Er hægt að lifa án lyginnar?

Varúð! Þetta er ekki pólitískur pistill. Smelltu hér til að fylgjast með pólitísku fjasi.

Hefst þá pistillinn:

Á uppvaxtarárum mínum var ég viss um að einhver, mögulega foreldrar mínir, vissi nákvæmlega hvernig heimurinn virkar og hvaða reglum væri snjallt að fylgja til að tryggja hamingju til dauðadags. Ég var alinn upp við gömul og góð gildi. Lærði nægjusemi, hógværð, heiðarleika, að þeir fiskuðu sem sóttu sjóinn, osfrv. Foreldrar mínir lifðu hefðbundnu lífi, byggðu hús, eignuðust börn, reistu girðingu við lóðatakmörkin, fóru í útilegur, ferðuðust reglulega til fjarlægra landa og gerðu allt samkvæmt óskrifaðri bók um hvernig lifa skal eðlilegu lífi. Þau bæði gengu sér til húðar við að viðhalda þessari hugmynd, sem var ekki einu sinni þeirra eigin. Með tíð og tíma, fór að örla á sprungum í glansmyndinni, og á endanum molnaði hún niður ásamt öllu því sem þau trúðu á.

Nú á dögum er þetta mun tíðara. Skilnaður er í flestum tilfellum orðinn óumflýjanlegur hluti þess að ganga í hjónaband og bara hrekklaus fífl sem reiða sig á það eitt að hjónabandið gangi upp og þar með lífið. Ekkert er fyrir víst í þessum heimi og þegar mér varð ljóst að foreldrar mínir voru engu nær um hver ég var, hvað ég væri að gera hérna og í hvað stefndi, leitaði ég annað.

Nú þegar ég á aðeins örfáa mánuði í fertugt hef ég á lífsleiðinni hitt urmul af fólki sem telur sig vita hvernig ber að lifa þessu lífi. Ég sjálfur er hinsvegar alveg grunlaus. Á síðustu tíu árum hef ég breyst úr einhverjum sem hefði feginn verið tilbúinn að tileinka sér einhverja andskotans vitleysu, trúarlega eða heimspekilega, – í mann mikilla efasemda. Þó svo mér finnist efinn vera eina skynsamlega nálgunin á nánast alla hluti, þá hef ég ekki með efanum fundið mér stað í heiminum þar sem ég get sungið óáreittur lollypop, lollypop og gefið sjálfum mér frí frá þessum eilífu vangaveltum um lífið og tilgang þess. Þess í stað hefur hugsun mín orðið kaldari, það köld að stundum á ég bágt með að trúa á að maðurinn geri nokkuð ef það breytir ekki hans eigin líðan til hins betra.

Ég hef verið í tilvistarklípu alveg frá því að ég man eftir mér. Ég get ekki að því gert. Það er óhugsandi fyrir mig úr því sem komið er, að hola mér niður í sófa með feitabollupakkningar af Doritos flögum, glápa á sjónvarp og kalla það líf. Þrátt fyrir að líf efasemdamannsins innihaldi meiri sársauka, er það mun eftirsóknarverðara en líf þess sem lifir fyrir það eitt að runka líkamanum.

Fyrirsögnin á þessum veflók gæti gefið til kynna að ég hefði í hyggju að svara þessari spurningu, en svo er ekki. Ég á engin svör.

[flowplayer id=229 width=520 height=390]