Mary Poppins og lyfjafíkn

[MEDIA=153]

Einu sinni át ég reiðinnar býsn af pillum í öllum regnbogans litum. Það þótti mér prýðilegt. Ég átti pillur við öll tækifæri: ef ég var leiður, ef ég var reiður, ef ég var hress, ef ég var að fara á ættarmót, ef ég dansaði diskó, ef ég fór í skóla, ef ég hætti í skóla, ef ég fór til útlanda – sama á hvaða vígstöðvum ég þurfti að standa mig(eða ekki), alltaf var til pilla eða skammtastærð sem gerðu mig að hæfari ræðara í lífsins ólgusjó. Færustu sérfræðingar í heilsugeiranum aðstoðuðu mig í að éta mig í gegnum nokkur bindi af eftirlætis bók þeirra tíma: lyfjabókinni – þar til einn daginn fannst mér ég vera fullmettur og sagði skilið við lyfjaða tilveru mína. Ákaflega velviljað fólk hjálpaði mér í gegnum mestu erfiðleikanna, með að skófla í mig fleiri pillum – en þegar á leið urðu skammtarnir minni, þangað til á endanum stóð ég uppi berstrípaður. Sveittur og skjálfandi söng ég: “a spoon full of sugar, helps the medicine go down.”

Það þarf enginn að halda aftur af sér í söng, því með myndbandinu fylgir lagatexti. Allir saman nú!

Söknuður

Undanfarið hefi ég ekki mikið skrifað um hefðarköttinn Þórkötlu, enda hefur ekkert til hennar spurst í þrjár vikur. Ég verð að viðurkenna að ég sakna hennar sárgrætilega og má segja að líf mitt hafi verið þrungið harmi frá því að hún hvarf sporlaust. Sálarlausa kvikindi! Ef hún vissi hvað mér var farið að þykja vænt um hana.

Ég eyddi drjúgum tíma í að klappa henni og klóra í hausnum. Það fannst henni fyrirtak. Þegar ég sat við eldhúsborðið og vann á tölvuna, stökk hún fimlega upp á borð til mín og néri nefinu utan í mig. Ég svaraði henni í sömu mynt og nuddaði nefinu mínu tígulega upp við hana. En ef ég ætlaði mér að fá vinnufrið þá þurfti ég að bera í hana kræsingar, því annars lét hún mig ekki vera. Já, við vorum mestu mátar. Á nóttunni þegar ég svaf á maganum, svaf hún á herðum mér. Þegar ég svo svaf á bakinu, lá hún á brjóstkassanum.

En hvar ertu nú Þórkatla?

Þórkatla var þó ekki í minni eigu. Ég vissi aldrei hver átti hana. Fyrir um tveimur mánuðum síðan hvarf hún í tíu daga, en skilaði sér aftur í kærleikann og ylinn hjá Sigga Sigga Bang Bang. Mér kom þá til hugar að raunverulegir eigendur, hefðu náð í hana hingað í hverfið og ferjað hana upp í hryllilegt Breiðholtið. Þar hafi hún orðið aðframkomin af söknuði og því strokið og fundið leiðina aftur heim á Óðinsgötuna. Svona er nú hægt að hugsa kjánalega.

Einhver stakk upp á því við mig að ég fengi mér minn eigin kött, að ég héldi ekki annarra manna köttum í gíslingu. Ég sló viðkomandi utan undir og hrækti framan í hann. Þórkatla skilar sér! hreytti ég í þennan ósensitíva mann.

Ég er þó farinn að efast.

Hamsa


Það er lítið gaman að heita Sasson Ben Yehuda og vera fúlasti maðurinn í öllu hverfinu. Sasson þýðir nefnilega á hebresku kæti, gleði, fögnuður, en kátína var það síðasta sem Sasson kom til hugar þar sem hann sat eins og klessa fastur í hjólastól, ekki einu sinni fær um að kasta af sér vatni án þess að verða sér og arfleifð sinni til háborinnar skammar.
Ekki aðeins var Sasson lamaður upp að mitti, heldur átti hann einnig í mestu erfiðleikum með mæli. Allt sem hann reyndi að segja – og hann hafði margt til málanna að leggja – ummyndaðist á tungu hans og varð að hræðilegu umli sem ekki nokkur maður skildi. Fólk sem áður hafði hlustað af óskilgreindri virðingu í hvert sinn sem Sasson opnaði á sér munninn, hristi hausinn yfir hinum nýja talanda.
Sasson vissi vel hvaða kenningar voru uppi um örlög hans. Ástæðan fyrir að hann gat ekki lengur talað, var sú að Guð hafði þaggað niður í honum. Munnurinn á Sasson, sagði fólkið, – er illur. Því hafði Guð tekið þá ákvörðun á stjórnarfundi að Sasson yrði refsað með hressilegu heilablóðfalli. Það heilablóðfall varð honum næstum að aldurtila.

