Svik og prettir

djembesvindl1

Ég varð miður mín, brotnaði saman í pósthúsinu og fór að gráta, þegar ég sá stærðina á pakkanum, sem átti samkvæmt mínum hugmyndum að vera allavega 10 sinnum stærri. “Hvað er þetta?” gargaði ég á póstkonuna. Nei, þarna ýki ég svolítið – ég gargaði ekki á póstkonuna. Ég færi ekki að garga á nokkurn mann, síst þau þarna í Pósthússtræti, sem eru eins og blómstrið eina.

En eitthvað hefur djembe tromman skroppið saman í flugi frá Ísrael, eða þá að ég hef ekki meira vit á þessari tegund tromma en það að mér er ekki kunnugt um að hægt er að fá þær í öllum stærðum og gerðum. Ég hélt að djembe trommur væru bara í til í einni stærð, en eftir einfalda leit, sé ég að þær eru allt frá 12″ upp í 28″ á hæð, með haus frá 7″ upp í 14″, en tromman sem ég hélt að ég væri að kaupa var í stærri kantinum, svipuð trommunum sem ég skoðaði á Klapparstígnum, sem kosta 30-70 þúsund verðleysingja.

Ha, ha, heyrði ég innan í mér, þegar ég pantaði trommuna á ebay, og borgaði fyrir hana 39 Gogga Washingtóna. 70 þúsund verðleysingjar hvað. Ég geri öll mín innkaup á ebay, og er snöggur að því, og svo hló ég eins og sjálfumglaður nýríkur bankamaður fyrir kúk-í-viftutímabilið. Og hér er afraksturinn af þeim kaupum. Ef ég mætti með þessa trommu í djembe hringinn hans Karls Ágústs Úlfssonar, þá yrði híað á mig þar til ég hrökklaðist úr hringnum með lúsertilfinningu í sálinni. En þetta er örugglega fín mótmælatromma, og í þessari tíð er gott að eiga góða mótmælatrommu að grípa í. Eitthvað segir mér að…….

Í fjárhagslegri sóttkví

Í nútímasamfélagi(þetta er góð byrjun á pistli sem dreymir um að vera tekinn alvarlega) þykir gott að takast á við vandamál með að breyta vandamálinu í sjúkdóm. Eftirköst brjálæðislegrar eyðslu einstaklinga og fyrirtækja undanfarin ár, má nú líta á sem veikindi. Sama fólk og eyddi frítíma sínum með skyndibitaútroðinni fjölskyldu í Kringlunni kaupandi meira drasl til að troða upp í tómarúm tilveru sinnar, getur nú sameinast um að vera fjárhagslega veikt, enda þægilegra að vera veikur á eyju sem sett hefur verið í fjárhagslegt sóttkví, en að játa að maður sé fokking fáviti fyrir að eyða um efni fram. Meira að segja hugsandi fólk, fólk sem tók ekki virkan þátt í gleðskap auðlífsseggja, talar nú innilega um fjárhagslega heilsu sína. Að sjálfsögðu var það fjármálafyrirtæki(eitt af þeim fáu sem ekki er farið á hausinn) sem varð til að sjúkdómavæða fjárhag landsmanna með að setja af stað herferð sem auglýsir viðbrögð við þessum nýtilkomna sjúkdómi. Og viti menn, nú þykir jafn töff og sniðugt að tala um fjárhagslega heilsu og um skjaldborgir, Freudian slip, kreppuklám, eða hvaða hugtök sem við kjósum að apa upp eftir hvoru öðru í örvæntingafullri tilraun til að koma orðum yfir fyrirbæri sem við vitum ekki enn hvað er, eða kemur til með að verða.

Hið íslenska bankarán í sinnemaskópi og tæknilitum

[media id=207 width=520 height=280]

Á þessum tímapunkti í andlegri reisu minni, þykir mér rétt að gangast við þessu fallega myndbandi sem gert var almenningi aðgengilegt á þúskjá fyrir einhverju síðan. Óþverrinn varð til í sjúkum hausnum á góðvini mínum Hákoni Jens Péturssyni, og var ein af fyrstu tökum á glæsilega RED vél í eigu Jóa tökumanns(sem ég veit ekki hvað heitir fullu nafni). Þetta þrekvirki mannsandans vakti með mér blendnar tilfinningar og á tímabili óskaði ég þess að það færi ofan í skúffu í byggingu sem svo síðar myndi kveikna í og brenna til grunna. Ég hef séð hræðilegar myndir af sjálfum mér þar sem ég er blindfullur og ógeðslegur, en ég hef aldrei séð sjálfan mig jafn viðurstyggilegan og í þessari stuttmynd. Burtséð frá lokaatriðinu, þá er ég ekki einn um að gera þessa mynd viðbjóðslega, því vinir mínir Guðmundur Oddsson og Mörður Ingólfsson eru líka ógeðslega ógeðslegir;myndin verður því að teljast vel lukkuð. Hún var tekin síðasta sumar, fyrir hrun. Ég klippti hana, en þar sem hljóðið sem fylgdi með upptökunni var hálfónýtt, lá hún óhreyfð í marga mánuði, þar til að mikill snillingur aumkaði sér yfir okkur og lagaði hljóðið. Ég álít myndina glæsilega viðbót við videósafnið mitt, og vil árétta að ég er ekki svona viðbjóðslegur í lifanda lífi.

