að ibba blogg


Hér hef ég ibbað blogg síðustu sex árin og nú er svo fyrir mér komið að ég er búinn að missa sjónar af tilgangnum með þessum skrifum. Ég hef því ákveðið að breyta þessu vefsetri í átaksblogg, þar sem ég heyja dauðastríð við aukakíló og aðra annmarka í eigin fari; meðfædda og áunna.

Annmarkar?

Það kemur fólki undantekningalaust mjög á óvart þegar það verður þess áskynja að ég geng ekki alveg heill til skógar. Oft er þetta sama fólkið og les netpistla mína, sem geisla af andlegu heilbrigði sem Jesú Kristur hefði verið stoltur af. Ég er líka svo vandur að virðingu minni, enda vill ég vera tekinn alvarlega. Fátt skiptir mig jafnmiklu máli. Þá get ég dáið sæll og glaður, vitandi af yfirburðum mínum í þessum kjánalega heimi. En hversu heill sem ég nú er, þá þarf ég stöðugt að vera á verði, til að brjóta á bak aftur illa vætti og þrálátar kreddur. Til þess er nauðsynlegt að setja sjálfum sér ófrávíkjanlegar lífseglur. Róm var ekki byggð á einum degi, og einhver þarf að taka það að sér að halda henni við.

Átak í uppsiglingu.

Í júní mánuði hef ég í hyggju að gera tilraunir í heimilishaldi hér á Óðinsgötunni. Ég er einn í heimili og get gert nákvæmlega það sem mér sýnist án þess að eiga það á hættu að gera aðra manneskju fýlda. Það er dásamlegt.

30. maí, fer ég í bankann minn og tek út 25 þúsund krónur í peningum. Á þessari upphæð ætla ég að lifa af júní mánuð. Allur kostnaður, svosem innkaup á mat, kaffiþamb á kaffihúsum, út að borða með íslendingum osfrv. má ekki fara yfir þessu upphæð. Ef ég leyfi mér að borða á veitingastað, minnka ég lífslíkur mínar það sem eftir lifir mánaðarins. Ég er ekki mikil eyðslukló, en ég velti ekki nógu vel fyrir mér í hvað peningarnir mínir fara. Ég geri smáinnkaup, oftar en ekki í einhverjum okurbúllum, eins og 10/11 eða Nóatúni. Ég er þó einn af fáum íslendingum sem á ekki neitt og skulda ekki neitt, svo ástæðan fyrir því að ég geri þessa tilraun er ekki sú að ég sé búinn að gera í mig fjárhagslega.

Ég hef einnig, sett sjálfan mig í sékur og majonesstraff. Oft þegar ég verð dapur og einmana í sálinni minni, kaupi ég mér líters dollu af majonesi og skófla í mig. Þá líður mér strax betur. Ég er hinsvegar eins og Oprah með það, að ég má ekki víkja af leið, þá blæs ég út eins og 17. júní blaðra og langar í kjölfarið til að deyja.

Þannig að skrif mín á þessum vef, upp frá þessari stundu, koma öll til með að ganga út á betrun líkama og sálar.

“Æm on his ass!”

Steinsnar frá akademíunni snæddum ég og félagi minn hádegisverð á kaffihúsi. Þegar ég stóð við hið svokallaða Buffet og jós súpu í skál, kemur maður á sextugsaldri sem mér reiknaðist til að væri eigandinn af þessum virðulega stað. “Ef þér líkar ekki þessi súpa, máttu hella henni yfir mig,” sagði hann kokhraustur. Í bullandi náungakærleik og geðsjúkri meðvirkni, hló ég kurteislega til að manninum liði ekki kjánalega.

Eftir nokkrar matskeiðar af annars ágætis humarsúpu, nálgast eigandinn borðið okkar og spyr mig hvort hann þurfi að setja upp húfu. Ég segi honum að þess gerist ekki þörf, því súpan sé fyrirtak. Félagi minn samsinnir mér og við vonum báðir að hann fari í rassgat og leyfi okkur að borða helvítis súpuna í friði. En hann er ekkert á leiðinni í rassgat, því hann drollar við borðið okkar og byrjar að röfla um að hann eigi staðinn og þetta sé ekki einungis veitingastaður, heldur líka hótel. Við, alveg gersamlega dolfallnir yfir því að hann eigi þennan stað – váum og veinum af hrifningu.

Hann hefur sig loks á braut, en litlu síðar stendur hann við barinn og glápir á okkur meðan við borðum. Eitthvað í fari veitingamannsins fær mig til að gera tengingu á milli hans og ódæla leigusalans – fyrir mér virðist hann nákvæmlega sama manngerðin.

