No one ever ever knows anyone

Síðan ég byrjaði að skrifa veflóka, hef ég stundum velt því fyrir mér hvort eitthvað af því sem ég skrifa um, komi til með að hafa á einhvern hátt eyðileggjandi áhrif á líf mitt í ókominni framtíð. Ég hef svo sem ekki mikið brotið heilann um þetta, en það verður þó að viðurkennast að ég hef í nokkrum tilfellum hugsað þetta af einhverri alvöru.

Ég tel þó að ekki sé hægt að draga mig í dilka fyrir orð mín hér á þessum vef. Ég hef þó notað óviðeigandi orð eins og drullukunta, sem er fallegt og jafnframt rammíslenskt orð. Til gamans má geta að sé leitarorðinu “drullukunta” slegið inn í leitarvélina hressu og uppátækjasömu google, er síðan mín meðal fyrstu niðurstaðna. Ég get ekki sagt að ég sé mjög hróðugur yfir þessari skemmtilegu “tilviljun”. En einhverstaðar verð ég að slá í gegn.

Einnig skrifa ég veflóka nánast undir fullu nafni með myndum svo hægt sé að bera kennsl á ófögnuðinn. Á þeim tíma sem ég hugðist giftast amerískum lögfræðingi og flytjast búferlum til Brjálæðaríkjanna, hafði ég einhverjar áhyggjur af því að útlendingaeftirlitið í Brjálæðaríkjunum næði að lesa það út úr síðunni minn að ég er mjög svo andvígur stjórn landsins, og þess vegna neitað mér um landvistarleyfi. Enn og aftur um daginn fór ég hugsa eitthvað í þessa veruna. Núna er mér hinsvegar sama. Þó svo að ég noti dónaleg orð í skrifum mínum, þýðir það hvorki eitt né neitt.

“No one ever ever knows anyone.” – Rules Of Attraction

Lífsins lystisemdar

Stundum kemur mér til hugar að ég væri hamingjusamari ef ég léti aðeins meira eftir mér en ég geri. Ég hef þess vegna slakað aðeins á í matarstraffinu sem ég set sjálfan mig reglulega í. Í síðustu viku sló ég til og át eina mozart kúlu. Ég át þessa kúlu í virðingarskyni við þann sem bauð mér hana. Sá er bauð mér þessa kúlu var einn af betri borgurum þessa samfélags og þar sem ég er nokkuð vel upp alinn fyrir sunnan og norðan skítalæk þáði ég hana með þökkum. Ég hefði betur verið ókurteis og afþakkað hana, eða þá hrækt henni út úr mér áður en mér varð það á að kyngja. Snjóboltaáhrifin margumtöluðu eiga vel við því kúlan sú atarna hefur undið all hressilega upp á sig. Ég hef síðan þá, landað ís með dýfu, cappucino ís, kartöfluflögum með majonesi, daim karamellum, belgísku súkkulaði ásamt fleira júmmilaði sem hefur sest rakleiðis á rass mér og læri. Þeir sem til þekkja vita það eins vel og ég að þetta endar með geðveiki og dauða.

Þessa stundina er ég einmitt að gæla við það að fá mér kaffi. Ég verð að segja að ég finn ekki fyrir því að ég sé neitt minna taugaveiklaðri þó svo ég hafi neitað mér um kaffi í tvær vikur. Nei, heldur þvert á móti hef ég það á tilfinningunni að ég sé maður á ystu nöf, með alltof stuttan sprengiþráð. Ég er viðkvæmur, önugur og minnst 25% óhamingjusamari fyrir vikið.
Nei, nú er nóg komið. Á morgun fæ ég mér stóran kaffi latte á Brundslunni.

