Ópólítískur betrunarpistill

Ég er með fagurt hjartalag og með eindæmum hreinlundaður. Samviskusemi mín á sér engin landamæri. Ég er góður við menn og dýr. Allt eru þetta mannkostir sem hægt er að stæra sig af í kokteilboðum, og á öðrum mannamótum þar sem maður neyðist til að tala viðstöðulaust um sjálfan sig, öllum nærstöddum til óblandinnar ánægju. Þrátt fyrir að hafa í farteskinu dyggðir af þessari stærðargráðu er ég líklega sakbitnasti maðurinn á öllu Íslandi. Einhverra hluta vegna virðist vera innbyggt í þessa útgáfu af manneskju sem ég er, eitt það hræðilegasta samviskubit sem um getur. Mér líður alltaf í sálinni minni eins og ég hafi gert eitthvað á hlut meðbræðra minna, og þar af leiðandi læðist ég stundum meðfram veggjum. En nú verður breyting á, því ég hef fundið upp aðferð til að vinna gegn þessari sjúklegu samviskusemi sem kvelur anda minn. Eins og komið hefur fram ítekað á þessum vef, er ég mikill áhugamaður um að betra sjálfan mig. Í þeim tilgangi set ég mér oft fyrir eggjandi verkefni.

Í vikunni lagði ég bifreið minni af Opel gerð í stæði sem merkt var einkastæði. Ég freistaðist til að gera þetta, viss um að ég yrði ekki lengur en 5 mínútur að hlaupa inn í Yggdrasil búðina til að kaupa stórkarlalegar birgðir af mínu eftirlætis Tahini. Ég stóð við tímaáætlun, en þegar ég kom út sá ég að einhver var að reyna að leggja bíl í stæðið sem ég hafði tekið ófrjálsri hendi. Ég varð ægilega miður mín og Jesúsaði mig í bak og fyrir. Ég bað konuna sem hér átti í hlut afsökunar. Hún tók afsökunarbeiðni minni fálátlega, og tíundaði fyrir mér hvernig eigandi stæðisins hefði fyrir 55 sekúndum neyðst til að keyra framhjá með þungar vinnuvélar sem hann hefði ætlað að bera inn í hús, en gat ekki vegna þess að ég er vondi kallinn og vondi kallinn á alltaf skilið að deyja. Ég sagðist vera miður mín, og fór næstum að gráta. Ég settist upp í bíl, en í stað þess að rífa sjálfan mig í tætlur yfir þessari uppákomu, eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum – ákvað ég með sjálfum mér að ég hefði ekki gert neitt rangt og að þessi kona væri vondur nöldrari, sem nærist á samviskubiti meðbræðra sinna. Mér til mikillar undrunar, virkaði þetta svona skínandi vel. Ég hnussaði örlítið, en leið svo eins og ég væri réttsýnn góðborgari.

Betrunarverkefni mitt á komandi vikum er því sem hér segir: Ég ætla vísvitandi, upp á dag hvern, að gera eitthvað á hlut einhvers. Já, það stemmir – ég ætla að brjóta á einhverjum, hvort sem viðkomandi er mér kunnugur eður ei. Ég ætla síðan að halda reisn minni, og ganga um götur Reykjarvíkurborgar reigingslegur eins og ég sé með tandurhreina samvisku. Von mín er sú að ég nái með þessu að drepa í eitt skipti fyrir öll þetta sjúklega samviskubit, og að á endanum verði mér skítsama þó einhverjum finnist þeim fótum troðnir af mínum völdum. Allt sem miður fer, hættir að vera sjálfkrafa mér að kenna og fer að verða einhverjum öðrum að kenna, og það er ásættanlegra. Semsagt: Þú ert fífl! Ég er fínn!

Ég meðvirkur? Þú getur bara sjálfur verið meðvirkur! Hnusssss….

Fordómar og betrun

Undanfarnar vikur hef ég hugsað mjög óguðlegar hugsanir, sem eru andlega uppljómuðum manni af minni stærðargráðu – ekki samboðnar. Ég ákvað því að nú væri kominn tími til að refsa sjálfum mér og athuga hvort ég gæti ekki mögulega skolað úr sjálfum mér saurinn sem skólpast til í höfuðkúpu minni. Því varð úr, þegar góður félagi og mikill syndari Augusto Pinochet kom að máli við mig, að við sáum að ekki dygði neitt minna í refsingarskyni, en að hjóla sem leið liggur til Þingvalla og þaðan austur á Selfoss. Samkvæmt mínum mæli telur leiðin sú 100 kílómetra.

