Vorhret í lofti

6661i.jpgÍ þessari bloggþurrkuntutíð, ætla ég að tefla fram tveimur útgáfum af tvö þúsund og sex hundruð mismunandi útgáfum, sem til eru af laginu Summertime eftir George Gershwin. Einnig er þetta fyrsta lag sem ég skammarlaust lærði að spila á klarinettið mitt sáluga, og því óumflýjanlega eftirlætis lag nágranna minna, sem mér er frekar hlýtt til, eins og lesendum er fullkunnugt um.

Ég hef einnig spilað Summertime á nýja rauða klarinettið mitt, sem ég hef komist að með vísindalegum aðferðum að er ekkert annað en sorphljóðfæri. Ég hef því pantað þriðja klarinettið, á ebay, og þetta skipti ákvað ég að eyða aðeins meiri pening í þetta áhugamál mitt. Ég spurði sérfróða menn um þessa tegund klarinetta, af gerðinni Selmer, en ég spyr yfirleitt ekki sérfróða menn um eitt né neitt, því ég þykist alltaf vita allt betur, þangað til ég kemst að því að ég er búinn að pissa í buxurnar. Þetta klarinett er úr viði, en hin tvö sem ég á fyrir, eru úr ömurlegu plasti. Ég hlakka gríðarlega til að fá það upp í hendurnar, því ég hef aldrei prufað að spila á almennilegt klarinett. Já, þá verður gaman.

Með vor í hjartanu kynni ég Summertime, úr byrjunaratriði myndarinnar Porgy and Bess:

[MEDIA=114]

 

Svo í flutningi hinnar gullfallegu og jafnframt steindauðu Janis Joplin:

[MEDIA=115]

 

Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef skrifað um Porgy and Bess. Hér er færsla um P&B, og ferð mína til Ameríku, en nú vill svo skemmtilega til að ég er að hugsa um að skreppa til Ameríku um páskana, til að skoða Tvídrangana.