%#!&!#/%!#!#

Ég skelf og nötra þessa köldu vetrardaga. Þó daginn sé aðeins farið að lengja, er andstyggilegt myrkrið að gera út af við undirritaðan.

En ég er lífseigur andskoti. Þess fyrir utan færi ég ekki að gera hrægömmum samtaka iðnaðarins það til geðs að detta niður dauður. Ég tek ekki upp á því að hrökkva upp af, og staðsetja mig þar með milli tannanna á þessum spekingum. Ég heyri í þeim, þegar ég legg við hlustir huga míns, þar sem þeir sitja á kaffihúsi og tala um mikilvægi þess að vera í tíu, ellefu og tólf, eins og það kallast á tæknimáli.

Þvert á það sem hefur verið orðað við mig er ég ekkert gramur þó svo ég leyfi mér að skrifa svona. Ég veit að það er erfitt að skilgreina tilfinningar, sér í lagi þegar maður er nýbúinn að kaupa sér hlutabréf í samtökum iðnaðarins. En að útleggja allar þær skoðanir sem maður kann að hafa á boðberum sannleikans, sem gremju er langt fyrir utan alla skynsemi.

Ég hef persónulega fyrirhitt alltof marga sem telja sjálfan sig vera handhafa hins gullna sannleiks. Þeir mega allir með tölu hoppa upp í rassaboruna á sér. Hinn eini sanni sannleikur er ekki til. Við vitum ekkert hvað við erum að gera hérna. Við erum flest okkar að reyna að gera vel. En ein aðferð er ekkert heilagri en önnur.

En hvers vegna skrifa ég svona veflóka?

Ég skrifa svona veflóka vegna þess að stundum þá fer fólk alveg andstyggilega í pirrurnar á mér. Það er ekki vegna þess að ég tel mig vera í stakk búinn til að dæma fólk, eða að ég haldi að ég sé betri eða verri en hver annar.

Stundum einfaldlega skortir mig orð, og það eina sem kemur mér til hugar er eitthvað í líkingu við þetta %#!&!#/%!#!#.

Sjaldan höfum við vitað til að nokkur villtist af leið

Ég sat með lostafullum karlmönnum í kvöld sem landað hafa fleiri hundruð kílóum af tjellingum. Að sitja í hópi sem þessum er mikið upplifelsi fyrir mann eins og mig sem ekki hefur hundsvit á hinum svokölluðu tjellingum.

Í aðstæðum sem þessum setur mig hljóðan og ég reyni eftir fremsta megni að læra af reynslu kynbræðra minna. Í kvöld opnaði ég hjarta mitt og viðurkenndi fyrir þessum mönnum að ég væri ömurlegur því ég kynni ekki að tækla tjellingar. Viðbrögðin komu mér á óvart, þar sem þeir sýndu mér skilning, umburðarlyndi og kærleik. Á milli þess sem þeir pikkuðu af áfergju textaskilaboð til tjellinga upp til sjávar og sveita, kepptust þeir við að gefa mér lúðanum heilræði.

Mér þótti vænt um þetta, svo vænt að ég gekk út af kaffi París ekki bara stútfullur af óþrjótandi visku, heldur hrærður og meir, yfir manngæsku þeirri sem móðir jörð hefur alið af sér.

Næsta miðvikudag ætlum við svo að hittast í ræktinni og slá hvorn annan með blautum handklæðum okkur til gleði og skemmtunar.

Þá verður sko gaman.

Kjarnorkuskemmtiferðaskip

Margrét Best skrifar þessa færslu annan febrúar árið 2007. Margrét Best, eða Bestarinn eins og hún er svo oft kölluð þegar ég og kaupsýslufélagar mínir name drop-pum er enginn viðbjóður, eitthvað annað en ********* sem er fyrirlitleg manneskja.