Loose Change

Síðustu daga hef ég aðeins skoðað samsæriskenningar tengdar 9/11. Jæja, sannleikanum samkvæmt hef ég öllu heldur legið í samsæriskenningum um 9/11 eins og sardína í olíu. Ég hef reyndar síðustu ár séð eitthvað af myndbrotum og lesið jafn mikið af röksemdafærslum, en ekki hef ég til þessa haft mikla trú á að ríkisstjórn fábjánans hans Bush, hafi haft hönd í bagga í árásunum á WTC. Núna er ég hinsvegar sannfærður. Í mínum huga kemur í sjálfu sér ekkert annað til greina. Það eru of mikið um ósamræmi og uppákomum sem einfaldlega koma ekki heim og saman í atburðarás 11. september 2001. Það eru að sama skapi of margir sem höfðu ávinning af bæði árásunum og eftirleiknum.

Vissir þú tildæmis lesandi góður að stálbitarnir í WTC voru fóðraðir með asbest, sem er krabbameinsvaldandi óþverri. Samkvæmt lögum í New York er þeim gert sem notað hafa asbest í byggingariðnaði, að fjarlægja það eftir kúnstarinnar reglum. Áætlaður kostnaður við að strípa stálbita WTC, var milljarður dollarar.

Sex vikum áður en árásirnar voru gerðar skrifaði Larry Silverstein eigandi WTC upp á samning við tryggingarfélag upp á tryggingu sem taldi hvorki meira né minna en $3.2 milljarða, þar meðtalin var trygging upp á litlar $3.5 milljarða ef gerð yrði hryðjuverkaárás. Hann Larry okkar Silverstein er ekki óhress þessa daganna. Hann og forljót konan hans biður að heilsa.

Samkvæmt skýrslum var einn milljarður gulls ígildi geymt í kjallara WTC, byggingu númer 4. Einungis $230 milljónir í gullstöngum fundust í rústunum, þeim var búið að hlaða í tvo flutningatrukka.

Svartir kassar í þotum af þeirri tegund sem flugu inn í turnana tvo eru búnir til úr þeim alsterkustu málmum sem mannskepnan hefur fundið upp. Samt sem áður fannst hvorugur kassinn í rústunum. Hinsvegar fannst vegabréf eins flugræningjans. En vegabréf er eins og flestir gera sér grein fyrir búin til úr gamaldags pappír.

Þessi atriði eru einungis brotabrot.

Ég mæli eindregið með:
Loose Change
911 Mysteries

Nú verður gaman….

Það eru nokkrar mínútur í miðnætti á föstudagskveldi. Ég er nýbúinn að vaska sjálfan mig upp, plokka augabrýrnar, setja á mig vellyktandi, tannbursta og gera mig eins fallegan og ég get mögulega áorkað, án þess að nota bolabrögð.
Og hvað stendur til kann einhver að spyrja sig. Á að skella sér á veiðilendurnar. Liggur leið mín á Nasa, Prikið eða kannski Vegamót.
Nei, ekki er nú svo. Eftir að vera búinn að snurfusa mig og hafa mig rækilega til, hef ég í hyggju að leggjast í uppábúið rúm mitt með skál fulla af rúsínum og fræum og horfa á heimildarmynd um Íraksstríðið.
Á einhverjum tímapunkti í mínu lífi hefðu mér fundist lifnaðarhættir mínir afskaplega óspennandi, ef ekki gersamlega niðurdrepandi.
Ég hinsvegar verð að viðurkenna að ég er nokkuð sáttur.

Ego namaskar

Ég hef fengið sérstakt lof fyrir það hversu miklir andlegir yfirburðir mínir eru. Þarna er ekki verið að ýkja né gera of mikið úr. Ég hef allt frá því ég hóf viðskipti í samtökum iðnaðarins vaxið sem andleg, yndisleg og sérstaklega aðlaðandi mannvera með ótrúlega þægilega nærveru. Þetta er umtalað hvarvetna, ímynda ég mér. Það eru hinsvegar ekki allir jafn andlega glæstir og ég, þar ber að nefna tildæmis nágranna mína, en þau eru ekki neitt andleg. Það fer um mig ánægjutilfinning þegar ég hitti þau í stigaganginum eða hér út í porti. Vegna þess að í samanburði við þau er ég andlegur risi. Vitandi af því, líður mér alveg prýðilega innst innan í mér.