Sasson virti mig fyrir sér með vanþóknunarsvip. Hver er þessi maður? var honum spurn. Hann er ekki héðan. Hvað kemur hann? Frá fjarlægu landi? Íslandi? Hvar í andskotanum er þetta Ísland? sagði hann án þess að mynda orð. Ísland? Þetta hljóta að vera svik, virtist Sasson segja með þónokkri fyrirlitningu.
Í NORÐUR ATLANTSHAFI! gargaði Rami sonur hans á mölbrotinni kúrdísku. Rami hélt að pabbi sinn skildi hann betur ef hann talaði tungumál Kúrdistan. Hann kunni samt eiginlega ekkert í kúrdísku – aðeins orð og orð.
Það fór óheyrilega í taugarnar á Sasson þegar sonur hans reyndi af mikilli vankunnáttu að tala tungumálið sem Sasson ólst upp við. Hann missti algerlega stjórn á sér og varð snarbrjálaður, en verandi ófær um að lesa Rami pistilinn – eins og hann gerði ítrekað þegar hann stóð lappirnar -, barði hann sjálfan sig af töluverðum þunga í hausinn til að tjá óánægju sína.
Ma’gibett Aba? hrópaði Rami, viss um að ef framburður hans væri nógu góður, ef hann talaði nógu hátt og endurtæki svo allt sem hann segði, þá kæmi pabbi hans til með að skilja hann.
Gibett la’mita? hélt Rami áfram, og skildi ekki afhverju pabbi, sem einu sinni hafði verið svo mikill karl, sat og bankaði sig í hausinn eins og geðsjúklingur í amerískri bíómynd. Rami, sem var umhugað að láta bæði Guð og viðstadda halda að hann væri með sál, draup höfði og felldi nokkur slepjuleg tár.
Ég vissi að tárin felldi hann ekki einungis fyrir hinn sírefsandi Guð, heldur voru þau einnig mér ætluð – svona til að bjóða mig velkominn í fjölskylduna.

Hamsa er einn af verndargripum gyðinga. Hamsa eða Hamesh, þýðir fimm og táknar fimm bækur Torah. Hamsa er einnig tákn fyrir bæði súnní- og sjíta múslima. Gripurinn er hönd, stundum skreytt með fiskum, stundum með auga. Hún er notuð í hálsmen, veggjaskraut, og hvar sem þörf er á vernd gegn hinu hræðilega illa auga. Hið illa auga er samkvæmt sögusögnum – öfund í garð þeirra sem eru blessaðir með mikilli lukku. En Hamsa er ekki einungis verndargripur, því einnig er hægt að nota Hamsa til að leggja álög og svipta fólk lukku sinni.
Sá sem bregður á það óráð að nota Hamsa í þeim tilgangi – afskrifar sjálfan sig sem eftirlæti Guðs, og mál hans sett í forgang á stjórnarfundum.

Sasson hataði mig eins og hann hataði allt og alla. Hann hataði Rifku svo mikið að hann lagði á hana Hamsa álög. Rifka hafði verið gift inn í fjölskylduna í mörg ár. Helen, eiginkona Rami, sagði mér að fegurri konu hefði ekki verið að finna í Maoz Tzion. Hún var svo falleg að það lýsti af henni.
En Sasson var illa við hana frá því að hann hitti hana fyrst. Eitt sinn þegar Rifka sneri við honum baki, reiddi hann út höndina með opinn lófa í átt að henni, án þess að snerta hana.
Þeir sem urðu vitni að því, voru sammála um að þarna hefði Sasson kallað yfir Rifku ógæfu með að nota hönd sína sem Hamsa, enda hófst þrautaganga Rifku upp frá þeirri stundu. Skelfilegur húðsjúkdómur lagðist á hana með svo mikilli kvöl og pínu að hún hugðist taka sitt eigið líf. Hún gekk á milli lækna, rabbína, hómópata til að fá lækningu. Á endanum var orsökin rakin til Sasson og Hömsunnar. Þegar ég hitti Rifku, var enga gleði að finna í sálu hennar og það lýsti ekki lengur af henni.

