Little children

Little Children er áhrifamikil mynd um hræsni mannfólksins. Í nútíma kvikmyndagerð verður það að teljast til afreka ef áhorfandinn finnur til með aðalpersónunum. Þetta tekst aðstandendum Little Children svona prýðilega. Ég fann meira að segja til með þeirri persónu sem ég vildi síst hafa samúð með.

Myndin sem gerist í úthverfi einhversstaðar í Bandaríkjunum, er um hroka og hleypidóma fólks sem er gersamlega blint á hvernig fyrir þeim er komið. Ömurlegt fólk sem í raun hefur alla burði til að lifa hamingjusömu lífi, en kýs að gera það ekki. Það þarf ekki frekari vitnanna við, því þarna er ég strax búinn að tengja. Ekki að ég búi í úthverfi í Bandaríkjunum, þó munaði mjóu hér um árið. Heldur að mér er nánast fyrirmunað að sjá hversu gott ég hef það. Því að hvernig sem á því stendur, er hamingjan og gleðin alltaf rétt handan við hornið. Það vantar bara herslumuninn. Ef ég ….. ….. og ….. …… þá væri nú gaman að vera til.

Ég hef velt því fyrir mér hvað það er sem gerir mynd góða. Einhvern tímann fór ég á frumsýningu á íslenskri stuttmynd, sem heitir Síðasti bærinn í dalnum. Ég tengdi þar við aðalpersónuna og varð klökkur yfir örlögum hennar. Ég held að fyrir mér sé það merki um vel heppnaða mynd ef ég næ með einhverju móti að tengjast sögupersónunum tilfinningaböndum, helst þannig að ég taki það alveg sérstaklega nærri mér ef eitthvað misjafnt hendir þær.

Umburðalyndi mitt er uppurið.

Þá er þessari kattarómantík lokið. Hingað koma ekki inn fleiri kettir. Þessar viðurstyggilegu skepnur eru ekki húsum hæfar. Ég er búinn að vera að skrúbba og skúra kattahland frá dögun. Sök sér að vera með einn kött, en ég er svo gott sem kominn með alla hverfiskettina inn á mig.
Þar af leiðandi eru hér á hverri nóttu háðir kattabardagar. Og leiðir kvikindið sem birtist hér á mynd, ekki alls fyrir löngu, þann bardaga. Æsingurinn er svo mikill að hlandgusurnar ganga úr þeim í allar áttir. Ég þurfti meðal annars að setja soda stream vélina mína í klór, þar sem hún var útötuð í hlandklessum. Andskotans viðbjóður. Þetta svarar ekki kostnaði.

Ég hef verið lasinn með pest og pirring, og er ég var búinn að skúra í tvígang, féllust mér hendur, og umburðalyndi mitt þvarr. Í framhaldi af því lokaði ég öllum gluggum og opna þá ekki fyrr en ég er búinn að setja upp vírnet til að halda þessum skæruliðum í burtu.

Svona líða árin hjá manninum á móti, svona líða árin hjá helvítis þjóðinni.