Við lögðum af stað, birgir af vatni og súkkulaði rétt upp úr hádegi á laugardegi. Ekki höfðu margir jeppaeigendur með felli- eða hljólhýsi í eftirdragi farið fram úr okkur, þegar ég fór að finna fyrir ólgandi fordómum. Ég missti sjónar af því að þarna er á ferðinni fólk sem þráir ekkert meira en að vera elskað eins og það er, en kemur ekki orðum að því. Og þar sem ég sté pedalana á hjólinu mínu, rann í stríðum straumum lýsi niður í augu mér og gerði mig blindan fyrir því að einhversstaðar á lífsleið þessarra manna hefði orðið misbrestur á, og ekki væri við þá að sakast. Einhver í ábyrgðastöðu gagnvart viðkomandi hefði svo ósköp einfaldlega getað faðmað hann og látið hann vita að hann væri einhvers virði, bara fyrir það eitt að vera til. Í stað þess, varð allt lífið að einni stórri átveislu, þar sem keppt var í hver gæti troðið mestu í sig áður en hann dræpist. En það var ekki það sem ég hugsaði, þar sem svitnaði á hjólinu mínu. Ég hugsaði meira eitthvað í líkingu við: Hjólhýsapakk sem treður í sig kartöfluflögum og glápir á raunveruleikasjónvarp, fyllir út í jeppabílana sína, meðan ég rembist við að rækta með mér umburðarlyndi og kærleik og hugsa tímamótahugsanir. En svona er það oft með mig. Ég gleymi andlegum vangaveltum og fer að hugsa um hvað fólk er ógeðslegt, í stað þess að sjá hlutina í víðara samhengi. Þá er stutt í ljóta fordóma, í stað umburðarlyndis og fegurðar.

Hér er svo mynd af Augusto Pinochet þar sem hann vottar – fyrir hönd okkar beggja – Steingrími Eyfjörð virðingu sína. Þess ber að geta að aldrei kom til greina að míga yfir þetta fallega skilti. Einnig var til mynd af mér, þar sem ég hylli Steingrím, en ég er svo asnalegur á henni, að ég get ómögulega verið að flagga henni hér á vefsetri mínu. Mér er svo umhugað um álit annarra.

Staða: 13.110.- , matarvenjur og draumfarir

Í dag gerði ég stórinnkaup hjá feitu feðgunum, annar þeirra nú yfirlýstur glæpamaður. Ég spáði lítið í því hvað ég keypti með tilliti til verðs. Mikið af grænmeti og gnótt af ávöxtum. Ég er sólginn í Sól appelsínusafa og hirði ekki neitt um hvað hann kostar. Tómur eins lítra brúsi, stendur hér á borðinu til vitnis um það. Aldrei nokkurn tímann kaupi ég kjöt, né er ég áhugamaður um kjötát. Ef það væri ekki svona mikið ægilegt vesen, þá gerðist ég alger grænmetisæta, en einu skiptin sem ég borða kjöt er þegar ég er boðinn í mat. Ég kaupi einstaka sinnum fisk í fiskbúðinni á horni Óðins og Freyjugötu. Sú fiskbúð er sannarlega draumi líkast. Hún væri fullkomin í svart hvítu. Að skipta við hjónin þar, er eins og að ferðast aftur í tímann. Ég keypti þó oftar fisk af þeim þegar ég hélt Þórkötlu í gíslingu.

Fúllyndur afgreiðslumaður rukkaði mig um 7200.- krónur fyrir tvo kjaftfulla poka af gúmmilaði.

Dýrustu innkaupin gerði ég í Yggdrasil, en þar keypti ég stóra Tahini krukku, flösku af sítrónusafa, og rauðar linsubaunir, sem ég nota í indverskan rétt sem ég kalla: Gunnar Dahl. Fyrir þetta borgaði ég frú Yggdrasil heilar 1800.- krónur.

Að öðru.

Mikið afskaplega dreymdi mig fallega í nótt. Undanfarinn mánuð hafa draumfarir mínar verið einstaklega óskemmtilegar. Stundum þannig að mér hefur fundist ég vera að deyja. En í nótt vísiteraði Þórkatla mig í draumi, ásamt mjög alúðlegri manneskju. Þórkatla stökk í fang mér og manneskjan, sem ég þekki ágætlega, sagðist elska mig. Að vera elskaður, þó ekki sé nema í draumi, gerði það að verkum að ég vaknaði alsæll í morgun og valhoppaði glaður og reifur inn í daginn. Þess ber að geta að ekki var farið yfir nein velsæmismörk.

Aðhald í mat og drykk

Til upprifjunar fyrir þá sem eru áhugasamir um hvað málið snýst, þá hef ég ákveðið að eyða, þennan mánuðinn, einungis 25 þúsund krónum í nauðsynjavörur, svo sem mat, drykk, hreinlætisvörur, út að borða með íslendingum og einum mexíkana, kaffiþamb á kaffihúsum osfrv. Þess ber að geta að ég er einn í heimili, eftir að kötturinn sem ég hélt í gíslingu stakk mig af og skildi mig einan eftir grátandi.

Þegar hér er komið við sögu, er mér ljóst að með uppteknum hætti lifi ég ekki mánuðinn af. Heilir þrír dagar hafa liðið og mér hefir tekist að eyða 2890.-. Þó hef ég ekki enn gert matarinnkaup hjá feitu feðgunum, enda sé ég ekki betur en birgðir endist fram á föstudag.

