Martröð á Fossagötu

Í nótt sem leið dreymdi ég að einhver hefði hoggið af mér hausinn með myndarlegri sveðju. Ég man ekki mikið eftir atvikinu sjálfu, þannig að ég get ekki sagt til um hvers vegna einhverjum fannst ég þurfa að verða höfðinu styttri.

Kannski var það einhver lesandi þessarar síðu?

Þegar ég kemst til meðvitundar í draumnum, hefur einhver tekið hausinn minn, skellt honum á strjúpinn og járnabundið hann á nokkrum stöðum. Þó ekki betur en svo að ég mátti ekki halla höfðinu of mikið aftur eða til hliðanna, þá gapti á milli þar sem hausinn var reyrður niður og var mér hollast að rétta hann af ef ég vildi ekki að hann rúllaði í götuna.

Þegar ég vaknaði íhugaði ég hvað í andskotanum þessi draumur ætti að fyrirstilla. Það fyrsta sem mér kom til hugar var að ég væri kannski að fara að deyja á næstu dögum, en þegar ég hugsa það aðeins betur tel ég það af og frá – ég er nefnilega nokkuð viss um að ég þurfi að hanga hér mun lengur en ég kæri mig um. Það var svo ekki fyrr en í kvöld að ég áttaði mig á að draumurinn væri fyrirboði þess að ástin er leiðinni í bæinn. Guð hjálpi mér! Þá er nú betra að vera dauður.