Í fullri hreinskilni þá er mér fyrirmunað að skilja hvað það er í sumum tilfellum sem heldur fólki gangandi. Hvaða tilgangi þjónar að halda úti hjónabandi sem byggist á að niðurlægja makann þinn, með svívirðingum og óhróðri. Er það kannski barnanna vegna. Ég get fullyrt við hvern sem er að börnunum er ekki neinn greiði gerður með að eyða uppvaxtarárunum með tveimur fullorðnum einstaklingum sem hafa ekkert betra við líf sitt að gera en að láta sér líða andstyggilega og láta það bitna á hvoru öðru með tilheyrandi hávaða og ofbeldi.

Það kemur fyrir að ég væli stundum yfir því hversvegna staða mín er ekki betri en hún er osfrv. Hvers vegna ég fæ alltaf stóra bólu þegar ég ætla að fara á dansiball að daðra við konur. Hvers vegna ég á ekki íbúð og bíl. Heill heljarinnar pakki af einhverju sem skiptir kannski ekki svo miklu máli, ef þá einhverju. Sumu fólki líður alveg herfilega. Ég heyri það á milli þilja.
Ég á hinn bóginn, geri mér yfirleitt alltaf(samt ekki alltaf) grein fyrir því hvers vegna ég er dapur eða hvað það er sem amar að mér og hvað ég get gert til að betrumbæta ástandið. Það eru bara ekkert allir sem búa svo vel.

Hættur

Þá er ég hættur að drekka kaffi. Ég á þá bara eftir að hætta að láta út úr mér orð og orðasambönd, sem þykja ekki fín á sannkristnum heimilum. Ég er bókstaflega hættur öllu öðru. Í lífi mínu undanfarin ár hef ég kappkostað við að láta af hverjum ósiðnum á fætur öðrum.

Einn af þeim ósiðum sem ég hef gefið upp á bátinn var vinna mín hjá hinu opinbera. Þann ósið tek ég vonandi aldrei upp aftur.
Fyrir þremur og hálfu ári síðan hætti ég að reykja. Mér flaug það einu sinni í hug að mál væri komið að byrja aftur. Þá var ég staddur í New York City í gríðarlegri ástarsorg. Ég hugsaði með sjálfum mér “Já, nú er rétti tíminn til að byrja aftur að reykja”. Svo þegar ég hugsaði þá hugsun lengra, þá gat ég ekki með nokkrum móti réttlætt það fyrir mér. Sérstaklega ætlaði ég ekki að gera þeim það til geðs, sem ég hafði tuðað í vegna reykinga. Reykingar frá mínum bæjardyrum séð, er eitt það alasnalegasta sem mannskepnan hefur ástundað.

Ég er því orðinn hálfgerður púritanisti. Ég gersamlega leyfi mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég læt svo gott sem allt á móti mér. Nema í gærkveldi, þá ætlaði bráðaátusjúkdómurinn sem mig hrjáir svo ógurlega að koma mér rækilega fyrir kattarnef. Ég gat bara ekki hætt að éta. Ég var étandi alveg langt fram á nótt. Ég hélt ég myndi éta mig yfir móðuna miklu. Það gerist örsjaldan, að ég sé svo þjakaður af sorg og tómarúmi að ég finn hjá mér þörf að éta á mig gat.
Þar fyrir utan er ég orðinn alveg sérstaklega leikinn í að láta á móti mér hluti.

Ég ætla síðan þegar allt hefur um koll keyrt hætta að anda líka. En það verður nú kannski einhver bið á því.

Skrítið líf

Ég ætlaði leið sem liggur niður í bæ til að sýna mig og sjá aðra, þegar ég kom auga á eina þá alstærstu bólu sem ég hefur prýtt andlit mitt á þessu annars ágæta ári. Þetta hryggir mig ótæpilega því ég var búinn að hlakka mikið til að sitja í góðum félagsskap, hlæja, gráta og upplifa hvað það er að vera hluti af. En svona er lífið. Siðfræðilega er mér alveg fyrirmunað að vera áhyggjulaus umkringdur fólki sem á í erfiðleikum með að horfa framan í mig, sökum þess hversu illa er fyrir mér komið. Ég vildi óska þess að aðrir hugsuðu eins og ég, og héldu sig heima þegar svona er fyrir þeim statt.