Á sunnudaginn lyfti ég mér á kreik og gerði það sem hvaða gagnkynhneigður, söngleikjaelskandi, karlmaður myndi gera. Ég fór á kvikmyndahús til að sjá algjört möst allra tíma í sinnemaskóp og tæknilitum: Beðmál í borginni. Ég tel ekki menningarlegan kostnað með, heldur einungis nauðsynjavöru, sem var í þessari bíóferð, popp og kóka kóla með sékri. Þar fóru strax 600 krónur. Og þar sem ég er svo meðvitaður um eyðslu, þá kostaði 1000 krónur að sjá Carrie Bradshaw máta alla nýju fínu skóna.

Eftir bíóhúsið fór ég í 10/11 í Lágmúla, og festi fé í poka af barnagulrótum til að narta í, þegar offituárinn setur af stað Jihad í hausnum á mér, einnig keypti ég Sítrónu Mentól Eukalyptus hálsbrjóstsykur, en ég er háður þessari tegund af brjóstsékri. Jú, mér er fullkunnugt um yfirlýsingar um majones- og sékur bindindi, ég get bara ekki hætt í þessum brjóstsékri – ég dey. Þar eyddi ég líka peningum í menningu og keypti bókina Sagan af Bíbí Ólafsdóttur, sem er ægilega spennandi. Hún kostaði 2000.-, en dregst ekki af 25 þúsund krónunum. Þarna strax á fyrsta degi er ég búinn að eyða 1000.-. Á öðrum degi mánaðarins, sat ég á Hressingarskálanum og drakk einn tvöfaldan kaffi latte, sem kostaði mig 370.-. Í dag fór ég fram úr sjálfum mér og snæddi í hádeginu með vinum mínum úr akademíunni. Ég fékk mér afleita súpu og kóka kóla í flösku, og fyrir þetta borgaði ég 800.-. Síðar um kvöldið fór ég á kaffihús og drakk einn kaffi latte og eina malt. Það kostaði mig 720.-

Eftir standa 22.110.-.

Ég heiti því hér með, að þegar ég á minna en 5000.- eftir – kaupi ég inn núðlur af ódýrustu sort til að lifa restina af mánuðinum af.

að ibba blogg


Hér hef ég ibbað blogg síðustu sex árin og nú er svo fyrir mér komið að ég er búinn að missa sjónar af tilgangnum með þessum skrifum. Ég hef því ákveðið að breyta þessu vefsetri í átaksblogg, þar sem ég heyja dauðastríð við aukakíló og aðra annmarka í eigin fari; meðfædda og áunna.

Annmarkar?

Það kemur fólki undantekningalaust mjög á óvart þegar það verður þess áskynja að ég geng ekki alveg heill til skógar. Oft er þetta sama fólkið og les netpistla mína, sem geisla af andlegu heilbrigði sem Jesú Kristur hefði verið stoltur af. Ég er líka svo vandur að virðingu minni, enda vill ég vera tekinn alvarlega. Fátt skiptir mig jafnmiklu máli. Þá get ég dáið sæll og glaður, vitandi af yfirburðum mínum í þessum kjánalega heimi. En hversu heill sem ég nú er, þá þarf ég stöðugt að vera á verði, til að brjóta á bak aftur illa vætti og þrálátar kreddur. Til þess er nauðsynlegt að setja sjálfum sér ófrávíkjanlegar lífseglur. Róm var ekki byggð á einum degi, og einhver þarf að taka það að sér að halda henni við.

Átak í uppsiglingu.

Í júní mánuði hef ég í hyggju að gera tilraunir í heimilishaldi hér á Óðinsgötunni. Ég er einn í heimili og get gert nákvæmlega það sem mér sýnist án þess að eiga það á hættu að gera aðra manneskju fýlda. Það er dásamlegt.

30. maí, fer ég í bankann minn og tek út 25 þúsund krónur í peningum. Á þessari upphæð ætla ég að lifa af júní mánuð. Allur kostnaður, svosem innkaup á mat, kaffiþamb á kaffihúsum, út að borða með íslendingum osfrv. má ekki fara yfir þessu upphæð. Ef ég leyfi mér að borða á veitingastað, minnka ég lífslíkur mínar það sem eftir lifir mánaðarins. Ég er ekki mikil eyðslukló, en ég velti ekki nógu vel fyrir mér í hvað peningarnir mínir fara. Ég geri smáinnkaup, oftar en ekki í einhverjum okurbúllum, eins og 10/11 eða Nóatúni. Ég er þó einn af fáum íslendingum sem á ekki neitt og skulda ekki neitt, svo ástæðan fyrir því að ég geri þessa tilraun er ekki sú að ég sé búinn að gera í mig fjárhagslega.

Ég hef einnig, sett sjálfan mig í sékur og majonesstraff. Oft þegar ég verð dapur og einmana í sálinni minni, kaupi ég mér líters dollu af majonesi og skófla í mig. Þá líður mér strax betur. Ég er hinsvegar eins og Oprah með það, að ég má ekki víkja af leið, þá blæs ég út eins og 17. júní blaðra og langar í kjölfarið til að deyja.

Þannig að skrif mín á þessum vef, upp frá þessari stundu, koma öll til með að ganga út á betrun líkama og sálar.