Geðsýki gerir vart við sig

Þegar líf mitt er rétt u.þ.b fullkomið finn ég að undir niðri kraumar geðsýki af verstu sort. Hryllilegt ástand sem ekki er svo ólíkt því að vera haldinn djöflinum, hafi einhver einhverja reynslu af því. En ég kann að sporna við þessari geðveiki sem herjar á mig þegar ég má síst við. Ég sest upp í bifreið mína af Opel gerð og keyri sem leið liggur niður í Krónuverslunina út á Granda.

Einhver kann að spyrja sig hversvegna í ósköpunum ég fari ekki í Kringluna, eða jafnvel Smáralindina þegar geðsýki þessi herjar á huga minn. En það dugar skammt á þessa veiki. Fólk sem spartlar upp í tómarúmið í sálu sinni með að fara í verslunarmiðstöð, gerir það til að eyða peningum í ónauðsynjar – og það er mun skemmtilegra en að hanga nauðbeygt í Krónuverslun. Þar af leiðandi er töluverður munur á stemningu í matvöruverslun og verslunarmiðstöð.

Til halda niðri þeirri tegund af geðveiki, sem fær vænstu menn til að drepa, stela, svíkja og fremja allskonar ódæði, er langbest að fara í verslun þar sem stemningin er rotin og fylgjast með hvernig fólk sem parað hefur sig saman virkar í innkaupum á nauðsynjavörum. Parað fólk í matvöruverslun er oftar en ekki pirrað og langþreytt á hvoru öðru og á í mestu erfiðleikum með að dylja tilfinningar sínar.

Þegar ég svo verð vitni að því hversu margir eru óánægðir með pörunina, held ég heim á leið uppfullur af gríðarlegu þakklæti yfir að vera einbúi með geðstirðan kött. Öll þrá eftir ást og samlífi hverfur eins og dögg fyrir sólu. Allavega í c.a hálftíma.

Á næstu dögum mun ég brydda upp á fleiri heimilisráðum gegn ástsýki, tildæmis hið óbrigðula ráð að bora gat á höfuðkúpuna með steinbor, eða pissa í fjöltengi.