Á næsta borði við okkur situr sólbakað hott sjott með makkatölvu fyrir framan sig. Ég gaf honum engan sérstakan gaum fyrr en hann fór að tala í símann, en þá lagði ég við hlustir, enda við nánast bak í bak. Digurbarkalaga talar hann ensku með íslenskum hreim og virðist vera að redda einhverjum aðkallandi viðskiptamálum. Einhverju kremkexi, eða 17. júní veifum, sem hann er að flytja inn. Honum er mikið niðri fyrir og leggur sig talsvert fram um að sannfæra manneskjuna á hinum endanum að hann sé svona: “hands on kind of guy” Til að undirstrika í hversu öruggum höndum viðskiptin eru, heyri ég hann segja: “Æm on his ass!” Hvað í ósköpunum á hann við? hugsa ég með sjálfum mér. Er hann á rassinum á einhverjum? Ég botna ekki neitt í neinu, en tel víst að þetta sé tungumál sem allir stórlaxar í viðskiptum kunni.

Eigandinn kemur aftur að borðinu okkar, alveg ónæmur fyrir því að við viljum ekki njóta nærveru hans. “Endilega kíkið upp og skoðið hótelið áður en þið farið” segir hann borubrattur. Við jánkum, en vitum vel að það er það síðasta sem við ætlum að gera.

Blendnar tilfinningar

Alltaf þegar ég kemst í pappírsmoggann, blaða ég fullur af eftirvæntingu í gegnum minningagreinarnar til að athuga hvort ég finni þar ekki einhvern sem ég mögulega þekki. Ef ég svo þekki ekki neinn, sem er yfirleitt reglan, þá verð ég örlítið vonsvikinn og fýldur innan í mér. Þetta finnst mér skrítið, því samkvæmt forskrift ætti ég að finna til feginleika. Hvaðan ætli þessi afbrigðilegheit komi?

Villiöndin


Ég hef fengið ákúrur á mig fyrir að skrifa full fjálglega um dauðann. Ég fæ ekki skilið hvers vegna fólk er svona ægilega feimið við dauðann. Þið vitið að þetta endar aðeins á einn veg? Er það ekki annars?

En þar sem lesendum mínum þykir dauðinn niðurdrepandi viðfangsefni, hef ég ákveðið að skrifa lítillega um lífslygina sem heldur flestum okkar gangandi. Ég heyrði fyrst minnst á lífslygina í leikriti Henrik Ibsen: Villiöndinni. Ég kann þeim sem kynnti þetta verk fyrir mér – engar þakkir fyrir. Ég tek þó fram að ég hugsa til viðkomandi með kærleik í hjartanu.

* SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS * SPOILERS *

Villiöndin er saga um Hjálmar, sem er afskaplega aumkunarverður maður. Hann lifir í þeirri lygi að hann sé faðir dóttur sinnar, að hann sé fyrsti maðurinn í lífi konu sinnar, og að hann sjálfur sé hársbreidd frá því að finna upp tækni sem gerir honum kleift að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Allt sem hann lifir fyrir er ekki raunverulegt – en hann veit það ekki. Hann er hamingjusamur. Elskar dóttur sína og konu, og vinnur ötullega að uppfinningu sinni af barnslegum ákafa. Allt er þetta gott og blessað, þangað til hugsjónamaður, sem tengist fortíð eiginkonu hans, ákveður að Hjálmar verði að fá heyra sannleikann, svo hann geti lifað restinni af sínu lífi frjáls eins og fuglinn. Í leikritinu reynast mestu lífsspekingarnir vera sífullir fyllikallar, sem reyna hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að hugsjónamaðurinn eyðileggi líf Hjálmars með sannleikanum. Þeir benda honum á að Hjálmar lifi hamingjuríku lífi vegna þess að hann hafi skapað sjálfum sér svo fallega lífslygi og það væri ómanneskjulegt að tortíma hamingju hans með vægðarlausum sannleikanum. En eins og oft er með hugsjónamenn, þá er til aðeins ein rétt leið, þó allt mæli gegn því að hún sé farin. Leikritið endar svo í mikilli skelfingu, enda skrifað fyrir þarsíðustu aldamót í hinu guðsvolaða Noregi.

Öll þurfum við á lífslygi að halda til að halda okkur gangandi. Án lífslyginnar værum við ekkert. Við værum ekki vörubílsstjórar í baráttu við kerfið, handhafar sannleikans, bókasafnsfræðingar, moggabloggarar, eða hvað svo sem við notum til að skilgreina okkur.