En ég þarf ekki að grenja og barma mér. Því hér fyrir utan gluggann minn er mættur á svæðið harmonikkuspilari. Hann er ekkert lítið hress. Ég hugsa að hann haldi þetta út alveg til klukkan 3 í nótt, þegar lýðurinn er orðinn óalandi og óferjandi sökum drykkju og vímuefnaneyslu. Um síðustu helgi sá ég alveg sérstaklega ófríða pissfulla konu, sem ætlaði í sleik við harmonikkuspilarann, með eða án hans samþykkis. Hann náði með herkjum að stugga henni í burt, við mikinn ófögnuð konunnar. Hún ekkert nema undrunin yfir að hann ullaði ekki umsvifalaust upp í hana.

Ég reyndar fylgdist nokkuð náið með lýðnum fyrir utan gluggan um síðustu helgi. Ég veit eiginlega ekki hvers vegna. Stundum þegar ég er ekki alveg jafn hamingjusamur og ég á að mér að vera, verð ég alveg sérstaklega sorgmæddur að sjá ofurölvi fólk rangla hér fyrir utan gluggann hjá mér langt fram á morgun.

Þetta er skrítið líf.

Anna

Ég hef einhvern tímann áður skrifað um störf mín í heilbrigðisgeiranum, sem ég lagði ástund á bæði hérlendis og erlendis. Margir vilja meina að þarna sé um að ræða alveg sérstaklega gefandi og jafnframt þroskandi störf. Ég er þó ekkert svo viss að öll sú reynsla sem er innifalin í því að starfa á öldrunardeildum og heimilum fyrir geðfatlaða sé svo eftirsóknarverð. Eitt get ég þó sagt án þess að ég finni fyrir snefil af efa, að þessi vinna breytti því hvernig ég sé lífið.

Fyrr í kvöld hjólaði ég í gegnum gamla spítalalóð, þar sem ég einmitt vann. Mér varð hugsað til konu sem var í minni umsjá. Ég og þessi kona sem ég ætla að kalla Önnu í þessum pistli náðum reglulega vel saman og vorum mestu mátar. Hún gat hvorki talað né skrifað, svo mest öll okkar samskipti áttu sér stað með allskonar hljóðum og látbragði. Hún var þónokkuð vansköpuð og átti við miklar geðsveiflur að stríða.

Á þessum tíma dreymdi mig eftirfarandi draum. Ég var staddur í gleðskap með fullt af fólki sem ég kunni engin sérstök deili á. Ásýndar sá ég konu sem nálgaðist mig. Hún var rétt rúmlega fertug og leit glæsilega út. Hún var vel til höfð, í svörtu pilsi og svartri skyrtu, alveg áberandi skæs. Hún staðnæmdist beint fyrir framan mig, horfði í augu mér og kímdi, rétt eins og hún vissi eitthvað sem ég hafði ekki minnstu hugmynd um. “Kannastu ekkert við mig”, spurði konan. Hún var með útvarpsrödd, eins og þula eða pólitíkus. “Nei, ég get ekki sagt að ég muni eftir þér”, sagði ég. Ég virti hana betur fyrir mér, en var engu nær. Hún brosti. “Jú, sjáðu til. Ég er hún Anna, þ.e.a.s ef ég hefði fengið að fæðast eðlileg” sagði konan. Það kom á mig. Ég skoðaði hana betur, en gat ekki séð að hún ætti margt sameiginlegt með henni Önnu minni inn á deild, fyrir utan kannski augn og háralit. Hún brosti góðlátlega og hélt sína leið.
Draumurinn endaði, en lifir góðu lífi í minningu minni.

