Sveinn forseti

Sama dag og andlit okkar út á við tilkynnti ákvörðun sína um að bera Ísbjörg númer tvö undir sauðheimska þjóðina, fór ég út að hlaupa í nýjum og glæsilegum þartilgerðum galla sem prýðileg heitmey mín gaf mér í jólagjöf. Nístandi kuldinn í borg Kóngsins hafði ekki áhrif á mig, þar sem ég logaði af bræði. Þegar ég hleyp, framleiðir líkaminn svokölluð gúddí gúddí boðefni sem hafa góð áhrif á heilastarfsemina. Þá oftar en ekki verða til tímamótahugsanir af þeirri tegund sem vitnað er í. Það var þó ekki í þetta skiptið. Ég fann engan nýjan vinkil á þessum skelfilega þykjustuleik mannsins sem gengur aðallega út á þjáningu, að undanskildum fáeinum gleðistundum. En reiðin brann innra með mér og ég hugsaði spjátrungnum á Bessastöðum til heitasta helvítis fyrir að framlengja þessum ósköpum sem gert hefur margan Íslendinginn niðurdreginn.

Ekki langt frá kirkjugarðinum á Jagtvej, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég vann hjá hjá Kópavogsbæ. Þar kynntist ég kærum vin og miklum fjörkálf, Sveini Sverri Sveinssyni, þá á sjötugsaldri, en nú horfinn yfir lækinn. Ég átti í bölvuðum erfiðleikum með að skilja hlutverk mitt í lífinu. Hann tók að sér að lóðsa mig inn fyrir hafnargarðinn, en þar hef ég staðið í stað síðan leiðir okkar skildu. (Hugsanlega leggst ég svo upp að bryggju um það leiti sem ég kveð þennan heim.)

En þegar þetta var vissi Sveinn nógu mikið til að segja mér hvaða stefnu ég ætti að taka og fyrir það dýrkaði ég hann. Flest af því sem hann hafði að segja fyrstu árin sem við þekktumst var í mínum huga heilög ritning. Hann var guðdómlega orðljótur og af honum lærði ég fallegustu orðin sem ég kann. Orð eins og legáti, drulluháleistur, láfa; allt orð sem ég nota enn þann daginn í dag, sérstaklega þegar ég vil komast til meta í viðskiptaheiminum.

Hann tók mig með sér á fundi hjá samtökum sem hafa að geyma leiðinlegasta fólk sem fyrirfinnst á jörðinni. Hann var í forsvari fyrir einn af þessum fundum, sem voru haldnir vikulega hvern fimmtudag. Oft tók hann sjálfur að sér að leiða fundina og notaði þá allan fundartímann til að ræða ítarlega um menn og málefni; þá yfirleitt mennina sem sátu fundinn og málefni sem tengdust þeim. Fundirnir sem áttu að vera klukkutími, urðu stundum tveggja tíma langir. Sveinn sá þá um innganginn sem var um 45 mín, leyfði svo einhverjum leiðindarskjóðum að blaðra í kannski hálftíma, og notaði síðan önnur þrjú korter til að slíta honum. En það voru góðu fundirnir. Vondu fundirnir voru þegar hinir komust of lengi að.

En hvað hefur þetta með forsetann að gera?

Einu sinni sem oftar sátum ég, Sveinn og fleiri í kaffikróknum, drukkum kaffi, reyktum tóbak og ræddum málin. Það var farið að líða að hádegi þegar inn gengur borubrattur Ólafur Ragnar Grímsson og boðar til framboðsfundar í matsalnum. Hann spyr hvort við ætlum ekki að koma á fundinn. Sveinn horfir á hann illum augum, og hreytir síðan út úr sér: “Ég sit engan helvítis fund með þér!” Ólafur umlar eitthvað, verður vandræðalegur og gengur inn í matsalinn og á eftir honum allir rassakyssararnir sem störfuðu þarna á þessum tíma. Ég ekki þar á meðal! Ég var ekki að fara að sitja fund sem haldinn var í óþökk læriföður míns. Ég vissi ekki út af hverju honum var svona illa við hann, en ég veit að margir af sömu kynslóð og Sveinn, þar á meðal pabbi minn höfðu og hafa horn í síðu hans.