Tómstundir, ömurlegar hugmyndir, kynjahlutverk og hannyrðir

djambedjambeÞessa fínu djembe trommu hef ég nú fest fé í. Hún kostaði mig 39 Gogga Washingtona. Seljandinn er staddur í Tel Aviv, en tromman er búin til af handverksmanni í Egyptalandi.

Meira um tómstundir.

Ég hef á lífsævi minni safnað í sarp sálu minnar urmul af ömurlegum hugmyndum um hvað þykir við hæfi og hvað ekki – og það alveg gegn mínum eigin vilja. Hugur minn þegar ég var 0 ára, var hreinlundaður, fagur, óttalaus. Nú er ég nálgast fertugsaldurinn, fer umtalsverð andleg orka í að mola niður gagnslausar hugmyndir sem ég hef síðustu áratugi gert að mínum. Sumar af þessum hugmyndum taldi ég gefa lífi mínu einhvern tilgang, en þegar ég athuga þær betur og kanna uppruna þeirra, er mér ljóst að ég hef tileinkað mér gömul graftarkýli samfélagsins sem ég ólst upp í.

Þetta er ósköp einkennilegt allt saman. Fyrsta hluta ævinnar, safna ég þindarlaust heilu úthafi af hugsjónum, lífsspeki, og allskonar andlegu drasli, seinni hlutann(gerum ráð fyrir að lífið sé þrír eppisóðar) fer í innra jíhad; styrjöld við ídeur sem lifa sjálfstæðu lífi í sálinni og eitra huga minn. Margar af þessum spekúlasjónum nærast á lífskrafti mínum; einskonar ánauð sem ég hef sett huga minn í.

Hugmyndir um kynjahlutverk eru með þeim fáranlegustu sem ég veit í samfélagi fólks. Mér ofbýður svo þetta kjaftæði að ég hef ákveðið að kosta öllu til að losna undan hlutverkaskiptingu karla og kvenna. Ekki svo að skilja að ég ætli að leita leiða til að bera börn. En ég ætla að gera það sem gleður hjarta mitt, burtséð frá því hvort einhverjum finnist það vera mér sem karlmanni til minnkunar. Nei, þið eigið ekki eftir að sjá mig dansa niður Bankastræti íklæddur kjól syngjandi Donna Summers lög. En hugsanlega á eftir að sjást til mín í hannyrðaverslunum, kaupandi mér garn og hringprjón. Því fátt er eins græðandi fyrir sálarhróið og prjónaskapur.

Um geðheilbrigði og Ísland eftir hrun.

Til að passa upp á lundarfar mitt, ætla ég að hætta að lesa blogg, nema þau sem ég er með í Rasslesaranum mínum. Ég hef lokað fyrir eftirfarandi netmiðla: Facebook og blogggáttin. Prjónaskapur fyllir út í tómarúmið sem fylgir því að hætta á facebook og í stað þess að lesa mig í gegnum hin og þessi blogg(oftast á blogggáttinni) ætla ég að einbeita mér að bókmenntum.

Litli maðurinn og hitaveitan

Í haust, þegar aðeins var byrjað að kólna í veðri, bankaði upp á hjá mér lágvaxinn maður. Ég, sem er bæði kurteis og nærgætinn, bauð honum inn. Honum var mikið niðri fyrir. Ég man ekki til þess að hann hafi kynnt sig eða gert grein fyrir sér, en mér reiknaðist til að hann væri næturgagn konunnar sem býr í eigninni sem litla húsið mitt tilheyrir.