Þegiðu karlandskoti! hreytti ég út úr mér á íslensku. Tóntegundin í röddinni, hefur án efa skilað meiningunni. Stundum þarf fólk ekki tala sama tungumál til að eiga skiljanleg samskipti, að því hafði ég komist á þeim fjórum mánuðum sem ég hafði dvalið með Ben Yehuda fjölskyldunni.
Ég beygði mig niður til að þrífa upp jógurt og salat sem ég hafði haft talsvert fyrir að skera niður fyrr um morguninn. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þreif upp æti af gólfinu, og á þegar hér var komið við sögu var ég orðinn langþreyttur á því.
HAMSA!, gargaði Helen. Ég sneri mér við skelkaður og vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við. Helen sýndi mér með lófanum, hvernig Sasson gerði í bakið á mér. Er það virkilega, spurði ég Bení sem sat þarna í sófa. Bení jánkaði.

Ég verð að komast héðan, hugsaði ég með sjálfum mér og kveikti í sígarettu.

Netið

Ef moggabloggari heldur því fram að hann hafi rétt fyrir sér, þá óumflýjanlega verður til annar moggabloggari sem hefur rangt fyrir sér. Moggabloggarinn sem hefur svo rangt fyrir sér er þess fullviss að hann hafi rétt fyrir sér, en hinn hafi rangt fyrir sér. Hver hefur þá rétt fyrir sér?

Er mín skoðun best? Er mín réttlætiskennd best? Er mitt siðferði best? Er ég hjartahreinasti maður sem gengið hefur Ísland? Er ég maðurinn hennar Jónínu hans Jóns? Á ég að segja af mér?

Hver er þessi moggabloggari?

Um þessar mundir er ég þjakaður af spurningum eins og þessum. Minnir obbulítið á artane flipp frá síðustu öld.

Indiana Jones með liðagigt og æðagúlp

Ég var staddur á Austurvelli, þegar ég heyrði nafn mitt kallað: Siggi! Siggi! Ég leit í kringum mig og sá enga nema nokkra róna sitjandi á bekk. Siggi! Siggi! Hver var að kalla á mig? Ég pírði augun í átt að rónahópnum, en kallið virtist koma þaðan. Í hópi kraftgallaklæddra róna, sé ég að situr ungur myndarlegur maður í lopapeysu. Hann veifar til mín.

Við nánari eftirgrennslan sé ég að þetta er æskuvinur minn. Einn af þeim strákum í hverfinu mínu sem ég eyddi mestum mínum tíma með. Við vorum miklir bíómyndaunnendur og í sérstöku uppáhaldi hjá okkur voru stjörnustríðsmyndirnar og Indiana Jones. Við tókum upp kvikmyndir á 8mm og innréttuðum kjallara, í húsi annars vinar okkar, sem bíósal og seldum inn á sýningar. Við lékum okkur saman í móanum fyrir ofan Lund og þegar spennan í leiknum varð yfirþyrmandi – sungum við bakgrunnstónlist úr kvikmyndum.

Lagið úr Indiana Jones notuðum við þegar við vorum á hlaupum í hasarleik. Da, da, da, daaaaa, da, da – da, da, duuuuu. Da, da, da, daaaaa, da, da – da, da, daaaaaaaaa……

[MEDIA=127]

Þegar við vorum að nostra við eitthvað sem krafðist einbeitingar sungum við Imperial March úr Star Wars. Du, du, duuuu, du, di, duuu, du, di, duuu, da, da, da, da, duu, du, duu, du, di, duu, DA, DA, DA, DAAA, DADA , DAA…..

