Mannleg nálgun.

Nú þykir fínt meðal betri stétta þessa lands að tala um hver sé pappakassi og hver ekki. Það gefur augaleið að þessi talsmáti léttir verulega andrúmsloftið og stutt er í flissið. Það er eiginlega sama hvar maður sest niður til að fá sér kakó forte með double rjóma, þegar menn og málefni ber á góma er talað um hversu mikill pappakassi þessi eða hinn sé og ef viðkomandi hefur staðið sig vel í einhverju þá er stutt í að einhver skelli sér á læri og gubbi “JÁHÁ, HANN ER SKO ENGINN PAPPAKASSI”. Oft er hlegið vitleysingslega eftir önnur eins ummæli og gleði viðstaddra leynir sér ekki, og að lokum halda allir heim á leið með kærleik og hamingju í hjarta sínu.

Það verður að viðurkennast að ég veit ekki hvort ég sé álitinn pappakassi eða ekki, en ég segi það þó af fullum hug að ég hef talsverðan metnað til að vera flokkaður undir þá heiðursborgara sem eiga enga samleið með pappakössum. Ég man hér í eina tíð talaði fólk um að vera góður eða lélegur pappír. Í stórfengleika nútímans dugar ekkert minna en að vera settur í sömu setningu og heill pappakassi.

One thought on “Mannleg nálgun.”

Comments are closed.