekki enn kominn á lappir. Ég ætla að horfa á Annie Hall, sem er ein af meiri snilldum kvikmyndasögunnar.
Já þú sem átt hjól átt að vita betur, þurkaðu ógeðið af hjólinu þínu áður en þú stingur því inn í hjólageymsluna, svo við hin þurfum ekki að horfa upp á skítinn og viðbjóðinn sem þú dregur með þér heim.
Hugsanlega not fyrir kindabyssuna, ha ..?
Já, mér var bumbult þegar ég skrifaði þessi færslu. Djöfulinn er ég að fetta fingur út í að fólk finni tilgang í lífinu, hver svo sem hann er. Ég hugsa að ég skjóti mig samt ekki með kindabyssu. Ég er nefnilega búinn lofa mér í hópsjálfsmorð eftir u.þ.b 40 ár, það verða allir þar sem eitthvað vega í samfélaginu; ægilega fínt.
Siggi … íbúana, íbúana maður!
Samkvæmt Stóru fínu 16 þúsund króna Orðabókinni, sem ég fest fé í ekki alls fyrir löngu er þetta rétt í þessu samhengi.