Bandarísk kvikmynd um ástina

Fyrir einhleypan karlmann nær fjórða tugnum, er ekki óeðlilegt að vilja slaka á eftir viðburðarlausan dag og horfa á rómantíska kvikmynd um ástir og örlög fólks í bandaríkjunum þar sem smjör og brundur drýpur af hverju strái. Myndin sem rataði í nýmóðins vídjósýningagræjur síðuhaldara er með gamla brýninu Dennis Quaid og freðýsunni Söru Jessicu Parker, sem af ótilgreindri ástæðu, – fer ægilega í taugarnar á mér.

Það er ákafalega nærandi fyrir sálarlífið að fylgjast með fólki sem ég sjálfur tengi umsvifalaust við, í þessu tilfelli gamlan prumpukarl sem prumpar og prumpar yfir þær persónur sem voru svo ólukkulegar að vera skrifaðar inn í sömu sögu og hann. Hann að sjálfsögðu er aðeins framan af leiðindardurgur og prumpukall, því eftir að vera búinn að prumpa og láta öllum illum látum í félagi við persónu Söru Jessicu Parker, nær Sara að bræða hann ofan í það mót sem hún getur fellt sig við.

Áður en allt fellur í ljúfa löð, kemur millikafli, þar sem gamli karldurgurinn neyðist til að horfast í augu við sjálfan sig. Það gerir hann að sjálfsögðu með hjálp áfengis, enda er öllum það ljóst að eina leiðin til að kafa ofan í drullupytt sálarinnar er kófdrukkinn. Það er líka svo krúttlegt.

Meðan hann áttar sig á hvernig tilveran virkar, hefur einhver amerískur fábjáni upp hása söngrödd sína og syngur viðurstyggilegt lag. Alltaf skal þessi ameríski söngvari vera hás eins og Bryan Adams. Og alltaf skal hann vera fenginn til að syngja í myndum um ameríska karlmenn sem átta sig á að þeir eru þumbar. Og alltaf skulu það vera karlmennirnir í þessum myndum sem þurfa á lexíu að halda, enda markhópurinn konur og konum líður vel með myndir þar sem karlmenn eru ömurlegir og konurnar réttvísar og skynsamar.

En ég er ekki búinn að klára að horfa á þessa mynd. Ó, nei. Ég get ekki beðið eftir að fá að vita hver örlög þessa fólks verður. Ég þori varla að segja það en ég vona að þau drepist öll. Það er þó lítil von til þess. Það er þó allar líkur á að ég gubbi í kjöltu mér.