Svona eru jólin

Til að minnast fæðingu frelsarans hef ég og aðrir hér í heimili troðið í holu sem finna má á framhlið mannshöfuðsins – ógrynni af marglitum efnasamböndum með fjölbreytta áferð. Fögnuðurinn og gleðin seitlar um gúddí gúddí stöðvar líkamans þegar holan er fyllt af kræsingum. Hún er þá um stund upptekin við brytja og hræra saman þessum efnasamböndum, uns hún telur óhætt að sturta þeim niður, þar sem önnur líffæri taka til við enn frekari verkun. Eftir að gúmmilaðið hefur sullast eftir meltingarveginum, gúlpast restin niður í ristilinn og bíður þess að komast út um aðra holu á líkamanum. Sú stund er ekki síður ánægjuleg fyrir mannskepnuna, enda má segja að allar hennar gleðistundir eigi sér stað í gegnum holur á búknum. Eftir matarhátíðir eins og jólin getur þessi útskilun dregist. Ég hef tamið mér matarræði, sem virkar þannig á meltinguna að á morgni hvers dags skila ég af mér öllu sem ég innbyrti deginum áður. Hver dagur er nýtt upphaf með tandurhreinan ristil. En því er ekki að heilsa á hátíð Jesúbarnsins. Eftir borðhald aðfangadagsins, þurfti ég að bíða rúma tvo sólahringa eftir að svínið, súkkulaðið og piparkökurnar litu dagsins ljós og biðin reyndist mér erfið. Til að stytta mér stundir, tróð ég enn meira af súkkulaði í holuna á mér. Því meira sem holan fær að gera því meira heimtar hún að troðið sé í hana. Hún vill alltaf vera að. En nú segi ég stopp. Enginn kemur til með að segja mér að ég sé orðinn of feitur. Fólk er ekki þannig gert. Það vill að þér líki vel við það, og engum líkar vel við einhvern sem segir sannleikann, jafnvel þó að hann sé öllum kunnur nema þér.

Heilabilun

Í gær varð skammhlaup í heilanum á mér, eða glitch. Glitch, upprunið frá jiddíska orðinu glitsh þýðir sleipur staður, en er á ensku notað um tímabundna gloppu í kerfi. Í gær missti ég fótanna um stund. Ég náði þó að halda jafnvægi, og fékk meðan á hrösuninni stóð að fylgjast með minni eigin niðurlægingu.
Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð var við sambandsleysi í heilanum mínum. Í hvert skipti sem það gerist, gapi ég yfir vitleysunni, undrandi yfir því að ég sé ekki fullkomnari maskína. Ég að sjálfsögðu reyni að fela svona uppákomur, enda misbrestur í heila varla í frásögur færandi, ekki nema að einhver annar en maður sjálfur eigi í hlut.

Ég stóð við eldhúsborðið og skar niður grænmeti í fyrsta flokks salat sem ég ætlaði að framreiða ásamt marineruðum grænum pipar, flatbrauði, og eðal hummus, lagaðan með safa úr nýkreistum sítrónum. Þessa tegund af fínsöxuðu salati lærði ég að búa til í Ísrael fyrir 14 árum síðan. Salatið samanstendur af nokkrum túmötum, þremur paprikum, öllum í sitthvorum litnum, rauðlauk, og gúrkum. Smá salt, sítrónusafi og ólífuolía. Gott að krydda með Thymian, eftir að maður fær sér á diskinn. Er kom að gúrkunum, sem fluttar voru með skipi frá Egyptalandi, vottaðar af Omar Sharif, – bilaði heilinn minn. Með stóran Norman Bates hníf, skar ég þær eftir endilöngu, og svo í kross. Ég horfði á hendur mínar handleika þær á skurðarbrettinu meðan ég brytjaði þær smátt.

Hvers vegna ætli gulrætur séu kallaðar gulrætur, þegar þær eru svona ægilega grænar, hugsaði ég og orðaði svo hugsun mína upphátt við ástkonu mína, sem sat við 350 danskkróna eldhúsborðið. Í mínum huga var þessi hugsun fullkomlega rökrétt. Ég meira að segja fór að velta fyrir mér uppruna orðsins og hvort það væri mögulega eitthvað gult í gúrkunum. Hvort þessi tegund af grænmeti, hefði einhvern tímann verið gul og svo þróast yfir í græna litinn. Í mínum huga hét gúrka gulrót, og þrátt fyrir að hafa búið til þetta salat, nánast sofandi, milljón sinnum, innihélt salatið gulrót en ekki gúrku.