Foreldrahlutverkið, virðist mér þó vera ekta.

Á morgun skrifa ég svo meira um eftirlætið mitt: dauðann.

Myndin af Dorian Gray

Foreldrar mínir höfðu fyrir reglu að skipa mér fram á gang, þegar þeim grunaði að eitthvað hræðilegt ætti eftir að gerast í bíómynd kvöldsins. Man ég tildæmis eftir að hafa fengið að húka við lokaðar dyr þegar George neyddist til að drepa Lenny í Músum og mönnum. Sömuleiðis varð ég af atriðinu þar sem Gloria þiggur kúlu í hausinn úr byssu kærasta síns í myndinni They shoot horses don’t they.
En eitthvað hafa mamma og pabbi verið ókunnug niðurlagi sögunnar um örlög hins sjálfsupptekna Dorian Gray. Samt er eins og mig minnir að systir mín hafi verið passa mig kvöldið sem þessi mynd var sýnd? Hvernig sem stendur á því að þessi mynd slapp í gegnum harðgert kvikmyndaeftirlit Löngubrekkunnar, gefur hér að líta myndbrotið sem kostaði barnæsku mína óteljandi andvökunætur. Þegar ég svo horfði á þetta atriði aftur fyrir nokkrum dögum, fór um mig hrollur; ég efa þó að nokkur krakki myndi kippa sér upp við þetta núna.

[MEDIA=157]

Hotel Chevalier

[MEDIA=156]

Dásamlegt atriði úr stuttmyndinni Hotel Chevalier, sem er undanfari myndarinnar The Darjeeling Limited. Jack L. Whitman hefur í lengri tíma falið sig frá umheiminum á hinu franska Hotel Chevalier. Kona, sem virðist vera ástin í lífi hans, kemur til að finna hann. Rétt áður en hann opnar hurðina til að hleypa henni inn, setur hann af stað lag sem honum finnst passa vel við aðstæður. Unaðslega þurr kímnigáfa. Wes Anderson er snillingur.

Leigusalinn ódæli

Það er mjög mismunandi hvernig fólk upplifir sjálft sig. Sumir misbjóða fólki í guðs nafni, fullvissir um að þeir séu hlýjar og kærleiksríkar persónur, meðan aðrir læðast meðfram veggjum, sakbitnir yfir að taka pláss í heiminum.

Einu sinni fyrir ævalöngu kynntist ég sérstaklega ódælum manni, betur en ég nokkurn tímann kærði mig um. Hann var almennt illa liðinn, enda með eindæmum ókurteis og fráhrindandi. Hann var alveg blindur á hvað fólki fannst um hann. Í hans huga var hann skemmtilegur, frumlegur og frískandi athafnamaður. Hvert sem hann fór lét hann móðann mása. Hann hafði skoðanir á öllu og þröngvaði þeim með ofbeldi og kjafthætti upp á fólk.

Einhvern tímann sagði hann mér frá því að hann hefði þurft að taka inn þunglyndislyf. Alveg upp úr þurru, honum til mikillar undrunar, fannst honum eins og fólki væri illa við sig. Hann gat varla farið út fyrir hússins dyr, því honum fannst allir horfa á hann ásökunaraugum. Hann fór því til læknis og bað um hjálp. Heimilislæknirinn sagði honum að líklega væri hann þunglyndur og skrifaði upp á nýjasta og flottasta þunglyndislyfið á markaðnum, sem hann tók inn samviskusamlega. Eftir tvær til þrjár vikur, var hann búinn að ná sér og gat haldið áfram að troða á fólki án þess að fá yfir því samviskubit.

Þessi maður, með hjálp geðlæknisfræðinnar, heldur mjög líklega áfram á sömu braut í gegnum lífið, iðrast einskis og deyr einn og yfirgefinn öllum til léttis.

Þórbergur

Góður vinur minn, var sorgmæddur í sálu sinni um daginn, svo ég plataði hann með mér í göngutúr út í Fossvogskirkjugarð. Það er fátt eins hressandi, þegar lífið virðist óbærilegt, og að labba um í kirkjugörðum. Í göngutúrnum köstuðum við kveðju á Sobbegga og Mömmugöggu. Mér þykir þó líklegt að hjónin hafi verið víðsfjarri gröf sinni, enda talaði Þórbergur um það sjálfur að það þýddi lítið fyrir fólk að heimsækja hann í kirkjugarðinn, hann yrði ekki þar. Hver ætti svosem að nenna hanga í einhverjum bévítans kirkjugarði eftir að hann laus héðan?