Spítalatungumál

Þegar ég vann á spítala töluðu þeir faglærðu vísindalegt tungumál, sem mér ómenntuðum starfsmanni þótti afar heillandi. Tungumálið, sem er internasjónal, ímynda ég mér að hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar læri upp í Akademíu, með stóru A-i. Ég hef alla tíð heillast af akademísku fræðimáli. Framandi orð eins og penis og vagína, borið fram peeeeenis þar sem hinn ylhýri sérhljóði nýtur sín í munni þess sem talar og vagína hljómar í líkingu við Jósefína. Rektus, óæðri endi mannskepnunnar, er með áherslu á eRrrrrrrr. Starfandi við spítalann voru sérfræðingur í Ginnakólógíu fyrir konur með órækt í neðri byggðum tilvistarinnar. Reyndar man ég aðeins eftir fræðiheitum sem hafa með búskap hið neðra að gera. Rétt eins og það fyrsta sem lærist í nýju tungumáli er subbulaðið.

Hér eru dæmi um heilar setningar sem innihalda þessi orð:

– Ég þreif honum Gunnari um penis í morgun!
– Bjarghildur er með roða á vagínu!
– Ég er hræddur um að hún Þórdís þurfi að fara til Ginnukólógista.
– Fékk Guðmundur stíl í Rektum í morgun?

Hvað varð um að þrífa Gunnari um typpið og senda Þórdísi til kvensjúkdómalæknis?

Ég ætlaði að skrifa miklu meira um penis og vagínu, en það er úr mér allt vacuum.

4 thoughts on “Spítalatungumál”

  1. Eftirlætið mitt er að segja að einhver sé obs retarderaður. Þetta nota ég þó mest utan spítala.

  2. Ég kannast vel við þetta með peeenisinn [borið fram eins og þú lýsir Sigurður]. Ég man einnig þegar mér var kennt af tveimur hjúkkum að þræða þvaglegg. Önnur sagði: “svo takið þið utan um peeenisinn og haldið honum uppi á meðan þið setið xylocaine-deyfikrem á við þvagrásaropið og þræðið síðan.” Hin notaði bara orðið typpi og sagði okkur að halda utan um typpið með lófanum. En halda þarf typpinu uppi svo ureþrean sé í sem beinustu línu! Á meðan deyfikremið væri að virka var okkur ráðlagt að spjalla um eitthvað eins og enska boltann.

    Ég vil taka það fram í leiðinni að síðan mér var kennt þetta hef ég þrætt þvaglegg og það er síður en svo þægilegt. Heilbrigðisstarfsfólk er ráðlagt að láta deyfikremið virka í fimm mínútur en það er sjaldan gert svo lengi þar sem það er einstaklega vandræðalegt að halda utan um peeenis einhvers og bíða í fimm mínútur. Ég held það sé þó lesser of two evil að bíða eins óþægilegt og það er, til að minnka hin óþægindin. En það er bara mín skoðun!

Comments are closed.