Accordéon Mélancolique

Það var mér sérstakt ánægjuefni að mæta til vinnu á þessum blessaða mánudegi. Þrátt fyrir sólskin og bjartviðri voru svo gott sem allir í byggingunni rétt í þann mund að fara að drepa sig. Ég lagði mig sérstaklega fram um að halda í það hátíðarskap og jafnaðargeð sem einkennir mig svo sérstaklega hérlendis jafnt sem erlendis. Til að kæta starfsbræður mína, spilaði ég hátt og snjallt frábæra harmónikkutónlist sem ég komst yfir á alnetinu hinu prýðilega. Um hádegið var ég hinsvegar orðinn það þunglyndur sjálfur að ég íhugaði að segja starfi mínu lausu. Mér er spurn, meðan ég hlusta á menn tíunda ágæti sitt digurbarkalega hvað það er sem gerir fólk hamingjusamt. Ég fæ það ekki skilið. Getur verið að fólk sé almennt óhamingjusamt, fast í hringrás sem að skiptir þegar öllu er á botninn hvolft engu rassgatsmáli. Er þetta keppnin um það hver er bestur, eða hver deyr drottni sínum með feitustu bankainnistæðuna/bankaskuldina. Ég get ekki annað séð en þetta sé ekkert minna en bráðfyndið. Er mælikvarðinn sá hversu langt maður er kominn, samanburðurinn við þá sem eru skemmra á veg komnir? Það vill nú svo skemmtilega til að ég þekki fólk sem mælir sitt eigið andlega heilbrigði í því hversu mikla yfirburði það hefur fram yfir meðbræður sína.
Hversu andlegt er það?

Fyrir Belee brjálsömu.

Þennan andskota geri ég bara fyrir hana Beggu mína, svo ykkur sé það ljóst.

Fjórar vinnur sem ég hef unnið um ævina:
Snjóruðningsmaður
Avacadótínslumaður
Starfsmaður á elliheimili
Kerfis/netstjóri

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
Donnie Darko
Rules Of Attraction
Star Wars
The Shining

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Kópavogur
Breiðholt
Israel
101 Reykjavík

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:
Twin Peaks
Sex And The City
Boston Legal
Kastljós

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Júgóslavía
Ísrael
Sikiley
New York

Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Blogsíður vina og kunningja.
mbl.is
osnews.com
google.com

Fernt matarkyns sem ég held upp á:
Falafel
Fínsaxað salat
Nýju linsubaunaborgararnir mínir.
Austurlenska súpan á veitingahúsinu Garðurinn.

Fjórir staðir sem ég myndi heldur vilja vera á núna:
Ég er fyllilega sáttur þar sem ég er.

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Vaffarinn.
Tótus Tussímus.
Besta Maggan í öllum heiminum.
Dorrit Musayeff.

Death To Videodrome!

Ég tók sjónvarpið mitt út umferð í dag. Ég hef fengið viðbjóð af því að hafa þetta fyrir augunum. Ég tel að litla sæta íbúðin “mín” sé mun huggulegri fyrir vikið. Ég hef til taks tól og tæki til að horfa á biómyndir, ef ske kynni að eitthvað freisti mín. Ég hef hinsvegar lítið sem ekkert horft á sjónvarp frá því um áramótin og sé þar af leiðandi ekki ástæðu til að hafa þennan ófögnuð uppi, mér er alveg ómögulegt að sjá þetta sem einhverja skreytingu. Hvaða tilgangi þjónar þessi viðurstyggð. Hvað er það sem maður er að leitast eftir með því að glápa á sjónvarp í tíma og ótíma. Er það ekki bara verið að drepa tímann fram að því að maður sjálfur drepst. Ég fæ ekki annað séð. Eftir að hafa skrifað þetta geri ég mér grein fyrir að andlegur leiðtogi minn, viðurstyggðin og drullukuntan hún fröken Sigríður hafði talsvert til síns máls þegar hún kallaði mig leiðindardurg á kaffihúsi fyrr um kvöldið. Ég lét það eftir mér að tíunda fyrir henni fáeinar staðreyndir í mannlegum samskiptum og hún komst að þeirri niðurstöðu að ég væri fauskur. Mér er yfir höfuð alveg fyrirmunað að koma auga á svona lítlvægileg atriði í mínu fari.

Hún Sirrý mín.

Ég er guðs lifandi feginn því að hún Sirrý mín er komin með vinnu. Ég satt best að segja hafði af henni stórar áhyggjur. Og hvar annars staðar fékk þessi gjöf guðs til heimsins vinnu en á NFStuð stöðinni hressu og mikilvægu. Hún kemur til með að vera með Heimi Karlssyni í hinum sívinsæla þætti Ísland útskitið. Það er þó heppilegt að yfirleitt á þeim tíma sem þessi þáttur er á dagskrá, er ég að leggja allan minn metnað í að sofa yfir mig.