Það vill nú svo skemmtilega til að ég hef sjálfur unnið töluvert á elliheimilum og get ég ekki sagt annað en að það hafi haft mótandi áhrif á það hvernig ég sé framtíðina.
Mér fórst þessi vinna hinsvegar ákaflega vel úr hendi, og var ég reglulega góður við gamla fólkið, sem er ekki hægt að segja um alla starfsmenn á öldrunarheimilum.

Vinna mín á bæði sjúkrahúsi og elliheimilum hafa orðið til þess að ég hef eftir talsverða umhugsun ákveðið, að fyrr kem ég sjálfum mér fyrir kattarnef, en að dala út á elliheimili.

Ég hef ákveðið að á síðustu metrum heilsu minnar ætla ég að fara í skemmtisiglingu með kjarnorkuskemmtiferðaskipi. Einhversstaðar á leið minni milli Íslands, og Nýju Arabíu(U and S of the A) ætla ég að láta mig húrra niður í Atlantshafið.
Ef enginn fábjáni kemur í veg fyrir að ég komist frá borði með þessum hætti ætti ég samkvæmt útreikningum mínum annaðhvort að drukkna eða að verða að kjötkássu í kjarnorkudrifinni skrúfunni.
Ég ímynda mér að þetta verði í kringum 2050, svo ef það eru einhverjir sem vilja slást í þá för með mér, vinsamlegast lát mig vita.

Hetjan

Núna fyrr í vikunni fékk átta ára gamall drengur viðurkenningu fyrir að bjarga lífi móður sinnar. Fréttamaður ríkissjónvarpsins spurði hann í viðtali hvað hann hefði hugsað á þessarri ögurstundu. Drengurinn svaraði hátt og snjallt: “Ég hugsaði ekki neitt”.

Hvað ef hann hefði farið að velta lífshættu móður sinnar fyrir sér? Tildæmis hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir hann eða móður sína, ef hann klúðraði þessu. Það er hægt að ímynda sér allskonar spurningar sem maður gæti spurt sjálfan sig í þessum sömu aðstæðum. En tilfellið var, að hann hugsaði ekki neitt. Hugur hans vék frá, og í stað þess að staldra við og bíða eftir kjaftablaðrinu sem mannsheilinn framleiðir hvenær svosem tóm gefst til, þá gekk drengurinn rakleiðis til verks, fann sprautu og sprautaði móður sína í handlegginn, sem svo varð henni til lífs.

Það eru til ótal sögur af fólki sem hefur lent í svipuðum aðstæðum og þessi drengur. Þ.e að standa frammi fyrir að einhver er í bráðri lífshættu og ef að ekkert verði að gert kemur þessi einhver til með að deyja. Það eru til sögur af teprulegum karl- eða kvenmönnum sem hafa fíleflst í þessum aðstæðum og jafnvel lyft og hliðrað til heilu bílflökunum, til að bjarga mannslífum.

Maðurinn er mjög merkilegt fyrirbæri.

Mefisto

Þetta kattarkvikindi tók það upp hjá sér sjálfum að skrá lögheimili sitt hjá undirrituðum. Í morgun þegar ég var að búa um flekklaust rúm mitt, neitaði hann að láta það trufla 24 klukkustunda lúrinn sinn. Það var sama hvað ég reyndi að stugga við helvítinu, hann hreyfði hvorki legg né lið. Ég þar af leiðandi á endanum neyddist til að búa um hann með rúminu, ef svo má að orði komast.

Kötturinn heitir Mefisto.

ðí eitís

Ég hef náð nýjum botni á stórhættulegu internetinu. Ég hafði gott eitt í hyggju þegar ég vafraði af stað í morgun, en þegar ég rankaði við mér, var ég staddur á opinberu vefsvæði hinnar barmastóru Samönthu Fox. Ég var búinn að vera þar nógu lengi til að horfa á nánast öll myndböndin hennar frá skelfilegasta tímabili mannkynsögunnar, ‘ðí eitís’. Hver man ekki eftir lögum eins og ‘Touch Me, Touch Me’ eða ‘Nothings Gonna Stop Me Now’.

