Litli maðurinn og hitaveitan

Í haust, þegar aðeins var byrjað að kólna í veðri, bankaði upp á hjá mér lágvaxinn maður. Ég, sem er bæði kurteis og nærgætinn, bauð honum inn. Honum var mikið niðri fyrir. Ég man ekki til þess að hann hafi kynnt sig eða gert grein fyrir sér, en mér reiknaðist til að hann væri næturgagn konunnar sem býr í eigninni sem litla húsið mitt tilheyrir.

Í dúkkuhúsinu mínu eru aðeins tveir ofnar, einn í dönsku stofunni og einn inn á baðherbergi. Ég hef örlítið vit á ofnum og veit að þegar búið er að skrúfa þá rétt upp undir þrjá, þá er ekki snjallt að hækka meira í þeim. Allt yfir þremur er stöðugt gegnumstreymi sem rænir aðra ofna og kostar húsráðanda formúu, en hitar ekkert meira. Þegar lágvaxni maðurinn þreifaði á ofninum inn í stofu, var hann stilltur á tvo. Hann hitaði sæmilega. Ég vissi að hann var undir leyfilegum mörkum, og að ég væri ekki að svína á þeim sem deildu með mér hitaveitu.

Hann tilkynnti mér hátíðlega að það væri engin ástæða fyrir mig að vera með ofnana á meira en hálfum og skrúfaði niður í ofninum án þess að spyrja mig leyfis. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við, og áttaði mig ekki á hvað mannhelvítið var að gera. Eftir að hafa gert það sama við ofninn inn á baði, kvaddi lágvaxni maðurinn og ég lokaði hurðinni á eftir honum. Eftir u.þ.b hálftíma var orðið skítkalt í dúkkuhúsinu. Ég stillti þá ofnana eins og þeir voru áður en maðurinn tók á mér hús.

Í hvert skipti sem ég sé manninn, þá hugsa ég: Þarna fer litli maðurinn, sem var svo vinsamlegur að skrúfa niður í öllum ofnunum mínum svo mér yrði kalt og honum yrði hlýtt. Heimurinn er fullur af litlum köllum sem vilja skrúfa niður í ofninum þínum.

2 thoughts on “Litli maðurinn og hitaveitan”

Comments are closed.