Jobbi Höttur

Ég sá fyrir nokkrum dögum viðtal við mann í Mexíkó að mig minnir sem átti við offituvandamál að stríða. Maðurinn var frægur fyrir að vera sá feitasti í öllum heimunum. Hann að mér virtist þar sem hann lá fyrir, þakti flöt upp á 4-5 fermetra og minnti óneitanlega á Jobba Hött, sem hafði mikið sex appeal þegar ég var að drattast yfir á kynþroskaaldurinn. Þessi hryllilega feiti Mexíkani var hinn hressasti. Hann sagði að nú hyggðust læknar gera á honum uppskurð sem gæti hugsanlega hjálpað honum til að borða minna. Hann tjáði fréttamönnum það af miklum þrótti að honum þætti það svosem ekkert tiltökumál ef hann dræpist, því einhvern tímann yrði það nú að gerast. En þætti það miður ef hann dræpist án þess að reyna að gera eitthvað í málunum. Útgeislun þessa manns í þessu viðtali var svo mögnuð að hann situr pikkfastur í hausnum á mér, öll 600 kílóin.

The human condition

“Well maybe you should just drink a lot less coffee, And never ever watch the ten o’clock news.
Blessunin hún Regina Spektor.
Ég hef reyndar minnkað kaffidrykkju mína umtalsvert, en ég verð að viðurkenna að ég er enn fréttafíkill. Í ljósi þess sem er að gerast í heiminum er ég farinn að álíta sem svo að fréttir séu heilsuspillandi. Það er þykir yfir höfuð fréttnæmt er hvernig mannófétisskepnan hagar sér þegar að honum er vegið með einum eða öðrum hætti. Til umfjöllunar eru menn með sært egó, sem verða á einhvern hátt að bæta upp egó-ið með allskyns andstyggilegum uppátækjum. Uppátækin eru svo réttlætt með háleitum markmiðum. Þetta fíaskó í kringum spámannslufsuna hann Múhammed er eitthvað sem ég verð að viðurkenna að ég óttast. Ég óttast að fólk eigi ekki mikið eftir af heilbrigðri skynsemi og setji fókus sinn þá frekar á persónulega gremju og reiði gagnvart þeim sem ekki eru sammála. Ég er af mikilli alvöru að hugsa um að hætta að horfa á fréttir. Ég tel að það sé mikilsvert að vera meðvitaður um hvað er að gerast í heiminum, en það að lepja upp alla þessa drullu frá hinum og þessum fréttamiðlum er einfaldlega ekki hollt. Ég er tildæmis ákveðinn í því að hætta að horfa á NFS fréttastöðina. Takið sérstaklega eftir fréttaþulum NFS hvernig þeir með leikrænum tilbrigðum magna upp aumustu fréttir þannig að maður hefur það á tilfinningunni að frétt um kartöfluppskeru á Blöndósi sé í raun og veru frétt um raðmorðingja sem gengur þar lausum hala. Eða djöfulsins svindlið og svínaríið sem NFS grafa upp hvar svo sem þeir á land fara, ásamt öllum þeim miðlum sem heyra undir hlutafélagið Dagsbrún. Hvar eru blómin og fuglasöngurinn? Hvað eru börnin að gera sér til skemmtunar? Er þessum miðlum um megn að fjalla um eitthvað sem hlýjar manni um hjartaræturnar, eða er lífið bara eintómur viðbjóður?

Úr einu í annað blog

Konur í stjórnunarstöðum eiga það til að tala mjög hátt og skýrt. Þetta þykir mér svo gott, vegna þess að ég er bæði með slæma heyrn og svo á ég í sérstökum erfiðleikum með að skilja talað mál. Konur í stjórnunarstöðum hafa líka sérstakt lag á því að láta eitthvað sem er sérstaklega óspennandi, hljóma eins og það sé mál málanna. Það fer ekki mikið fyrir mónótón í þessum blessuðu konum. Ég vann einu sinni á spítala, með eingöngu konum. Það þótti mér fyrirtak. Það var mér talsverð lífsreynsla get ég sagt með sanni. Það varð mér ljóst að vinnusamfélag að stórum hluta skipað konum getur verið magnþrungnara vinnuumhverfi en dæmigerður bílaverkstæðis Badda runk vinnustaður. Þetta var einnig á þeim tíma sem að ég hélt að allir vissu allt og gætu allt miklu betur en undirritaður. Ég hef með tíð og tíma síðan ég rankaði við mér úr 15 ára rotinu orðið þess var að fólk sem jafnvel gefur mannalegar yfirlýsingar um menn og málefni eru ekkert betur með á nótunum en ég. Mér finnst þessi uppgögvun mín vera svo mikil uppljómun fyrir mig og alla hluthafa að ég ræð mér varla fyrir áður óþekktri kátínu sem umlykur mig allan.