Teboð

Fyrir 13 árum síðan ætlaði ég að verða gyðingur og skráði mig því í hebreskuskóla í Ísrael. Skólinn var á samyrkjubúi og þurfti ég ásamt þeim er hann sóttu að vinna baki brotnu fyrir mati og uppihaldi meðan við námum hið helga mál. Þar kynntist ég ungri stúlku frá Bretlandi sem var í herbergi við hliðina á mér. Öllum er kunnugt hversu hrifnir Englendingar eru af tesopanum og var þessi kona engin undantekning. Hún talaði linnulaust um hvað enska teið væri bragðgott og hversu mikið hún saknaði þess. Að ísraelska teið væri bara bölvað sull og nánast ódrekkandi. Hvort er við vorum við vinnu á ökrunum, í matsalnum, reykherberginu, eða í frímínútum – alltaf vék umræðan að þessu bölvaða tei-i: “You just have to taste it some day Siggy, it’s splendid this tea that I speak of.”

Eftir viku eða tvær var hún það aðframkominn af tefráhvörfum að hún bað einhvern nákominn sér að senda sér te í gegnum póstkröfu. Þegar sendingin barst fylltist ég eftirvæntingu yfir að fá loksins að smakka þetta undursamlega te sem ég hafði heyrt svo mikið um. Í matsalnum hitaði hún vatn og hellti í bollann. Ég stóð hjá tilbúinn með bollann minn eins og Oliver Twist að bíða eftir súpuskammti. Úr vasa sínum dró hún upp tepoka sem hún setti í bollann sinn. Eftir að hafa hrært vel og lengi veiddi hún hann með skeið og rétti mér hann. Ég starði undrandi á hana en tók svo við honum þegar ég áttaði mig á að hún ætlaði ekki að láta mig hafa ferskan poka. Ég sullaði tepokanum fram og aftur í bollanum mínum og pressaði hann kröftuglega með skeiðinni. Er ég loks saup á varð ég fyrir hörmulegum vonbrigðum. Teið var gersamlega bragðlaust!

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ég hefði ekki þarna átt að taka aðra stefnu í lífinu.