Fordómar og betrun

Undanfarnar vikur hef ég hugsað mjög óguðlegar hugsanir, sem eru andlega uppljómuðum manni af minni stærðargráðu – ekki samboðnar. Ég ákvað því að nú væri kominn tími til að refsa sjálfum mér og athuga hvort ég gæti ekki mögulega skolað úr sjálfum mér saurinn sem skólpast til í höfuðkúpu minni. Því varð úr, þegar góður félagi og mikill syndari Augusto Pinochet kom að máli við mig, að við sáum að ekki dygði neitt minna í refsingarskyni, en að hjóla sem leið liggur til Þingvalla og þaðan austur á Selfoss. Samkvæmt mínum mæli telur leiðin sú 100 kílómetra.

Við lögðum af stað, birgir af vatni og súkkulaði rétt upp úr hádegi á laugardegi. Ekki höfðu margir jeppaeigendur með felli- eða hljólhýsi í eftirdragi farið fram úr okkur, þegar ég fór að finna fyrir ólgandi fordómum. Ég missti sjónar af því að þarna er á ferðinni fólk sem þráir ekkert meira en að vera elskað eins og það er, en kemur ekki orðum að því. Og þar sem ég sté pedalana á hjólinu mínu, rann í stríðum straumum lýsi niður í augu mér og gerði mig blindan fyrir því að einhversstaðar á lífsleið þessarra manna hefði orðið misbrestur á, og ekki væri við þá að sakast. Einhver í ábyrgðastöðu gagnvart viðkomandi hefði svo ósköp einfaldlega getað faðmað hann og látið hann vita að hann væri einhvers virði, bara fyrir það eitt að vera til. Í stað þess, varð allt lífið að einni stórri átveislu, þar sem keppt var í hver gæti troðið mestu í sig áður en hann dræpist. En það var ekki það sem ég hugsaði, þar sem svitnaði á hjólinu mínu. Ég hugsaði meira eitthvað í líkingu við: Hjólhýsapakk sem treður í sig kartöfluflögum og glápir á raunveruleikasjónvarp, fyllir út í jeppabílana sína, meðan ég rembist við að rækta með mér umburðarlyndi og kærleik og hugsa tímamótahugsanir. En svona er það oft með mig. Ég gleymi andlegum vangaveltum og fer að hugsa um hvað fólk er ógeðslegt, í stað þess að sjá hlutina í víðara samhengi. Þá er stutt í ljóta fordóma, í stað umburðarlyndis og fegurðar.

Hér er svo mynd af Augusto Pinochet þar sem hann vottar – fyrir hönd okkar beggja – Steingrími Eyfjörð virðingu sína. Þess ber að geta að aldrei kom til greina að míga yfir þetta fallega skilti. Einnig var til mynd af mér, þar sem ég hylli Steingrím, en ég er svo asnalegur á henni, að ég get ómögulega verið að flagga henni hér á vefsetri mínu. Mér er svo umhugað um álit annarra.

12 thoughts on “Fordómar og betrun”

  1. Assgoti eruð þið seigir!

    Það jafnast fátt á við að hressilega oföndun í bílamergð með þreföldu æskilegu ársmagni af útblæstri…

    Nú megum við eiga von á verulega (koltví)sýrðum pistlum!

    P.S. Annað hvort sendir þú mér reikning eða ég hef það ráð eitt að greiða þér umsamda upphæð í (ónotuðum)1 kr. frímerkjum – sem ég mun líma samviskusamlega á rúðurnar í gluggum heimilis þíns að Fossagötu 6!!!

  2. þú ert hatarinn & útlendingarnir eiga felli/hjólhýsi.

    Ég mælist til að þú finnir mann (nú eða konu) sem á slíkar græjur og kynnist honum með það að markmiði að elska hann eins og hann væri af þínu blóði, ef þú ert heppinn þá býður hann þér í útilegu!

  3. Málið er einfalt, sá/sú sem á mest dót þegar hann/hún deyr vinnur. Það er bara þannig sko :/

    Við “hin” sem töpuðum jafnvel keppninni snemma á lífsleiðinni verðum svo bara að rembast við að trúa því að það sé hérna einhver annar tilgangur…..

    En til lukku með útreiðarnar. Þetta er nú assgoti góður leggur at arna, 100 km. Já, sei sei.

  4. A.A. and acceptance have taught me that there is a bit of good in the
    worst of us and a bit of bad in the best of us; that we are all children of
    God and we each have a right to be here. When I complain about me or
    about you, I am complaining about God’s handiwork. I am saying that I
    know better than God.

    — Dr. Paul O.

  5. Ef guð er til, þá þykir mér ljótt að kenna honum um hvernig sumt fólk er. Og hver er þessi Dr. Paul O, afhverju þykist hann vera betri en við hin sem göngumst við því að vera uppfull af fordómum?

  6. Dr Paul er steindauður, uppfullur af brestum og ófullkomleika eins og við hin 😉 Djöfull getið þið vælt drengir, hehe

Comments are closed.