Hvað áttu við? spurði heitmey mín. Pirraður yfir skilningsleysinu, hóf ég að útskýra hversu skrýtið mér þætti að eitthvað jafn grænt og gúrka hlyti nafn sem innihéldi lit sem greinilega ætti ekki við. Og þar sem ég er að útskýra þetta, með djúpri karlmannlegri röddu, átta ég mig á að ég er að verða klikkaður. Ég horfi á gúrkuna og segi við sjálfan mig: Þetta er gúrka en ekki gulrót. Þetta er gúrka! garga ég innan í mér.

Skrifstofa á Larsbjörnstræde

Meðan samlandar mínir, festu neikvætt fé í lúxusbifreiðum og húsum sem þeir rusluðu út úr til að rýma fyrir því nýjasta og flottasta, allt í samræmi við fegurðarmat Völu Matt, – bjó ég í misskemmtilegum holum, stundum við frekar bágbornar aðstæður í Reykjarvíkurborg. Ég lifði ekki hátt þessa daga, þar sem vigt mannsins lá í hversu miklu drasli hann gat sankað að sér til að verða ekki eftirbátur náungans.

En nú þegar þessir sömu menn og litu niður á mig fyrir að eiga ekki bíl, grenja úr sér augun í athugasemdarkerfi eyjunnar, eða í pilsfaldi morgunblaðsins, er ég sjálfur umrenningurinn orðinn virðulegur kaupsýslumaður í útibúi eigin samsteypu í Kaupmannahafnarborg.

Ég er með skrifstofuaðstöðu í eftirsóttu hverfi í borginni – Larsbjörnstræde, sem þykir mjög 101/skæs á danskan mælikvarða. Þegar ég mæti til vinnu að morgni, brosa stúlkurnar í móttökunni og hlæja að öllum bröndurunum mínum, sama hversu andskoti lélegir þeir eru – og þeir eru lélegir, meira að segja mjög lélegir. Þær fá borgað fyrir að vera almennilegar, rétt eins og allir hjá þessu andskotans skrifstofufyrirtæki.

Já, ég er með skrifstofu hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að vera með skrifstofur fyrir fyrirtæki eins og mitt. Hér eru allir klæddir í glæsileg jakkaföt, með plokkaðar augabrúnir og ljósbakað hörund. Ég sjálfur er í strigaskóm, skreyttum málningaslettum, arabahúfu á höfðinu, órakaður, með nasahár sem hægt er að flækja sig í komir þú inn fyrir mitt comfort zone.

Um daginn hitti ég tvo American psychos, sem vildu endilega taka í höndina á mér og kynna sig. Ég var á leiðinni á pisseríið og hafði engan tíma í þessa viðkynningu, sem var í mínum huga alveg tilgangslaus. Ok, ég viðurkenni það, ég hræðist menn í glansandi jakkafötum, ég held þeir viti eitthvað meira en ég veit um lífið og því óttast ég þá. Þeir vita þó ekkert meira en ég. Menn sem þurfa að skrúbba sig og plokka á hverjum morgni til að fúnkera í kjötheimum, geta ekki haft mikið sjálfsálit.

Mér er þó andskotans sama um einhverja kalla sem eiga eitthvað skrifstofufyrirtæki. Ég kikna ekki í hnjánum og finnst það ekkert merkilegra en hvað annað sem mannfíflið tekur sér fyrir hendur. Mér finnst það sem ég er að gera, heldur ekkert merkilegt. Ég hef gaman að því, en mér finnst það ekki gera nokkra grein fyrir því hver ég er eða hvað ég stend fyrir. Ég er engu nær um hver ég er eða hvert ég stefni út frá hvað ég starfa við. Fáranlegar hugmyndir mannfíflsins.

En nú má ég ekki vera að þessu. Ég ætla að skreppa út og Strik og kaupa mér möndlur sem er búið að sjóða í sykurlegi.