Ég átti afar ánægjulega 6 veikindadaga heima í hlaði hjá mér. Ég fagna því ákaft þegar ég er lasinn því þá þarf ég ekki að eiga samskipti við andstyggilegt og illa lyktandi fólk í kjetheimum.
Fyrir þá sem ekki vita þá skiptist veröldin upp í tvo heima, sá fyrri kallast kjetheimur og svo seinni er hinn stafræni heimur sem þú ert í núna. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta dásamleg þróun þar sem með nútíma tölvutækni er mönnum eins og mér kleyft að halda uppi afar siðfáguðum samskiptum. Hinsvegar hættir þeim til sem dvelja of lengi í hinum stafræna heimi að eiga í talsverðum erfiðleikum með að stynja upp orði í hinum vonda og grimma kjetheimi. Þeir sem hinsvegar kunna vel á hinn stafræna heim geta stjórnað sínu umhverfi mun betur en í kjetheiminum. Ef eitthvað leggst illa í mann eða fer fyrir viðkvæmt brjóstið í stafrænum heimi þá er hægt að setja viðkomandi ‘object’ í ‘blokk’, eða jafnvel bara eyða því sísvona með þartilgerðri ‘on the fly’ aðgerð.
Í veikindum mínum kolféll ég fyrir New York bandi sem kallar sig Blonde Redhead. Sveitina skipa ítalskir tvíburar og japönsk stúlka að nafni Kazu Makino. Það er orðið talsvert síðan ég varð svo hrifinn af hljómsveit að ég réði engan veginn við mig. Fyrir þá sem hafa einhvern tímann hafa haft gaman af annaðhvort Sonic Youth eða Pixies mæli ég með lögunum: I Still Get Rocks Off, Missile og Distilled. Þetta eru lög sem eru fyllilega til þess fallin að koma manni á bragðið.
Ég segi nú bara og skrifa: Þakkaðu fyrir að þetta var ekki 100 ára einsemd.