“Æm on his ass!”

Steinsnar frá akademíunni snæddum ég og félagi minn hádegisverð á kaffihúsi. Þegar ég stóð við hið svokallaða Buffet og jós súpu í skál, kemur maður á sextugsaldri sem mér reiknaðist til að væri eigandinn af þessum virðulega stað. “Ef þér líkar ekki þessi súpa, máttu hella henni yfir mig,” sagði hann kokhraustur. Í bullandi náungakærleik og geðsjúkri meðvirkni, hló ég kurteislega til að manninum liði ekki kjánalega.

Eftir nokkrar matskeiðar af annars ágætis humarsúpu, nálgast eigandinn borðið okkar og spyr mig hvort hann þurfi að setja upp húfu. Ég segi honum að þess gerist ekki þörf, því súpan sé fyrirtak. Félagi minn samsinnir mér og við vonum báðir að hann fari í rassgat og leyfi okkur að borða helvítis súpuna í friði. En hann er ekkert á leiðinni í rassgat, því hann drollar við borðið okkar og byrjar að röfla um að hann eigi staðinn og þetta sé ekki einungis veitingastaður, heldur líka hótel. Við, alveg gersamlega dolfallnir yfir því að hann eigi þennan stað – váum og veinum af hrifningu.

Hann hefur sig loks á braut, en litlu síðar stendur hann við barinn og glápir á okkur meðan við borðum. Eitthvað í fari veitingamannsins fær mig til að gera tengingu á milli hans og ódæla leigusalans – fyrir mér virðist hann nákvæmlega sama manngerðin.

Á næsta borði við okkur situr sólbakað hott sjott með makkatölvu fyrir framan sig. Ég gaf honum engan sérstakan gaum fyrr en hann fór að tala í símann, en þá lagði ég við hlustir, enda við nánast bak í bak. Digurbarkalaga talar hann ensku með íslenskum hreim og virðist vera að redda einhverjum aðkallandi viðskiptamálum. Einhverju kremkexi, eða 17. júní veifum, sem hann er að flytja inn. Honum er mikið niðri fyrir og leggur sig talsvert fram um að sannfæra manneskjuna á hinum endanum að hann sé svona: “hands on kind of guy” Til að undirstrika í hversu öruggum höndum viðskiptin eru, heyri ég hann segja: “Æm on his ass!” Hvað í ósköpunum á hann við? hugsa ég með sjálfum mér. Er hann á rassinum á einhverjum? Ég botna ekki neitt í neinu, en tel víst að þetta sé tungumál sem allir stórlaxar í viðskiptum kunni.

Eigandinn kemur aftur að borðinu okkar, alveg ónæmur fyrir því að við viljum ekki njóta nærveru hans. “Endilega kíkið upp og skoðið hótelið áður en þið farið” segir hann borubrattur. Við jánkum, en vitum vel að það er það síðasta sem við ætlum að gera.

5 thoughts on ““Æm on his ass!””

  1. Maðurinn heitir Anthony Cooper og lék pabba John Locke í snilldarþáttunum Lost. Hann er ótrúlega sannfærandi í hlutverki sínu sem viðurstyggilegur óþverri. Hann minnir óneitanlega á Óttar, sem er mun geðþekkari en þessi eftirminnilega persóna.

  2. Lost er svo það metnaðarfyllsta sem ég hef séð í sjónvarpi síðan Twin Peaks, enda ekki skrifað af neinum aukvisa, né eftirbáti http://www.imdb.com/name/nm1206844/ . Drew Goddard veit að smáatriðin skipta mestu máli. Cloverfield var líka æðisleg.

  3. Má ég minna þig á að þú borðaðir skyr með aspatami í dag og í gær og í fyrradag, þú ferð að fabúlera þegar þú tekur inn of stóran skammt af aspatami, á ég að koma með öxina!

Comments are closed.