[MEDIA=128]

Komdu sæll, segi ég. Hjá honum stendur illa hirtur brosgleiður róni og sýpur bjór. Það er orðið official! segir hann. Hvað er orðið offical? spyr ég, ekki alveg að átta mig á aðstæðum. Að ég er orðinn róni! segir þessi gamli vinur minn. Nú, hvernig stendur á því? spyr ég alveg undrandi. Hann kann ekki svar við spurningu minni, en fer að rifja upp eitt og annað frá því að við vorum krakkar.
Ég spyr hann aftur, því í andskotanum hann sé orðinn róni, en bæti því svo við að ég hafi ekki í hyggju að lesa honum pistilinn. Ég er öðruvísi, segir hann. Ég kími örlítið, því ég hef sjálfur aldrei upplifað að ég sé venjulegur – hvað sem það svo er. Öðruvísi? hvái ég. Já, ég er svo manískur, andvarpar hann.
Mér finnst lítið um þessar afsakanir. Það er ekkert fyrir því haft að vera alsgáður þó svo að maður sé manískur, þunglyndur, í tilvistarkreppu, í ástarsorg, soltinn, mettur, í þráhyggju, ástfanginn, sorgmæddur, glaður, kærleiksríkur, reiður, bitur, hamingjusamur, hræddur, óhræddur, erlendis, hérlendis – eða í hvaða aðstæðum sem lífið sér manni fyrir.

Niðurlútur segir hann mér að glæný Indiana Jones mynd sé væntanleg í kvikmyndahús. Við verðum sammála um að við ætlum ekki að sjá hana. Við viljum ekki sjá hetju uppeldisára okkar með liðagigt og æðagúlp.

Orðið “fokking” í daglegu máli

Ég var að átta mig á að undanfarið hefi ég ekki sett mér neinar lífsreglur. Jú, að vísu reyni ég að halda aftur af mér í neyslu á sékri og majonesi, og kem reglulega með alvöruþrungnar yfirlýsingar, rétt eins og líf mitt sé í húfi, um að ég sé í sékur og majones straffi. Að undanskildum einum degi í viku, þar sem ég leyfi mér að bíta teprulega í eitthvað sætt og jafnvel sleikja vísifingur eftir að hafa stungið honum í majoneskrukku. Sá dagur er laugardagur, rétt eins og þegar ég var að alast upp í Kópavoginum.

Stundum þó, þegar ég er dapur í hjartanu mínu og ekki jafn fastur fyrir og aðra daga, raða ég upp í mig kexkökur. Kexkökurnar eru þá yfirleitt í boði á heimilum þar sem ég er gestkomandi. Aldrei, og ég legg þunga áherslu á aldrei, – kaupi ég mér sætabrauð eða aðra óhollustu til að eiga inn í skáp á kristilegu heimili mínu. Að eiga slíkan varning á lager leiðir óhjákvæmilega til mistaka og mistök og veikleikamerki eru ekki liðin hér á Óðinsgötunni.

Hollt þykir mér að setja mér lífsreglur. Ég fæ það á tilfinninguna að ég sé að betra sjálfan mig og þá líður mér vel í sálinni minni. Og til að bæta enn fleiri rósum í hnappagat mitt, hef ég ákveðið að hætta að nota orðið “fokking” í daglegu tali. Stundum þegar mér er mikið niðri fyrir, verður þetta ljóta orð fyrir valinu og þykir mér það miður.

Ég rek andúð mína á orðinu aftur til þess tíma sem ég bjó á Laugaveginum. Fyrir neðan mig bjuggu hjón, með litla telpu. Þegar þau gerðu sér dagamun og fengu sér aðeins í aðra tánna, sem var nokkuð oft, þá ávarpaði maðurinn konu sínu með setningum sem innihéldu “fokking.” Mér þótti skrítið að heyra í fólki, mér tuttugu árum eldra, notandi tökuorð sem þetta. Einnig verkjaði mig aðeins í hjartað að þurfa að hlusta á þetta, þó svo ég vissi að tjáskipti hjónanna væru ein af mörgum birtingarmyndum ástarinnar.
Síðan þá hefur mér þótt orðið “fokking” alveg sérstaklega ófínt og hallærislegt.

Lífsregla númer 679 hljómar því eitthvað á þessa leið: Ekki undir neinum kringumstæðum skaltu nota orðið “fokking” í töluðu eða skrifuðu máli. Skiptir einu þó lund þín sé þrungin af svokallaðri réttlátri reiði. Eina undantekningin á reglu þessari, er ef þú missir eitthvað þungt á tánna þína, þá er í lagi að nota upphrópun þar sem “fokking” kemur fyrir. Það skilja allir.

