The Descent

Fyrir unnendur eðal hryllingsmynda mæli ég sérstaklega með bresku myndinni The Descent. Það er ekki oft að ég kemst yfir annað eins gúmmilaði, mig minnir að seinasta ræman sem skaut mér skelk í bringu hafi verið The Ring og það mun vera ein 3 ár síðan ég sá hana. The Descent er fram úr hófi ógnvekjandi. Ég er persónulega orðinn alveg sérstaklega leiður á amerískum fjöldaframleiddum metnaðarlausum klysjum, þar sem maður getur við hægan leik sagt til um hvað gerist næst. Eftir að ég sá The Descent hefði ég gjarnan viljað sjá heimildarmynd um gerð hennar, rétt til að fá tilfinningu fyrir því að þarna væri á ferðinni tilbúningur en ekki kaldlundaður hryllingur.

Lyf gegn homminu.

Ég sé fulla ástæðu til að taka gleði mína á ný. Nú? Því þá, kann einhver að spyrja sig. Jú, í gegnum tíðina hefur það háð mér ógurlega hversu hommalegur ég er. En nú líður það undir lok, því það er komið lyf gegn þessu. Það kallast hetracil. Á þeim tíma sem ég var að stálpast í ömurlegum Kópavoginum, var ég úthrópaður hommi og eyðnisjúklingur. Þar hefði hetracil komið að góðum notum, ég hefði með hjálp þessa lyfs stálpast eins og kynbræður mínir. Með því að taka þetta lyf reglulega hefði ég jafnvel getað þróað sérstakan áhuga á fótbolta, frímúrarareglunni, bílum, mótorhjólum og byggingarvinnu, eða hvað nú er sem gerir karlmann karlmannlegan. Þetta kæmi þá í veg alla þá teprulegu hluti sem ég tek mér fyrir hendur, verandi sá hommi sem ég er innst innan í mér. Ég get því borið mig vel og talað fjálglega um allskonar stuff sem þykir fínt að tala um í hópi alvöru karlmanna. Já, það er talsvert fyrir því haft að komast af í þessum heimi, en þökk sé velviljuðum vísindamönnum þá er róðurinn alltaf að léttast. Á dánarbeðinu geta þessir menn læknisfræðinnar unað sáttir við sjálfan sig, því þeir hafa unnið gott ævistarf í þágu almannaheill. Hvað er meira aðkallandi heldur en einmitt að vinna á þeirri vá sem hommus chronicus er, eða hvað skiptir meira máli í þessum heimi en það að geta látið sér standa almennilega, þannig að maður verði ekki sér og sinni fjölskuldu til háborinnar skammar vegna stinningarvandamála.