Í dúkkuhúsinu mínu eru aðeins tveir ofnar, einn í dönsku stofunni og einn inn á baðherbergi. Ég hef örlítið vit á ofnum og veit að þegar búið er að skrúfa þá rétt upp undir þrjá, þá er ekki snjallt að hækka meira í þeim. Allt yfir þremur er stöðugt gegnumstreymi sem rænir aðra ofna og kostar húsráðanda formúu, en hitar ekkert meira. Þegar lágvaxni maðurinn þreifaði á ofninum inn í stofu, var hann stilltur á tvo. Hann hitaði sæmilega. Ég vissi að hann var undir leyfilegum mörkum, og að ég væri ekki að svína á þeim sem deildu með mér hitaveitu.

Hann tilkynnti mér hátíðlega að það væri engin ástæða fyrir mig að vera með ofnana á meira en hálfum og skrúfaði niður í ofninum án þess að spyrja mig leyfis. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við, og áttaði mig ekki á hvað mannhelvítið var að gera. Eftir að hafa gert það sama við ofninn inn á baði, kvaddi lágvaxni maðurinn og ég lokaði hurðinni á eftir honum. Eftir u.þ.b hálftíma var orðið skítkalt í dúkkuhúsinu. Ég stillti þá ofnana eins og þeir voru áður en maðurinn tók á mér hús.

Í hvert skipti sem ég sé manninn, þá hugsa ég: Þarna fer litli maðurinn, sem var svo vinsamlegur að skrúfa niður í öllum ofnunum mínum svo mér yrði kalt og honum yrði hlýtt. Heimurinn er fullur af litlum köllum sem vilja skrúfa niður í ofninum þínum.

Dekkri hlið sálu minnar

ytingar

Hér gefur að líta nokkuð glæsilega mynd af mér þar sem ég geri aðsúg að hæstvirtum forsætisráðherra í janúar. Við þessar óvanalegu aðstæður vaknaði upp í mér demón, sem ég veit að blundar innra með mér, en ég reyni að halda sofandi með fallega löguðum hugsunum sem Ghandi og móðir Teresa væru hreykin af. Þessi mynd er ekki lýsandi fyrir mína persónu, enda ég alinn upp fyrir sunnan skítalæk í kristilegum glitfíflaverðlaunagarði. Og nú þar sem ég hef gert grein fyrir hver ég er og úr hvaða jarðvegi ég er sprottinn, ætla ég að gangast við örlitlu kuski á hvítflibba mannlegrar tilvistar minnar.

Ég geri mér grein fyrir að ef þetta væri moggablogg, yrði ég úthrópaður ólátabelgur, skríll og drulluháleistur, enda moggabloggarar upp til hópa svo siðavandir að þeim er fyrirmunað að sjá að í sálu mannskepnunnar má alltaf finna einhvern ranghala, óskapnað, skúmaskot. Í moggablogglandi er maðurinn annaðhvort vondur eða góður. Hann er rang- eða réttsýnn. Þó er drullan og ógeðið hvergi meiri en á moggablogginu. Moggablogg er ekki bara moggablogg, heldur samnefnari fyrir heimsku mannskepnunnar.

Andrúmsloftið við Stjórnarráðið var tryllingslegt. Þegar svartstakkarnir byrjuðu að hrinda fólki úr veginum upplifði ég einkennilega, en jafnframt mjög hressandi tilfinningu sem blindaði um stund raunveruleikamat mitt. Tíminn hægði á sér, nógu lengi til að ég gæti tekið ákvörðun um hvort ég léti undan brennandi löngun minni til að keyra sælgætisdolluna sem ég held á í hjálminn á lögreglumanni sem ógnaði mér með kylfu. Dýrið í mér gargaði, og heimtaði að skynsemi viki fyrir réttlæti. “Réttlæti á svona stundum er einungis náð fram með ofbeldi” urraði dýrið. “En kæra dýr” sagði ég, eða sá hluti af mér sem er tileinkaður skynsemishugsun “ef ég læt þessa makkintossdollu vaða í hjálminn á þessum ágæta lögreglumanni, sem er þegar öllu er á botninn hvolft, einungis að sinna sínum skyldustörfum, verð ég að öllum líkindum ferjaður með diskóbílnum upp á sjúkrahús, eða lögreglustöð, þar sem ég fengi að vera fram eftir degi, og þá myndi ég missa af restinni af þessum sögulegu mótmælum, það væri nú hálfsorglegt kæra dýr, ekki satt?”

Og svona diskúteraði ég við dýrið í sjálfum mér meðan veröldin stóð kyrr og beið eftir úrskurði. Lögreglumennirnir fyrir framan mig minntu mig á fasistana á kápu bókarinnar Pigtrad sem ég las í dönsku í menntaskóla. Bollaleggingar mínar um hvort ég ætti að svara ofbeldi með ofbeldi stóðu ekki yfir lengur en tvær sekúndur. Skynsemi mín, eða bjartari hlið sálu minnar hafði betur í þessum andlega slag, en ég áttaði mig á að innra með mér er ekki bara tónaflóð, ruþmi og melódía, heldur líka dekkri hlið sem verður sýnileg við aðstæður sem þessar.