Mary Poppins og rækjusalatÉg hef verið sérstaklega heimilislegur í dag. Snurfusað og puntað. Sett í vél. Lagað hummus. Keypt í matinn. Svo brá ég mér út með vaskafat og þreif eldhúsgluggana. Nú sjá allir frá götunni þegar ég á adamsklæðunum stíg trylltan dans við tónlist úr Mary Poppins, smurður rækjusalati frá toppi til táar. Lífið er prýðilegt á Óðinsgötunni.

Það er ekki ég, barnið mitt

[MEDIA=126]

Joan Baez er í þessu myndbandi jafn yfirlýsingaglöð og þóttafullur moggabloggari. En mikið ægilega er hún sjarmerandi. Hér má sjá hana syngja lag Bob Dylans: It aint me. Í kynningu á laginu, lýsir hún því yfir að hún sé mótfallin hjónabandi. Ekki líða þó nema þrjú ár frá þessum tónleikum þartil hún kynnist David Harris, sem er afskaplega aðlaðandi ungur maður. Hún fer í sleik við hann og stuttu síðar kastar hún viðhorfum sínum gagnvart hjónabandi á hauganna og giftir sig. Nokkrum árum síðar skilur hún við Harris og ákvarðar að hún verði að eilífu ein. Hún hefur til dagsins í dag, ekki gift sig aftur.

Öll skítum við í sama holræsakerfi

Þjóðarsálin er full af réttlátri reiði um þessar mundir. Fólki er uppálagt að taka afstöðu og koma sér fyrir á öðrum hvorum básnum. Skoðanalaus maður er dauður maður. Netskrifarar leggja sig fram um að koma sínum viðhorfum á framfæri, í þeirri von að þeir hljóti viðurkenningu meðbræðra sinna fyrir stórkostlega sýn á mál sem einhverra hluta vegna eiga að snerta okkur öll. En þegar öllu er á botninn hvolft og hlutirnir skoðaðir fyrir það sem þeir í raun og veru eru – þá er dansinn sem stiginn er á adrenalíndiskóteki Íslands, ekkert annað en barátta mannsins fyrir að einhver viti og staðfesti að hann sé einhvers virði. Öll þráum við ást og kærleik. Að einhver komi og taki utan um okkur og hvísli einhverju fallegu í eyrað á okkur. Allt sem við tökum okkur fyrir hendur, hefur eitthvað með það að gera hvernig líðan við viljum fyrir okkur sjálf. Hvernig við viljum upplifa okkur. Hvaða ímynd við viljum byggja til að okkur líði örlítið betur. Og í þrotlausri leit okkar af ást og viðurkenningu, gleymist að við skítum öll í sama holræsakerfi.

Í dag er ég glaður með sumar í hjartanu mínu.

Froða dagsins var skrifuð undir þessu lagi:

[MEDIA=125]

Eldur gakk með mér

[MEDIA=124]

Lokaatriðið í Eldur gakk með mér er hjartnæmt. Dale Cooper og Laura Palmer, undir angurværri tónlist Angelo Badalamenti, virðast sátt við sín hlutskipti: Laura Palmer dauð og doppelganger(tvífari samkvæmt þýskri þjóðsögu) Dale Cooper gengur laus í mannheimum. Sorg og sálarfriður. David Lynch hefur verið hrifinn af englum á þessum tíma, því engill kemur einnig við sögu í lokaatriði Wild at heart. Var það kannski huldukona?

Skrifaðar hafa verið ritgerðir og bækur um þetta listaverk sem olli byltingu í sjónvarpsdagskrárgerð. Í kvöld hefi ég einmitt fest fé í Full of Secrets: Critical Approaches to “Twin Peaks” (Contemporary Film & Television). Ég hef þar áður lesið bæði Secret diary of Laura Palmer og The Autobiography of FBI Special Agent Dale Cooper.
Svo er ég að vona að ég komist í Tvídrangaferðina mína í haust. Henni frestaði ég af praktískum ástæðum.

Einhverjum gæti dottið í hug að ég eigi mér ekkert líf, og sá hinn sami hefði rétt fyrir sér.