Sjálfsmat

Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna sumir hafa til að bera stórt og þrútið sjálfsálit, meðan aðrir læðast meðfram veggjum þjakaðir af minnimáttarkennd. Persónulega, er allur gangur á því hvaða hugmyndir ég hef um sjálfan mig. Suma daga finnst mér eins og ekkert sé mér ómögulegt. Ég veð uppi, viss um að ég sé snjall, fallegur og skemmtilegur. Svo koma dagar þar sem ég er sannfærður um að ég sé eitt af heimskari og ljótari kvikindum þessa heims.

En hver er raunveruleikinn þegar kemur að sjálfstrausti og tröllatrú á eigin getu?

Fræðimenn á virtum stofnunum hafa með vísindalegum rannsóknum stutt þá tilgátu að fólk sem hneigist til þunglyndis með tilheyrandi efasemdum um eigið ágæti, hefur heilbrigðara sjálfsmat, sem er mun nærri raunveruleikanum, en það fólk sem hefur óbilandi trú á sjálfu sér.

Það eru gleðifregnir fyrir okkur blúsarana.

Að öðru ekki svo óskyldu.

Ég hef talið mér til tekna undanfarna daga að vera með sérstaklega stinn læri. Ég hef hamast eins og móðurríðari á fjölþjálfanum mínum. Eins og lesendum er kunnugt um, er ekkert sem íþyngir mér meira en umfram líkamsfita. Ég lærði það snemma á lífsleiðinni að enginn vingast við feitt fólk. Feitt fólk endar yfirleitt uppi eitt og yfirgefið og engum þykir vænt um það. Svo ég kosta öllu sem ég á, til að vera mjór. Það er erfitt, því ég er ekki ólíkur Oprah að því leitinu til að ég blæs sundur og saman eins og fýsibelgur.

En nú er ég með stinn læri og ekki laust við að ég hafi örlítið meira sjálfsálit fyrir vikið. Stjórnast lundarfar mitt virkilega af því í hvaða vigt ég er? Er ég búinn að vera sæll og glaður undanfarnar vikur vegna þess að ég er í temmilegri þyngd?

Hvað um það.

Ég er með stinn læri og ég þreytist ekki á að hafa orð á því við meðbræður mína. Um daginn bjó ég til auglýsingu á einkamal.is sem hljómaði eftirfarandi: Maður á fertugsaldri með stinn læri, allt sitt á hreinu, veit hvað hann vill, elskar að liggja upp í sófa og hafa það kósí, óskar eftir mjórri konu. Ekkert rugl. Svo samdi ég aðra auglýsingu þar sem ég óskaði eftir íbúð: Reglusamur og reyklaus maður með stinn læri, óskar eftir íbúð í 101 Reykjavík.

Það liggur ljóst fyrir hvar sjálfsvirðingin mín liggur þessa daganna. Ég sem hélt að ég væri lengra á veg kominn.