Spítalatungumál

Þegar ég vann á spítala töluðu þeir faglærðu vísindalegt tungumál, sem mér ómenntuðum starfsmanni þótti afar heillandi. Tungumálið, sem er internasjónal, ímynda ég mér að hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar læri upp í Akademíu, með stóru A-i. Ég hef alla tíð heillast af akademísku fræðimáli. Framandi orð eins og penis og vagína, borið fram peeeeenis þar sem hinn ylhýri sérhljóði nýtur sín í munni þess sem talar og vagína hljómar í líkingu við Jósefína. Rektus, óæðri endi mannskepnunnar, er með áherslu á eRrrrrrrr. Starfandi við spítalann voru sérfræðingur í Ginnakólógíu fyrir konur með órækt í neðri byggðum tilvistarinnar. Reyndar man ég aðeins eftir fræðiheitum sem hafa með búskap hið neðra að gera. Rétt eins og það fyrsta sem lærist í nýju tungumáli er subbulaðið.

Hér eru dæmi um heilar setningar sem innihalda þessi orð:

– Ég þreif honum Gunnari um penis í morgun!
– Bjarghildur er með roða á vagínu!
– Ég er hræddur um að hún Þórdís þurfi að fara til Ginnukólógista.
– Fékk Guðmundur stíl í Rektum í morgun?

Hvað varð um að þrífa Gunnari um typpið og senda Þórdísi til kvensjúkdómalæknis?

Ég ætlaði að skrifa miklu meira um penis og vagínu, en það er úr mér allt vacuum.

Pissa á leiði

Í tilefni af 40 ára afmælinu mínu datt mér í hug að snjallt væri að skrifa yfirlætisfullan afmælispistil um eigin þroska og yfirburði. Þess í stað, setti ég saman hóp fólks á facebook sem ég ber sérstakan kala til. Miðað við líferni eru allar líkur á að ég komi til með að lifa flesta meðbræður mína og til að hafa ofan af fyrir mér í ellinni ætla ég að ganga á milli grafreita þeirra sem ég á sökótt við, taka út á mér penis og júrinera. Þegar hér er komið við sögu á penis aðeins eina fúnksjón. Má segja að þessi framtíðaráform mín geri það að verkum að ég hugsi sérstaklega vel um heilsuna. Ég drekk krabbameinsdrepandi djúsa, borða einungis gras og baunir, hleyp eins og einhver sé að elta mig og hugsa fallegar blómum skreyttar hugsanir. Eftir langa leit, er þetta hugsanlega eini tilgangurinn sem ég hef fundið með tilveru minni – Guð einn veit að enginn er Guðinn.

Kannski hefði ég átt að skrifa blúbb um hvað ég er gáfaður og mikill hugsari, þó ég sé hvorugt. Oh well………