Cohen gadol

Sá hefur ekki lifað né elskað, sem ekki hefur haft kynni af listamanninum Leonard Cohen.
Sökum þess hversu mikið mér leiddist fyrr í kvöld, skrapp ég í bíóhús með 5 mínútna fyrirvara. Ég sat þar einn við hliðina á fínni frú sem ég passaði mig á að horfa ekki framan í. Ég hélt kannski að ef ég myndi horfa framan í hana, þá myndi hún myrða mig með augunum.
Núna stendur yfir kvikmyndahátíð í Reykjavík og eru þar nokkrar myndir sem ég hef áhuga á, þar á meðal þessi sem ég sá í kvöld sem heitir Leonard Cohen: I’m Your Man. Ég hef lengi verið aðdáandi Leonard Cohen, eða frá því ég var u.þ.b 15 ára. Um það leiti sem ég uppgögvaði hann, kom hann hingað til landsins og hélt tónleika sem ég því miður varð af.
Ég eins og svo margir aðrir, varð fyrir miklum áhrifum frá honum. Ég lét mig dreyma um að flytja til Montreal, búa í iðnaðarhúsnæði, með blikkandi neonskilti fyrir utan gluggann hjá mér. Drekka rauðvín dægrin löng og skrifa bókmenntir. Draumur minn var allur í svarthvítu.
Leonard Cohen er frá mínum bæjardyrum einn af þessum mönnum sem virðist lífinu mikilfenglegri. Hann er það að sjálfsögðu ekki. Hann hefur þó verið tekinn í einhverja óskilgreinda gúrúatölu, ekki bara sem tónlistarmaður heldur líka sem manneskja. Ég sé alls ekki eftir að hafa farið á þessa mynd, en ég hefði kosið að sá sem gerði myndina hefði vandað sig aðeins betur og verið kannski aðeins frumlegri í klippingu og eftirvinnu. Einnig þoldi ég illa að sjá í endann á henni að róninn hann Mel Gibson var einn af framleiðundunum. Mel Gibson er einn af þeim mest óþolandi mönnum sem til er í sjóbissnessnum.

sofi sofi

Þá er liðið hálft ár síðan ég kastaði sjónvarpstækinu mínu á dyr. Í tilefni af því ætla ég að verðlauna mig og eyða öllu sparifénu mínu í 42″ plasma sjónvarp með 8 cyl turbo V vél. Nú verður sko gaman. Þetta gerir það sjálfkrafa að verkum að ég fer ekki út úr húsi næstu daga, jafnvel vikur. Nei, ég kaupi ekkert sjónvarp. Ég hvorki hef áhuga á því, né tel ég að það sé til hagsbóta fyrir heimili mitt. Það er þó ekki svo að ég horfi ekki á einstaka ruslþátt í tölvunni minni. Ég var tildæmis rétt í þessu að horfa á sorpþáttinn Rock Star Supernova. Lágkúrulegt drasl. Ég verð þó að viðurkenna þó svo ég sé endalaust að setja sjálfan mig á stall, að ég finn fyrir einhverju einkennilegu stolti sem ég kann enga skýringu, yfir velgengni hans Magna okkar.

Ég horfi á fréttatíma sjónvarps, ekki NFS. Þar fyrir utan horfi ég á eina og eina biómynd. Ég þarf þó að hafa sterkan grun um að myndin sé góð og að hún höfði sérstaklega til mín. Ég er á þeirri skoðun að of mikið sjónvarpsgláp sé mannskepnunni einfaldlega ekki holl. Ég hef fundið fyrir því að þar sem sjónvörp eru í gangi er töluverð hætta á að ég missi mig ósjálfkrafa inn í dagskránna, án þess að hafa svo mikið sem snefil af áhuga fyrir henni.
Er ég hamingjusamari eftir að ég hætti að hafa sjónvarp á heimilinu? Nei, ekki get ég nú sagt það. Mér gefst bara meiri tími einn með sjálfum mér. Tími til að hugsa einhverja vitleysu. Eins hver sé tilgangurinn með þessu jarðlífi og annan eins ómerking. Ég les reyndar í bókum, mér til mikillar skemmtunar. Stundum hlusta á ég á tónlist. Ég læt mig dreyma. Ég sef.