Hvar verð ég staddur þegar dauðinn vitjar mín?

deathbed.jpgEn skelfilegt að hugsa svona, gæti einhverjum komið til hugar. Mér finnst hinsvegar fátt eðlilegra en að spyrja sig þessarar spurningar. Að velta því fyrir sér hvar maður verður staddur á þessari ögurstundu, hefur ekkert með þunglyndi eða lífsleiða að gera. Ég persónulega hef tildæmis ákveðið að ég ætla að deyja heima hjá mér og þegar ég tala um heima hjá mér, þá ég ekki við kytru í þjónustuíbúðum aldraðra. Nei, ég er að tala um húsið mitt, þar sem ég ætla að eyða síðustu tuttugu árunum mínum í. Þar ætla ég að liggja fyrir dauðanum í svefnherbergi með risastórum gluggum og hvítum smekklegum gluggatjöldum. Þegar vindar blása, flaksa gluggatjöldin til og frá. Ef mér vegnar sæmilega á næstu árum, ætla ég að ráða mann í að spila á píanó tónlist eftir Eric Satie og Chopin; allavega rétt á meðan ég brenni síðustu dropunum.

Meðan ég bíð þolinmóður eftir dauðanum, ætla ég að reyna eftir fremsta megni að vera snyrtilegur til fara. Það hefur tíðkast, að vera uppábúinn við hátíðleg tilefni. Að deyja, er í mínum huga alveg jafn hátíðleg uppákoma og gifting og skilnaður. Ég verð því prúðbúinn á banalegunni.

Þegar ég hugsa um aðstæður, þá þykir mér ekki svo mikilvægt að ég sé umkringdur fólki. Mér finnst þó mikilvægt að ég eigi ennþá minningar mínar um ævintýralega ævi. Ég veit að á þessari stundu, verð ég ánægður og sáttur í hjarta mínu. Ég kem til með að horfa um farinn veg, með ekki svo mikið sem snefil af eftirsjá.
Þegar í mér hryglir, skipta þessir litlu hallærislegu hlutir – sem ég að öllu jöfnu gef vægi – ekki neinu rassgatsmáli. Hvort einhver hafi þrifið helvítis sameignina vel eða illa, er ekki eitthvað sem ég kem til með að eyða mínum síðustu stundum í. Mér verður slétt sama um allt prjál mannanna.

Já, það verður líf og fjör, þegar ég geyspa golunni. Öllum er frjálst að mæta. Boðið verður upp á grænt þvaglosandi te.

17 thoughts on “Hvar verð ég staddur þegar dauðinn vitjar mín?”

  1. Ég skal koma og færa þér tesopa með límónu þessa síðustu daga og lesa fyrir þig klassískar bókmenntir ef ég verð hérna ennþá

  2. Bíddu, hvað varð um áætlunina sem fól í sér skemmtireisu á stóru, hvítu skemmtiferðaskipi í Karabíska hafinu og dýrðlegt fjöldasjálfsmorð allra þeirra sem málið láta sig varða? Ég krefst þess að sú áætlun standi. Ég hef bundið miklar vonir við þá áætlun? Svíkurðu mig um síðustu gleðina, óbermið þitt, fyrir einhvern írskan líkvökufílíng?

  3. Nei, sko… Mörður. Þetta plan er svona plan B ef við skyldum nú fá alsheimer eða eitthvað ógeð sem gerir það að verkum að innan skamms verði mar ósjálfbjarga. Þá er ekki annað til bragðs að taka en að panta sér ferð með Ms. Queen of Scotland, eða eitthvað álíka, spila aleigunni út í casino um borð, gleypa svo slatta af einhverju úbergóðu róandi og láta sig svo vaða. En ef allt gengur að óskum, og við verðum níræð og enn að rífast við frændur okkar og vini… þá endar þetta á kamillute og hvítum gluggatjöldum og svona litlu lífsgoluropi í lokinn.

  4. Elskan mín góða!

    Þetta er mun meira aðlaðandi en það sem litmyndabæklingar ferðaskrifstofanna bjóða uppá.

    Ætili sé ekki bara bísniss í að opna svona myndræna banalegudeild fyrir fjármagnseigendur? Maður er signt og heilagt að rekast á tárvota,elliæra auðjöfra, í þráum, götóttum sokkum sem eiga fúlgur fjár en kunna ekki á nýja gemsann og börnin öll með óskráð númer…

    Þú getur þá þróað og stíliserað hinar mismunandi dánarbeðsútgáfur. Létt-banalega,
    banalega með trefjum, 100% náttúruefna banalega…

    En að allt öðru:

    Ég minnist þess ekki að Íslendingar hafi haft sérstakar áhyggjur af myndunum á Múhameð spámanni í hundslíki og öðrum varíöntum af sama myndefni – menn töluðu jafnvel um ofsatrúarmenn og húmorsleysi.
    En eftir að Jesús eignaðist gemsann er fjandinn laus.´
    Ég sé bara fegurð í þessu:
    Lambið og gemsinn…

  5. he he, og eg aetla ad passa mig a thvi ad skulda a.m.k. eina greidslu a kreditkortinu minu thegar eg fer . . . just out of spite 🙂

  6. Voða smart dauðdagi Siggi minn. Eins og við var að búast af þér sem ert svo smart.

  7. Ég kem líka, í hvítum sumarkjól með svart sjal og uppsett hár. Ég les fyrir þig ljóð og sötra cider.

    Kannski við Kristín göngum svo frá líkinu af þér; á meðan segjum við hvor annarri sögur af þér og fellum tár í vatnsfötin.

  8. Þið snertið ekki líkið af mér. Ég verð með útbúnað sem ég er rétt í þann mund að fara að setja á markað. Þessi uppfinning fylgist með lífsmarki mínu, og þegar ég er búinn að vera dauður í c.a 10 mín þá fuðra ég upp.

  9. Jæja þá, ég verð þá að fara fram á að við K. fáum pláss í erfðaskránni þinni í sárabætur.

  10. Tíu mínútur eru feykinógur tími til hneyksla eitt lík.

  11. Mín kæra Magga, vatnsföt eru föt (öðru nafni skálar )með vatni í. Þegar fólk deyr er líkið þvegið og snyrt til. Við K. færum ekki að nota einnota klúta á svona fyrirmenni eins og herra Sigurð, við myndum blanda ilvolgt sápuvatn og grenja eins og áður segir í vatnsfötin. En það er víst búið að taka fyrir það, svo við grenjum bara út í loftið þegar að þvi kemur.

Comments are closed.