Sveinn forseti

Sama dag og andlit okkar út á við tilkynnti ákvörðun sína um að bera Ísbjörg númer tvö undir sauðheimska þjóðina, fór ég út að hlaupa í nýjum og glæsilegum þartilgerðum galla sem prýðileg heitmey mín gaf mér í jólagjöf. Nístandi kuldinn í borg Kóngsins hafði ekki áhrif á mig, þar sem ég logaði af bræði. Þegar ég hleyp, framleiðir líkaminn svokölluð gúddí gúddí boðefni sem hafa góð áhrif á heilastarfsemina. Þá oftar en ekki verða til tímamótahugsanir af þeirri tegund sem vitnað er í. Það var þó ekki í þetta skiptið. Ég fann engan nýjan vinkil á þessum skelfilega þykjustuleik mannsins sem gengur aðallega út á þjáningu, að undanskildum fáeinum gleðistundum. En reiðin brann innra með mér og ég hugsaði spjátrungnum á Bessastöðum til heitasta helvítis fyrir að framlengja þessum ósköpum sem gert hefur margan Íslendinginn niðurdreginn.

Ekki langt frá kirkjugarðinum á Jagtvej, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég vann hjá hjá Kópavogsbæ. Þar kynntist ég kærum vin og miklum fjörkálf, Sveini Sverri Sveinssyni, þá á sjötugsaldri, en nú horfinn yfir lækinn. Ég átti í bölvuðum erfiðleikum með að skilja hlutverk mitt í lífinu. Hann tók að sér að lóðsa mig inn fyrir hafnargarðinn, en þar hef ég staðið í stað síðan leiðir okkar skildu. (Hugsanlega leggst ég svo upp að bryggju um það leiti sem ég kveð þennan heim.)

En þegar þetta var vissi Sveinn nógu mikið til að segja mér hvaða stefnu ég ætti að taka og fyrir það dýrkaði ég hann. Flest af því sem hann hafði að segja fyrstu árin sem við þekktumst var í mínum huga heilög ritning. Hann var guðdómlega orðljótur og af honum lærði ég fallegustu orðin sem ég kann. Orð eins og legáti, drulluháleistur, láfa; allt orð sem ég nota enn þann daginn í dag, sérstaklega þegar ég vil komast til meta í viðskiptaheiminum.

Hann tók mig með sér á fundi hjá samtökum sem hafa að geyma leiðinlegasta fólk sem fyrirfinnst á jörðinni. Hann var í forsvari fyrir einn af þessum fundum, sem voru haldnir vikulega hvern fimmtudag. Oft tók hann sjálfur að sér að leiða fundina og notaði þá allan fundartímann til að ræða ítarlega um menn og málefni; þá yfirleitt mennina sem sátu fundinn og málefni sem tengdust þeim. Fundirnir sem áttu að vera klukkutími, urðu stundum tveggja tíma langir. Sveinn sá þá um innganginn sem var um 45 mín, leyfði svo einhverjum leiðindarskjóðum að blaðra í kannski hálftíma, og notaði síðan önnur þrjú korter til að slíta honum. En það voru góðu fundirnir. Vondu fundirnir voru þegar hinir komust of lengi að.

En hvað hefur þetta með forsetann að gera?

Einu sinni sem oftar sátum ég, Sveinn og fleiri í kaffikróknum, drukkum kaffi, reyktum tóbak og ræddum málin. Það var farið að líða að hádegi þegar inn gengur borubrattur Ólafur Ragnar Grímsson og boðar til framboðsfundar í matsalnum. Hann spyr hvort við ætlum ekki að koma á fundinn. Sveinn horfir á hann illum augum, og hreytir síðan út úr sér: “Ég sit engan helvítis fund með þér!” Ólafur umlar eitthvað, verður vandræðalegur og gengur inn í matsalinn og á eftir honum allir rassakyssararnir sem störfuðu þarna á þessum tíma. Ég ekki þar á meðal! Ég var ekki að fara að sitja fund sem haldinn var í óþökk læriföður míns. Ég vissi ekki út af hverju honum var svona illa við hann, en ég veit að margir af sömu kynslóð og Sveinn, þar á meðal pabbi minn höfðu og hafa horn í síðu hans.

Sveinn Sverrir Sveinsson lést árið 2004, 80 ára gamall. Hann rífur reglulega kjaft við mig í draumum mínum. Eftir þær nætur vakna ég skælbrosandi.

Hér stutt myndband af Sveini sem ég tók, þegar við sáum saman um brennu, áramótin 1991/92.

[media id=228 width=420 height=236]

Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar ég sé kallinn.

Meira um Svein:

Bæjarmelir
Svenni
Hann er einn tittlingur!

One thought on “Sveinn forseti”

  1. Þú mátt þakka honum ævinlega fyrir innlegg sitt í líf þitt.

Comments are closed.