Sveinn Sverrir Sveinsson lést árið 2004, 80 ára gamall. Hann rífur reglulega kjaft við mig í draumum mínum. Eftir þær nætur vakna ég skælbrosandi.

Hér stutt myndband af Sveini sem ég tók, þegar við sáum saman um brennu, áramótin 1991/92.

[media id=228 width=420 height=236]

Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar ég sé kallinn.

Meira um Svein:

Bæjarmelir
Svenni
Hann er einn tittlingur!

Tómas Sigurpáll Jónsson – minning um mann

Hér er minning um mann.

Tómas Sigurpáll Jónsson var vinur minn. Hrjúfur stórgerður karl, með gullslegið hjarta sem fyrir 14 árum sveik hann og neitaði að slá meir. Þetta einkennilega tæki, sem dælir rauðleitum vökva um lagnakerfi líkamans, hafði svo sem áður verið með dynti, en alltaf hrokkið í gang aftur. En ekki þennan dag árið 1995. Þeir, og á ég við þá sem fengið hafa hjartaáfall, segja að sársaukinn sé gersamlega óbærilegur, að maður óski sjálfum sér frekar dauða en að upplifa hann. En sársauki Tomma varð ekki meiri í þessu lífi og hann fékk hvíld. Hvíld frá þessari skrýtnu tilveru, sem hafði í raun aldrei gert honum nógu góð skil. Skapara himins og jarðar þótti mikill fengur í sál Tomma, enda hún glæsilega búin flottum og eftirsóknarverðum mannkostum.

Ég og Tommi kynntumst fyrir austan fjall, í húsi sérstaklega ætlað fólki sem vildi læra að hætta drekka brennivín og styrkja lyfjaiðnaðinn og erindreka hans. Við vorum látnir sitja í hópi með fólki sem átti alveg ægilega bágt, að okkur fannst. Einn maður, með nokkur námskeið að baki, stýrði hjálpargrúppunni þrátt fyrir borderline-þroskaheftu í mannlegum samskiptum. Tomma leiddist hóparnir alveg hræðilega, þannig að hann svaf þá vel flesta af sér.

Eitt sinn er Tommi svaf værum og fallegum svefni, sem ég allavega öfundaði hann af, grét kona ein yfir óförum sínum. Hún var svo hrædd, volaði hún og vældi og var alveg miður sín. Eitthvað af því sem konan grét yfir, allavega þetta með hræðsluna, hefur skilað sér yfir í draumlandið til hans Tomma, því Tommi rumskar og horfir Bambi-augum á aumingjans konuna, sem í fyrsta skipti hefur opnað á sár lífs síns. “Ertu líkhrædd?”, spyr Tommi eins varfærnislega eins og honum var unnt, þó hann hljómi meira eins og hann sé að urra á hana. Hann skilur ekki alveg hvað aumingjans konan er hrædd við. Það eina sem Tomma kemur í hug þegar talað er um ótta, er þegar hann var að vinna á Borgarspítalanum sem vaktmaður og var látinn sækja lík upp á deildir til að rúlla niður í frysti. Þá fann hann fyrir ótta. En við lifandi fólk var Tommi ekki hræddur, það var frekar að það væri hrætt við hann.

Í sveitinni voru daglega haldnir fundir. Heimilismenn söfnuðust þá saman í litlum loftlausum sal í kjallara hússins. Stólunum var raðað upp þannig að úr yrði gangvegur fyrir miðju að pontu, sem fólk var hvatt til að tala úr, um endalausa erfiðleika sína. Tommi sat alltaf í öftustu röð, þannig að hann gæti teygt úr löppunum og sofið, frekar en að hlusta á þessa bölvuðu vitleysu sem vall upp úr fólki, en honum var alveg fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum það gat hjálpað einhverjum að standa frammi fyrir ógæfufólki og játa á sig allskonar ófögnuð. Ef hann svaf ekki, þá einbeitti hann sér að því að ná augnsambandi við þann sem stóð í pontunni. Þegar því var náð, lét hann efri tanngóm, sem var úr plasti, detta fram fyrir þann neðri. Ef það dugði ekki til, geiflaði hann sig enn frekar og lét góminn hálfan út um munninn. Svona hélt hann áfram að leika sér, alveg þar til viðkomandi kom ekki upp orði, heldur veltist um af hlátri og varð frá að hverfa til að skyggja á ekki á alvöruna sem fylgir fundum af þessu tagi.

