“Það er valt, lífið allt”

– sagði barþjónninn í draumnum mínum um leið og hann rétti mér líterskrús af bjór sem ég smakkaði á. Mmmmmm, eða hitt þó heldur. Flatur og gruggugur líkt og bjórinn sem ég bruggaði á árunum rétt undir aldamótin. Hann var lagaður í fimmtíu lítra kút settur svo á eins til tveggja lítra plastflöskur sem voru látnar standa við ofn í minnst sólarhring, rétt nóg til að fá í hann örlítið gos. Hann var ógeðslegur, en allir urðu af honum yndislega fullir. Bragðið sem ég fann í draumnum mínum þegar ég saup af krúsinni hefur verið tekið úr einni löguninni. Sveinn hnippti harkalega í mig, en hann stóð við hliðina á mér í draumnum. Hann gaf til kynna að ég ætti ekki að drekka of mikið, þar sem ég væri akandi. Barþjónninn brosti sínu breiðasta. Hann var vinalegur og líktist nokkuð gamanleikara sem ég man ekki nafnið á. Breiðleitur, með Ernest Borgnine bros og ferköntuð gleraugu. Ernest Borgnine er annars enn að. 93 ára gamall, enn skælbrosandi.

Ég vaknaði aðeins, rétt nóg til að muna setninguna sem barþjónninn sagði við mig. Það er valt lífið allt. Þetta er ein mesta lífsspeki sem ég hef heyrt, tuldraði ég í svefnrofunum, en sofnaði svo aftur og var þá staddur í strjálbýla hverfinu rétt hjá Rauðhólum. Það var niðdimmt kvöld. Eina birtan var af tunglinu. Þarna voru tvö hús. Annað stóð við vatn. Ég hugsaði með mér í draumnum, að það væri nokkur framför hjá draumapersónu að ríma jafn fallega og barþjónninn gerði í síðasta kapítula. Húsið heillaði mig og ég gekk hringinn í kringum það. Svei mér þá, hérna langar mig til að eiga heima. Ég hikaði. En ég er nýfluttur burt af landinu! Ég ætla ekki að snúa aftur fyrr en á síðustu metrum ævi minnar. Þegar dauðinn nálgast. Kannski dey ég í þessu húsi? Svo vaknaði ég, með hausverk náttúrulega.

Að eilífu ungur

[media id=232 width=520 height=400]

Það sem af er þessu ári hefur mér þótt ósköp leiðinlegt að vera til. Ég hef meira og minna verið lasinn og því frekar dapur. Hér í Danmörk djöfulsins er skítkalt, dimmt og napurlegt. Danir þurfa ekki mikið annað en að opna munninn og tala dönsku til að vera leiðinlegir. Ég hef þó hitt dani sem ekki hafa sagt neitt, heldur bara brosað. Það er töfrum líkast hvað bros getur gert. Innflytjendur frá Arabalöndum og Afríku eru líka langflestir drepleiðinlegir. Drungalegir, tortryggnir, óvinsamlegir og stundum sóðalegir. Vel nærðar arabakonur vagga um göturnar í fullum skrúða, sumar það vel búnar að aðeins sést í augun á þeim. Aumingja konurnar, hugsa ég með sjálfum mér. Aumingja allt trúaða fólkið sem elst upp í einhverjum fyrirfram ákveðnum hugmyndum um hvernig heimurinn virkar. Búið að ræna því þessu einstaka tækifæri sem hver lifandi manneskja hefur til að kanna sjálf leyndardóma og mögulegan tilgang lífssins. Þessi tilvera sem reynist undarlegri en nokkur Lost þáttur.

Svona er þankagangur minn, en sorg mín yfir örlögum mannsins vex töluvert þegar ég er lasinn og illa á mig kominn. Þá er gott að gera eitthvað sem mögulega gleður hjartað, eins og að rifja upp ömurleg unglingsárin, sem er einmitt ástæðan fyrir því að þetta lag er hér að ofan: Forever young með Alphaville, en það var feykivinsælt þegar ég var unglingur. Í það minnsta stendur það eftir sem eitt af mínum uppáhalds eitíslögum.

Mikið vorkenni ég annars unglingum. Unglingsárin mín hófust reyndar hér í Danmörku. Sumarið 1985 dvaldi ég hér með systur minni og frænda. Þetta sumarið urðu á mér líkamlegar breytingar sem ég hefði helst viljað sleppa við. Ég fór úr því að vera krakki yfir í að vera kynvera. Fólk breyttist gagnvart mér og samskipti urðu afar einkennileg. Ég er enn kynvera, en ég get satt best að segja ekki beðið eftir ég umbreytist úr kynveru yfir í gamalmenni. Ef þessi leiðindi eru tekin úr jöfnunni, er ég viss um að öll samskipti við meðbræður mína verði mun fágaðri en þau eru dæmd til að vera í dag.