Það vill þó svo skemmtilega til að ‘ðí eitís’ er að komast í tísku aftur. Ég veit ekki hvernig þeir sem leggja línurnar í tískuheiminum fara að því að taka eitt stærsta menningarslys sem hefur orðið í vestrænum heimi, blása í það lífi og gera það æðisgengilega skæs. En þeim er svo sannarlega að takast það, því meira að segja ég er að taka ‘ðí eitís’ í sátt.

leiðinlegi kaupsýslumaðurinn

Kaupsýslumaður nokkur hér í borg, hefur verið að reyna að ná af mér tali. Hann hefur reynt að hafa samband við mig símleiðis. Eins hefur hann sent mér bréf í umslagi með frímerki. Umslagið innihélt nafnspjaldið hans, með mynd af honum sjálfum, ásamt penna með nafni fyrirtækisins.

Ég, þegar ég fer að hugsa það, er afskaplega lukkulegur með að hafa ekki opinn landlínusíma.
Hugsa sér öll leiðindin sem ég er búinn að vera að missa af þessi síðustu fjögur ár, sem ekki hefur verið hægt að fletta mér upp í símaskránni og ná tali af mér.

Hinsvegar er ég með alveg prýðis viðskiptahugmynd fyrir þennan svokallaða kaupsýslumann. Það er að rukka alla sem til hans þekkja, c.a 1600.- á mánuði fyrir það eitt að hann hringi ekki í þá. Reyndar þó upphæðin væri hærri, kæmu allir til með að borga því önnur eins leiðindi fyrirfinnast ekki hér í 101.

Skítur skeður

Í síðustu nótt dreymdi mig að ég væri aftur byrjaður að vinna á sjúkrastofnun í ónefndu bæjarfélagi. Ástæðan fyrir því að ég brá á það ráð að ráða mig til vinnu hjá stofnuninni, var sú að litla sæta fyrirtækið mitt var ekki að landa nógu mörgum kílóum af evrum.

Svo úr varð að ég réði mig til starfa, í þágu almannaheill. Ég var staddur á vaktinni, eins og það heitir, þegar einn vistmaður stofnunarinnar, kastar í mig illa þefjandi hægðum sínum. Hann hlær eins og skrattinn, yfir uppátæki sínu. Ég var í draumnum mjög teprulegur, og þótti illa að mér vegið. Ég rembdist við að skola af mér skítinn, en það var alveg sama hvað ég skrúbbaði og skolaði, allt kom fyrir ekki, alltaf fann ég aðra skítaklessu.

Þegar ég var loksins orðinn tandurhreinn, eða eins tandurhreinn og hægt er að verða í svona starfi, var komið að því að skúra gólf og vaska upp. Við það féllust mér hendur, og ég tilkynnti stúlkunni sem var með mér á vaktinni, að ég þyrfti ekkert á þessari vinnu að halda. Ég væri orðinn mjög virtur kaupsýslumaður í 101 Reykjavík, og það að þrífa skít og drullu, væri bara nú á dögum langt fyrir neðan mína virðingu.

Ég tók af mér uppþvottahanskana og tilkynnti nærstöddum að ég væri farinn, og þau gætu tekið þroskaþjálfunina sína og troðið henni upp í boruna á sér. Ég man að þegar hér var komið við sögu í draumnum, brá gömlum hústjóra fyrir. Í tilefni af athæfi mínu var hann prýddur vanþóknunarsvip. Einmitt þeim vanþóknunarsvip sem fór honum svo afskaplega vel, þegar ég vann hjá honum í vakanda lífi.

Ég gaf honum miðputtann, ( eitthvað sem mig dreymdi um að gera ) og trítlaði á dyr.

Skítur tekur á sig hinar ýmsustu myndir. Í ákveðnum skilningi vinn ég ennþá við að þrífa skít. Skíturinn er kannski stafrænn að þessu sinni, en skítur engu að síður.