Alþjóðlegir móðurríðarar

imf

Hvað þýðir “internasjónal” pabbi? spurði dóttir mín, er við brunuðum á Opel bifreið minni eftir Kleppsveginum. “Alþjóðlegt, eða Alþjóðlegir ” sagði ég með föðurlegri og djúpri viskurödd. “Internasjónal Moðer Fokkers, væri þá – Alþjóðlegt…. Mömmu…. ?” hana setti hljóða, meðan hún reyndi að pússla saman orðunum í höfði sér. Án þess að beinlínis vilja það, heyrði ég sjálfa mig segja hátt og snjallt: “Alþjóðlegir móðurríðarar” og um leið og ég sleppti orðinu óskaði ég sjálfum mér norður í rassaborugat, þar sem orðljótir pabbar eru grillaðir í húminu af gráðugum Sjálfstæðismönnum.

Djembe og við erum þjóðin

vid_erum_thjodin

Hlið við hlið stóðu íslendingar, sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu ekki yrt á hvorn annan, og slógu magnþrunginn byltingartakt – séríslenskan rutma, gegn hinu spillta authorítet sem lagt hefur landið okkar í rúst.
Mótmælin, þá þrjá daga sem ég mætti, er viðburður sem ég mun ekki gleyma svo lengi sem ég lifi. Ég kenni í brjóst um þá sem sátu heima, þusuðu eins og moggabloggarar og neituðu sér um að taka þátt í einum af merkilegustu viðburðum Íslandssögunnar. Ég ímynda mér að það sé svipað og að hafa verið uppi á sjöunda áratugnum, búsettur í Saugerties, New York, en misst af Woodstock hátíðinni, sem var haldin í aðeins 40 kílómetra fjarlægð.

Stéttaskipting, eða hver þú ert, hvað þú heitir, hvernig þú lítur út – hætti að skipta máli við mótmælin á Austurvelli. Þarna var samankomið fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins, sem átti það sameiginlegt að hafa fengið nóg af þeim skít sem valdamenn hafa sótt í rassaboruna á sér undanfarin ár og makað framan í þjóðina.

Hvað um það. Ég finn ekki hjá mér þörf til að endurtaka eitthvað sem poppskáld hafa sagt á litríkari og ljóðrænni máta en mér er fært. Það var annað sem ég uppgötvaði í mótmælunum. Ég komst að því að það er beinlínis frelsandi fyrir mannshugann að slá takt, hvort sem það er tromma, eða makkintoss dós. Ættbálkastemningin, dansinn og gleðin, þrátt fyrir erfiða tíma, – gaf anda mínum vængi.

Í desember sá ég mynd sem heitir The Visitor. Hún er um prófessor í hagfræði(Walter Vale), sem lifir lífinu sofandi. Hann er stífur og formfastur, og hefur átt fáa gleðidaga síðan konan hans dó. Hann er í raun fangi sjálfs síns. Fyrir hendingu kynnist hann manni(Tarek Khalil), sem kennir honum að slá á djembe trommu. Hér má sjá brot, þar sem Tarek sýnir Walter hvernig á að handleika trommuna:

[media id=205 width=520 height=390]

Eftir að hafa æft sig, fer Tarek með Walter á uppákomu í Central Park, þar sem djembe trommarar safnast saman og slá taktinn. Hann er smeykur við að setjast með þeim, en lætur sig þó hafa það.

[media id=206 width=520 height=390]

Í dag greip mig æðisgengileg löngun til að keyra sem leið liggur til hrokapunganna í Tónastöðinni og kaupa mér Djembe. Því miður, eða sem betur fer, var búið að loka. Ég hef eytt kvöldinu í að kynna mér betur þessa tegund af trommu. Ég vissi tildæmis ekki að tromman héti Djembe, sem dregur nafn sitt af málshættinum: “Anke dje, anke be” á bambarísku sem þýðir bókstaflega “sameinumst öll”. Dje + be, verður einhverra hluta vegna að djembe. Ég vissi ekki heldur að til er búð á Klapparstígnum sem selur hljóðfæri úr þessum hluta heimsins. Þannig að eftir helgi ætla ég á Klapparstíginn að festa fé í djambe, að því gefnu að hún kosti ekki aleigu mína. Ef ég kemst hjá því að fara í Tónastöðina, þá get ég glaður við unað.