Hvert var ég kominn? Jú, ég var unglingur í Danmörku; einn af betri tímum sem ég hef lifað. Ég fór í sleik við einhverja stúlku frá Tyrklandi. Ég hafði aldrei farið í almennilegan sleik. Ég sá Purple Rain og þótti hún mergjuð. Drakk bjór og fann á mér. Heyrði fyrst um AIDS. Kynntist frábærum manni, vini systur minnar, sem átti eftir að deyja úr þessum sjúkdómi sem enginn vissi neitt um. Systir hans, varð 12 árum eftir þetta barnsmóðir mín. Skrítið er þetta líf.

Meira ætla ég ekki að skrifa um unglingsárin mín. Ég á þó mjög líklega eftir að skrifa meira um nágrennið sem ég bý í. Það er meira en lítið undarlegt.

Kjörklefakúkarinn

Mörgum þótti litla stúlkan með hattinn krúttíleg þegar hún girti niður um sig buxurnar og kúkaði einum af þeim fallegasta kúk sem kúkað hefur verið sunnan Hringbrautar. Ég veit ekki fyrir víst afhverju ég er að hugsa um hana. Líklega vegna þess að ég hef áhuga á hvernig fólk – ég þar með talinn – breytist með árunum.

Ég átti einu sinni kærustu sem var mikil hippi og hugsjónamanneskja. Er hún nálgaðist þrítugt var hún komin í nákvæmlega sama kassann og hún formælti á þeim árum þegar hún var hugsandi yngismey. Flestir af 68 kynslóðinni, einni mestu byltingarkynslóð allra tíma, hreiðruðu um sig í sama andskotans kassanum. Hugsjónirnar viku fyrir keppni um nýja eldhúsinnréttingu, árlegri fyllerísferð til heitari landa og fleira í þeim dúr.

En þó litli krúttlegi kjörklefakúkarinn héldi í sínar hugsjónir næstu 20 árin og mundi halda áfram að kúka í kjörklefa þar til hún er langt komin á fimmtugsaldurinn, mun engum þykja hún krúttleg lengur, sama hversu fagurlega formaðar hægðir hún skilur eftir sig. Hvað getur hún gert? Farið á þing? Opnað reykelsisbúð? – detox miðstöð?

Á árunum milli tvítugs og þrítugs finnst manni nánast allt mögulegt. Þetta eru árin þar sem frjóasta hugsunin á sér stað. Hvað gerist eftir það skil ég ekki. Það er engu líkara en eitthvað drepist innra með fólki. Eins og það gefist upp þegar það er komið á fertugsaldurinn og sættir sig við stritið svo lengi sem þeir hafa sjónvarp og snakk til að maula á.

Flestir fara sofandi í gegnum lífið.

Samkennd

Að gleðjast með náunganum er fágæt tilfinning. Maðurinn er sjálfselskur óþverri í grunninn. Hann gerir EKKERT sem ekki hefur eitthvað með hans eigin vellíðan að gera, hversu göfugur sem hann þykist vera. Þetta eru vondar fréttir fyrir þá sem voru búnir að ljúga því að sjálfum sér að þeir væru dygðugir.

Ég sjálfur finn æ sjaldnar fyrir því að ég í raun og veru samgleðjist með náunganum. Mér er yfirleitt bara andskotans sama. Ég veit þó að til að þrífast í mannheimum, þarf ég að sýna tilfinningar burtséð frá því hvort þær séu raunverulegar. Ef einhver deyr, eða einhver fæðist, er til þess ætlast að maður flíki viðeigandi tilfinningum, og skiptir þá engu hvort viðkomandi sé manni nátengdur, eða ekki. Ég veit að ef ég læt mér fátt um finnast, heldur yppti bara öxlum, þá er ég umsvifalaust stimplaður drulluháleistur. Það er reyndar þannig með öll samskipti við fólk, ef ég færi ekki eftir reglum og sýndi þær tilfinningar sem væru í raun og veru að brjótast um í mér í stað þess að gera mér upp gæðavottaðar tilfinningar, þá kæmi ég ekki til með að endast lengi meðal manna. Kuldalegt ekki satt. Samt er eiginlega ekkert ógeðslegra í lífinu en uppgerðarsamkennd, nema þá kannski þjóðarmorð og kæst skata.

Og þar sem raunveruleg samkennd er af takmörkuðu upplagi, kom mér þægilega á óvart fyrir nokkru, þegar góður vinur minn og ástkona hans eignuðust barn, hversu mikið ég gladdist. Gleði mín var alveg ómenguð. Hún var ekki lituð afbrýðissemi, eigingirni, né öðrum skítakleprum mannlegrar tilveru. Ég var himinlifandi yfir þessu fallega barni, og gleðinni sem það færði samferðafólki mínu. Áður en þetta var, man ég ekki hvenær ég síðast fann fyrir fölskvalausri samkennd.