Tommi var mikill öðlingur og þótti öllum sem komust inn fyrir hrjúfa skelina, ofurvænt um hann.

Á árum áður starfaði Tommi sem lögreglumaður í Reykjavík. Hann hafði því hlutverki að gegna að skjóta flækingshunda og var því alltaf með hundabyssu tiltæka. Einhvern tímann, er hann gekk sinn rúnt niður í bæ, er hann fenginn til að elta þjóf sem tekur á rás út úr búð. Tommi, mikill að vexti, byrjar að hlaupa á eftir þjófnum sem var töluvert frárri á fæti en hann. Er bilið tekur að lengjast milli Tomma og þjófsins og Tommi alveg að gefast upp á hlaupunum, tekur hann upp hundabyssuna, sem hann geymdi í belti sínu og öskrar: “Stoppaðu, eða ég skýt!” Þjófurinn lætur viðvaranir Tomma sig engu varða, og eykur hraðann. Tommi miðar þá byssunni út í loftið og hleypir af. Manngreyiinu verður svo mikið um þetta að hann kastar sér á jörðina og liggur þar skelfingu lostinn, lamaður af ótta. Eftir þetta var Tommi aldrei kallaður neitt annað en Tommi hundabyssuhvellur.

Hér eru videomyndir af Tomma, sem ég tók af honum þegar hann bauð mér í stórsteik að heimili sínu rétt hjá Rauðavatni. Ég hafði þennan dag, komið til hans með slátturorf frá Kópavogsbæ og slegið garðinn hans. Svo þakklátur var hann fyrir viðvikið að hann keypti tvo innkaupapoka fulla af kjöti og meðlæti og sló upp veislu sem er eitt rausnarlegasta borðhald sem ég hef setið. Það má sjá á þessum klippum að hann var mikill húmoristi, og alltaf til í að bregða á leik.

Bæjarmelir

[MEDIA=31]

Fyrir hartnær tuttugu árum síðan mætti ég með VHS upptökuvél í Bæjarvinnuna í Kópavogi. Þetta var á þeim árum sem Kópavogur var sveitarfélag afmarkað tveimur skítalækjum; einum fyrir norðan bæinn og öðrum sunnan meginn. Nú er Kópavogur á stærð við Nýju Jórvík og í stað skítalækjanna, rennur í gegnum bæinn lækur með eitt það tærasta ferskvatn sem finnst á Íslandi. Lækur sem álfadrottningar lauga sig í.

Á þeim árum sem ég vann sem handverksamaður hjá Kópavogsbæ, kynntist ég dýrðlegum manni af gamla skólanum sem átti eftir að reynast mér afskaplega vel. Hann hét Sveinn Sverrir Sveinsson. Hann bjó yfir miklum orðaforða og hafði ríka og skemmtilega kímnigáfu.

Sveinn hafði gaman af að vinna með höndunum. Oft var hann að dytta að einhverju sem hann hugðist svo gefa barnabörnunum sínum. Eitthvað sem einhver hafði hent, fann Sveinn not fyrir. Þannig að barnabörn Sveins fengu stundum að gjöf, stereo græjur, með ósamstæða hátalara, og fleira í þeim dúr. En umfram allt, elskaði Sveinn að segja sögur. Sögurnar gerðust oftar en ekki í neðribyggðum, eins og hann kallaði þær. Sögurnar voru kallaðar í bæjarvinnunni kúkasögur, og þó svo að þær væru stundum andskoti grófar var ekki til sú manneskja sem ekki hafði yndi af að heyra Svein segja frá.

Sveinn var mjög kjaftfor og ef honum fannst á sér, eða sínum brotið, mátti sá hinn sami vara sig. Hann notaði hvert það tækifæri sem honum gafst til að hnýta í fólk, sem taldi sig æðra verkamanninum. Hann hafði af því mikið gaman. Stjórnendur og aðrir fyrirmenn, lögðu lykkju á leið sína til að reita ekki Svein til reiði.

Stuttu eftir að ég tók upp VHS myndirnar hætti ég að vinna fyrir Kópavogsbæ og hóf spítalastörf. Líf mitt tók óvænta stefnu og ég fór erlendis. Í einni viðkomu hérna heima árið 1996 hitti ég Svein. Hann var hinn hressasti og sagði mér eitt eða tvö ævintýri sem hann hafði komið sjálfum sér í. Þetta varð í síðasta skiptið sem ég hitti þennan vin minn. Síðan þá fékk ég einstaka sinnum fréttir af honum. Það var svo á síðasta ári, þegar ég hitti sameiginlegan kunningja okkar að ég fékk að vita að Sveinn hefði dáið 2004.

Hugmynd mín í upphafi var að birta einungis fáein myndbrot með Sveini, en svo teygðist úr þeim á klippiborðinu, og fyrir utan Svein má sjá: Hörð Júlíusson, Ragnar Lárusson, Árna Björgvinsson, Svein Wiium, Sölva Jónasson, Hreim og Sigurð Jakobsson.

Flestir þeirra sem ég vann með á þessum tíma, hef ég ekki hitt síðan þá. Sumir eru horfnir yfir móðuna miklu, aðrir eru eftir því sem ég best veit ennþá að vinna hjá Bænum. Í mínum huga þá líta þessir kallar ennþá bara nákvæmlega svona út. Þeir hafa ekkert elst, og fyrir mér þá eldast þeir ekki neitt, ekki fyrr en ég hitti þá.

Lífið er einkennilegt.

Eldri blog um Svein:
Hann er einn tittlingur! April 8, 2007 01:04
Svenni October 21, 2006 20:10

Hann er einn tittlingur

Ég var staddur á kaffihúsi um daginn, að fá mér molasopa. Mér finnst gott að fá mér molasopa, einstaka sinnum. Þó svo slíkar uppákomur reynist offitusjúklingi eins og mér erfiðar, ef ekki stórhættulegar.

Á borði ekki svo langt í burtu sátu tvær ungar konur í blóma lífs síns. Þær voru ekki búnar að sitja þar lengi, þegar hjá þeim settist stálpaður karlmaður. Hann bar sig mannalega, og að mér virtist vera að segja eitthvað sem umbyltir nútíma lifnaðarháttum. Ég fylgdist með þeim, þar sem ekkert spennandi var að gerast á mínu borði.

Ég geri þetta reyndar oft þegar ég sit á kaffihúsum, sökum þess hversu gott það er að týna sér í öðru fólki. Ég þarf þá ekki að velta því fyrir mér hvers vegna %!#&%”!#$!#, eða hvað __________ gangi til. Allavega ekki rétt á meðan.

Eftir að hafa fylgst með manninum drykklanga stund, tók ég eftir því að hann hafði mætt þarna til að funda með þessum konum með tittlinginn á sér með í för.

Þegar ég var unglingur vann ég með gömlum karli, sem hafði það fyrir venju að tala illa um velflesta. Hann var alveg yndislegur. Hann átti það til, þegar kvennaflagarar voru annars vegar, að segja sisona, “Gúndi grafa!! Hann er ekkert nema tittlingurinn.”, eða “Hann Sverrir, hann er einn tittlingur”.

Síðan ég gerði þessa uppgögvun, hef ég orðið þess áskynja að það er nokkuð algengt að karlmenn mæti með tittlinginn á sér á mannamót.

Oft flækist tittlingurinn fyrir, eða þá verður hann hluti af samskiptunum, rétt eins og lífvera sem lifir sjálfstæðu lífi.

Ég hef ákveðið að fara aldrei aftur á mannamót.

Svenni

Í nótt hitti ég fyrir í draumi gamlan vin minn sem andaðist fyrir tveimur árum síðan. Hann var alveg sérstaklega kjaftfor og alveg ævintýralega skemmtilegur. Við unnum saman hjá Kópavogsbæ, fyrir ríflega hálfum öðrum áratug síðan.

Í draumnum hafði ég neyðst til að fara vinna þar aftur, vegna þess að viðskiptalífið hafði ekki borið þann ávöxt sem ég áætlaði. Ég var á leiðinni í kaffi á fyrsta vinnudeginum mínum og var búinn að kasta kveðju á nokkra sem ég kannaðist við frá fornu fari.

Inn á kaffistofu sá ég meistarann sitja í appelsínugulum heilgalla. Hann var niðursokkinn í að segja þeim er þar voru svaðilsögur, þegar ég staðnæmdist beint fyrir framan hann. “Nei, hver andskotinn, ert þetta þú kvikindið þitt?”, sagði hann þegar hann varð mín var. Hann var að reykja Rosa Danica vindil, sem var eftirlætið hans. “Ég hélt þú værir steindauður!”, sagði ég og réði mér varla fyrir kátinu yfir að fá að hitta hann aftur. “Hver í andskotanum laug því í þig?”, það skríkti í honum. Ég fór að útskýra það fyrir honum hver hefði sagt mér frá því að hann væri allur. “Nei, ég er ekki dauður eitt né neitt”, sagði hann og hló kröftuglega, þangað til hann fór að hósta.

Klukkan var orðin rúmlega 10 að morgni og ég vaknaði skælbrosandi.

Orð eins og bekenna, heilgalli, samsorta, stútkunta, legáti og drulluháleistur, eru orð sem hann Sveinn vinur minn kenndi mér að nota í bæði leik og starfi.

Draugagangur

Þegar ég var barn eyddi ég öllum mínum stundum hjá gamalli konu sem bjó í nágrenni mínu. Hún var mér ákaflega góð. Hún var ekkja, en átti nokkur uppkomin börn ásamt barnabörnum. Hún bjó í rauðu húsi niður í móa. Hún sat við opinn gluggann sinn og fylgdist með okkur krökkunum leika í móanum. Áður en ég vissi var ég farinn að venja komur mínar í heimsókn til hennar. Henni þótt afar vænt um það. Ég sá það í hvert það skipti sem hún lauk upp dyrunum fyrir mér, þá lifnaði yfir henni og hún bauð mig velkominn. “Nei, er þetta ekki hann Sigurður minn” sagði hún himinlifandi þegar hún sá hver stóð fyrir utan. Mér leið alveg prýðilega í hennar félagsskap. Mér leið betur hjá henni en í félagi við krakkaskrímslin sem ég neyddist til að eiga samskipti við. Hjá henni fannst mér ég vera óhultur frá heiminum sem ég var strax á þessum aldri farinn að upplifa miskunnarlausan.

Hún var mér yndisleg. Ég óx úr grasi, en kynni okkar héldu áfram. Einhvern tímann gerðum við samkomulag okkar á milli. Við vorum nokkuð viss um sökum aldurs að þá yrði hún að öllum líkindum fyrri til að kveðja yfir móðuna miklu. Við urðum ásátt um að hún reyndi eftir fremsta megni að láta mig vita af sér eftir að hún væri öll.
Árin liðu. Úr mér teygðist og lífið varð flóknara. Mig tekur það sárt að hafa ekki sinnt henni síðustu ár ævi hennar. En því miður réri ég róður á lífssins ólgusjó þegar hún kvaddi þennan heim.

Ég hef aldrei orðið var við hana síðan þá. Mig hefur oft og mörgum sinnum dreymt húsið sem hún átti heima í þegar ég kynntist henni. En aldrei hana. Síðustu nótt hinsvegar dreymdi mig hana. Ég man ekki nákvæmlega hvað var að gerast í draumnum. Ég man einungis að mér þótti það óþægilegt. Einhvern meginn milli svefns og vöku ákvað ég að ef hún væri á svæðinu, þá ætlaði ég að láta hana vita af því að ég hefði orðið hennar var. Með það í huga sagði ég nafnið hennar upphátt. Í kjölfarið á því, fékk ég þá almestu gæsahúð sem ég hef fengið í svefni. Gæsahúð sem hríslaðist um mig allan.

Ef þetta var vinkona mín að læðast þarna upp að mér, þá tók hún sér aldeilis tíma í að standa við samkomulag okkar. 🙂